Harka Stjörnukonan Þórhildur Gunnarsdóttir fór af harðfylgi milli Sigurlaugar Rúnarsdóttur og Bryndísar Halldórsdóttur, leikmanna Vals, í leiknum í gær.
Harka Stjörnukonan Þórhildur Gunnarsdóttir fór af harðfylgi milli Sigurlaugar Rúnarsdóttur og Bryndísar Halldórsdóttur, leikmanna Vals, í leiknum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Haukar, Grótta, Stjarnan og ÍBV unnu leiki sína í fyrstu umferð átta liða úrslita Olís-deildar kvenna í handknattleik í gærkvöldi. Spennan var mest í þeim leik sem fæstir áttu e.t.v.

Haukar, Grótta, Stjarnan og ÍBV unnu leiki sína í fyrstu umferð átta liða úrslita Olís-deildar kvenna í handknattleik í gærkvöldi.

Spennan var mest í þeim leik sem fæstir áttu e.t.v. von á að yrði spennandi en það var viðureign deildarmeistara Hauka og Fylkis sem hafnaði í áttunda og síðasta sætinu sem gaf þátttökurétt í úrslitakeppninni. Eftir talsverðan barning unnu Haukar með fjögurra marka mun, 19:15, en lengst af í leiknum munaði aðeins einu til tveimur mörkum á liðunum.

Jafnræði var með Gróttu og Selfossi lengst af í fyrri hálfleik en rétt áður en flautað var til hálfleiks náði Grótta þriggja marka forskoti, 12:9. Í síðari hálfleik skildi leiðir. Gróttan tók öll völd á leikvellinum. Varnarleikur liðsins var frábær. Við honum áttu leikmenn Selfoss ekkert svar að þessu sinni og urðu að sætta sig við 10 marka tap, 27:17. Liðin reyna með sér á nýjan leik á Selfossi á laugardag.

Stjarnan gerði nánast út um leikinn við Val strax í fyrri hálfleik. Stjarnan var átta mörkum yfir í hálfleik, 17:9. Sóknarleikur Valsliðsins var hugmyndlaus meðan varnar- jafnt sem sóknarleikur Stjörnunnar var afar góður. Viðureign liðanna sem voru í fjórða og fimmta sæti varð aldrei jöfn. Stjarnan vann 27:20.

Leikmenn ÍBV ráku af sér slyðruorðið eftir slaka leiki undir lok deildarkeppninnar. Fyrri hálfleikurinn í Safamýri var í jafnvægi en þegar kom fram í þann síðari tóku leikmenn ÍBV af skarið og náðu forystunni sem liðið lét ekki af hendi. Lokatölur: 23:21 fyrir ÍBV.

*Morgunblaðið fór snemma í prentun í gærkvöld, eða um leið og leikjunum lauk. Nánari umfjöllun um þá er að finna á mbl.is/sport/handbolti. iben@mbl.is