[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Rimmurnar fjórar í 8 liða úrslitum Olísdeildar karla verða væntanlega misjafnlega spennandi.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is Rimmurnar fjórar í 8 liða úrslitum Olísdeildar karla verða væntanlega misjafnlega spennandi. Reikna má með að tvær þeirra verði jafnar en hinar tvær síðri vegna þess að of mikill getumunur er á liðunum sem þar eigast við. Um er að ræða viðureignir Íslands- og deildarmeistara Hauka og Akureyrar annars vegar og Reykjavíkurliðanna Fram og Vals hinsvegar.

Spennan verður væntanlega fyrst og fremst í leikjum ÍBV og Gróttu og Aftureldingar og FH. En úrslitakeppnina býður alltaf upp á spennu og óvænt úrslit. Flautað verður til leiks í Eyjum í kvöld klukkan 18.30 en í hinum þremur leikjunum klukkustund síðar.

ÍBV- Grótta 2:1

Sannast sagna er ómögulegt að slá einhverju föstu um úrslit í leikjum þessara liða. Munurinn á þeim er ekki mikill. Eyjamenn hafa verið brottgengir á leiktíðinni, ekki síst á heimavelli. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn en nú mun Arnar Pétursson geta stillt upp sínu sterkasta liði, reyndar að Nemanja Malovic undanskildum sem hefur verið úr leik frá upphafi leiktíðar vegna slitins krossbands. Gunnar Andrésson og lærisveinar hans eru til alls líklegir, ekki síst er þeir leika af þeim aga sem þjálfarinn vill. Þegar það hefur tekist hafa Gróttumenn verið hvað beittastir á leiktíðinni. Heimavöllurinn mun loksins reynast Eyjamönnum drjúgur. Hann skilar þeim sennilega í undanúrslit í oddaleik.

Haukar – Akureyri 2:0

Hér skilur einfaldlega of mikið á milli liðanna til þess að hægt sé að reikna með öðru en að Haukar vinni þessa rimmu í tveimur leikjum. Haukar hafa verið með jafnbesta liðið á keppnistímabilinu og engin merki eru uppi um að breyting verði þar á. Vörn og markvarsla eru aðal liðsins auk mikilla reynslu. Akureyringar eru talsvert á eftir enda munaði 26 stigum á liðunum þegar deildarkeppnin var gerð upp að loknum 27 umferðum. Akureyringar verða að bíða í ár eftir að komast í undanúrslit.

Valur – Fram 2:0

Hér má segja að sama sé uppi á teningnum og í rimmu Hauka og Akureyrar. Valsmenn eru með talsvert sterkara lið, meiri reynslu og breidd en Safamýrarliðið. Þess utan var endasprettur Framarar í deildarkeppninni ekki svo beysinn að ástæða sér til bjartsýni að þeir setji strik í reikning Valsmanna á leið þeirra í undanúrslitin enn eitt árið. Leikir liðanna hafa hins vegar oft verið spennandi í gegnum tíðina og svo getur vel orðið áfram en niðurstaðan verður sú sama og þegar liðin mættust í 8 liða úrslitum fyrir ári.

Afturelding – FH 1:2

Hér mætast stálin stinn. Aftureldingarmenn náðu ekki sama flugi í deildinni í vetur og í fyrra en náðu engu að síður heimaleikjarétti og þriðja sæti þegar upp var staðið. Afturelding fór alla leið í úrslitin í fyrra. Vafi leikur á að liðið endurtaki leikinn í gær ár. Til þess vantar meiri ferskleika í liðið sem e.t.v. fylgdi nýjabruminu í fyrra. FH-ingar risu úr öskustónni eftir áramótin og voru með einn bestn árangur liða í þriðja og síðasta hluta deildarkeppninnar. Vörnin hefur styrkst og markvarslan einnig. Hins vegar sýndi tapleikurinn fyrir Gróttu í næstsíðustu umferð Olís-deildinni að gamla FH-liðið er skammt undan. Þessir leikir verða hnífjafnir en væntanlega verður þarna eini útivallarsigurinn í 8 liða úrslitunum.
Úrslitakeppnin
» Fyrstu leikirnir fara fram í kvöld, ÍBV – Grótta kl. 18.30 en hinir þrír kl. 19.30.
» Akureyri og Haukar mætast öðru sinni á laugardag en hinir þrír leikirnir fara fram á sunnudag.
» Ef til oddaleikja kemur fara þeir fram þriðjudagskvöldið 19. apríl.
» Undanúrslit hefjast laugardaginn 23. apríl og eru leikið áfram 25. og 28. apríl. Ef með þarf, einnig 30. apríl og 3. maí.
» Fyrsti úrslitaleikurinn fer fram 8. maí og spilað er til 19. maí ef með þarf.