Alþingi Bjarni Benediktsson segir að með því að flýta kosningum verði kjörtímabilið stytt um eitt löggjafarþing. Dagsetning ráðist af framvindu mála.
Alþingi Bjarni Benediktsson segir að með því að flýta kosningum verði kjörtímabilið stytt um eitt löggjafarþing. Dagsetning ráðist af framvindu mála. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa verið ófáanlegir til að fastsetja kjördag vegna alþingiskosninganna í haust og sagt það ótímabært.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa verið ófáanlegir til að fastsetja kjördag vegna alþingiskosninganna í haust og sagt það ótímabært. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru þó langmestar líkur taldar á því að kosningarnar fari fram undir lok september eða í byrjun október.

Ástæður þessa eru ekki síst praktískar vegna starfsáætlunar þingsins, tímafresta í kosningalögum og ákvæða stjórnarskrár um með hvaða fyrirvara skuli boða til kosninga.

Samkvæmt starfsáætlun yfirstandandi þings er gert ráð fyrir að þing komi saman til þingsetningar þriðjudaginn 13. september og þá hefjist 146. löggjafarþing. Þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því að kosningum yrði flýtt og kosið í haust sagði hann að kjörtímabilið yrði stytt um eitt löggjafarþing. Það hefur væntanlega í för með sér að haustþingið kemur ekki saman í september. Búið verði að rjúfa þing fyrir þann tíma og undirbúningur kosninganna hafinn.

Mörk kjördæma liggi fyrir fimm vikum fyrir kjördag

Samkvæmt stjórnarskrá þurfa kosningar að fara fram innan 45 daga frá því að þingrof er tilkynnt. Óvíst er hvað yfirstandandi þing mun standa langt fram á sumarið en að jafnaði er gert ráð fyrir sumarhléi á Alþingi frá 1. júlí til 10. ágúst. Þar sem kjósa þarf innan 45 daga frá þingrofi má því allt eins gera ráð fyrir að kalla þurfi þingið saman til aukafundar síðla sumars, hugsanlega í ágúst, til að afgreiða þingrof og boða til kosninga. Fordæmi eru fyrir slíkum aukafundi í þingsögunni. Árið 1999 stóðu þingkosningar fyrir dyrum í maí. Alþingi hafði lokið störfum 11. mars en þá voru meira en 45 dagar til kjördags og var þingið kallað saman til aukafundar 25. mars. Á honum var samþykkt breyting á stjórnarskránni (kjördæmamörkunum) og las Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, upp forsetabréf um þingrof og að kosningar til Alþingis færu fram laugardaginn 8. maí.

Þegar kjördagur hefur verið ákveðinn setja tímafrestir kosningalaga ákveðnar skorður. Landskjörstjórn þarf að ákveða mörk kjördæma í Reykjavík fimm vikum fyrir kjördag og auglýsa mörk kjördæmanna ekki síðar en fjórum vikum fyrir kjördag. Þurfa öll framboð að vera komin fram ekki síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag. Jafnframt skal hefja kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur.

Haustkosningar sjaldgæfar

Haustkosningar eru sjaldgæfar í íslenskri stjórnmálasögu en nokkur dæmi eru þó um þær. Kosið var að hausti á árunum 1942 og 1959 í tengslum við stjórnarskrárbreytingar. Þekktastar eru kosningarnar í byrjun desember 1979 og stjórnarkreppan sem fylgdi í kjölfarið, en þá tókst ekki að mynda meirihlutastjórn fyrr en í febrúar. Þetta olli einnig því að afgreiðsla fjárlaga dróst fram yfir áramót. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem sagði af sér í október 1979 hafði áður lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Setti minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sem tók við lög 31. desember um bráðabirgðafjárgreiðslur ríkissjóðs fyrir árið 1980 þar til ný fjárlög tækju gildi. Stjórnin lagði svo fram fjárlagafrumvarp í febrúar, en um sama leyti tók ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen við völdum. Hún lagði fram fjárlagafrumvarp í mars, sem varð að lögum í apríl.

Lagt fram í nóvember?

Nokkur óvissa hefur verið í umræðunni um hvenær fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram vegna haustkosninganna. Stjórnarskráin kveður á um að leggja eigi fjárlagafumvarpið fram á fyrsta degi nýs þings en það er þó ekki talið útiloka að það geti dregist eitthvað. Ef kosið verður í lok september eða í fyrri hluta október má gera ráð fyrir að grunnvinna við fjárlagagerðina s.s. tillögur ráðuneyta liggi fyrir þegar ný ríkisstjórn tekur við að loknum kosningum en hún fái svigrúm í einhverjar vikur, jafnvel fram í nóvember til að móta nýja stefnu í frumvarpinu. Finna má fordæmi fyrir þessu frá haustinu 1988 en þá sprakk ríkisstjórnin skömmu fyrir þingsetningu og ný var mynduð. Lagði Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, fjárlagafrumvarpið ekki fram á Alþingi fyrr en 1. nóvember þó þá mánuður væri liðinn frá þingsetningu.