Atgangur Eyjamennirnir Kári Kristján Kristjánsson og Elliði Snær Viðarsson stöðva Gróttumanninn Styrmi Sigurðarson í leiknum í Eyjum í gærkvöld.
Atgangur Eyjamennirnir Kári Kristján Kristjánsson og Elliði Snær Viðarsson stöðva Gróttumanninn Styrmi Sigurðarson í leiknum í Eyjum í gærkvöld. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Eyjum Baldur Haraldsson sport@mbl.is Eyjamenn unnu fimm marka sigur á Gróttu, 32:27, í Eyjum í gær en um var að ræða fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik.

Í Eyjum

Baldur Haraldsson

sport@mbl.is

Eyjamenn unnu fimm marka sigur á Gróttu, 32:27, í Eyjum í gær en um var að ræða fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik. Mest varð forystan níu mörk en Gróttumenn minnkuðu muninn í lokin.

Mikil stemning var í Eyjum fyrir leiknum enda Eyjamenn orðnir vanir því að vera í úrslitakeppni og eru stuðningsmenn liðsins sólgnir í Íslandsmeistaratitil á ný. Hvítu riddararnir mættu heldur betur til leiks og eru þeir alltaf stór partur af leikjunum í Eyjum.

Gestirnir frá Seltjarnarnesi byrjuðu leikinn af miklum krafti en það dugði skammt. Þeir voru betri fyrstu 10 mínútur leiksins en næstu 40 mínútur voru algjörlega Eyjamanna. Vörn ÍBV fór í gang með tilheyrandi markvörslu og hraðaupphlaupum. Það voru þessi atriði sem skiluðu Eyjamönnum sigrinum í gær. Auk þess fengu Gróttumenn mikið af ódýrum brottvísunum.

Finnur eina leið Gróttu

Finnur Ingi Stefánsson var langbestur Gróttumanna með 11 mörk og var oft á tíðum eina leið þeirra til að klára sóknir sínar. Daði Laxdal átti líka góðar rispur og gerði 7 mörk en hefði oft á tíðum getað gert betur. Undirritaður óskar eftir framlagi frá Viggó Kristjánssyni þegar liðin mætast aftur á Seltjarnarnesi á sunnudag en hann komst ekki á blað í leiknum í gær.

Hjá ÍBV var Theodór Sigurbjörnsson atkvæðamestur með 10 mörk og Agnar Smári Jónsson gerði 7 mörk. Agnar átti slakan fyrri hálfleik en bætti það síðan upp í seinni hálfleiknum en Eyjamenn verða að hafa hann 100% í svona leikjum. Sókn ÍBV var frábær allt frá fyrsta marki liðsins en það tók liðið heilar 8 mínútur að gera það.

Dómararnir Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson áttu mjög góðan leik í gær en þeir tóku leikinn föstum tökum frá byrjun og fylgdu sinni línu allt til loka. Þeir gáfu 13 brottvísanir í leiknum sem er talið mikið en þær fóru nokkuð jafnt á liðin.

Langt síðan allir voru heilir

Undirritaður telur einn af lykilþáttunum í sigri ÍBV í gær hafa verið það að þeir spiluðu með sínu sterkasta liði. Það er orðið langt síðan allir voru heilir í herbúðum ÍBV. Þeir voru bróðurpartinn úr leiknum að rúlla á 9 mönnum en ekki 12-13 mönnum. Menn eins og Nökkvi Dan Elliðason og Dagur Arnarsson komu lítið við sögu í gær en það er hrikalega sterkt fyrir ÍBV að hafa svona menn á bekknum þegar lengra líður á úrslitakeppnina.

Næsti leikur liðanna er á sunnudaginn klukkan 16.00 í Hertz-höllinni og þar geta Eyjamenn klárað einvígið. Vinni Gróttumenn þann leik verður oddaleikur á þriðjudaginn í Eyjum.

ÍBV – Grótta 32:27

Vestmannaeyjar, 8-liða úrslit karla, 1. leikur, fimmtudag 14. apríl 2016.

Gangur leiksins : 0:2, 1:4, 6:5, 9:6, 13:7, 16:8 , 18:10, 21:13, 26:20, 30:24, 32:27 .

Mörk ÍBV : Theodór Sigurbjörnsson 10/4, Agnar Smári Jónsson 7, Andri Heimir Friðriksson 4, Einar Sverrisson 4, Grétar Þór Eyþórsson 3, Magnús Stefánsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2.

Varin skot : Stephen Nielsen 10/1, Kolbeinn Aron Arnarsson 2.

Utan vallar : 12 mínútur.

Mörk Grótta : Finnur Ingi Stefánsson 11/3, Daði Laxdal Gautason 7, Aron Dagur Pálsson 3/1, Vilhjálmur Geir Hauksson 2, Styrmir Sigurðsson 1, Júlíus Þórir Stefánsson 1, Aron Valur Jóhannsson 1, Árni Benedikt Árnason 1.

Varin skot : Lárus Helgi Ólafsson 9, Lárus Gunnarsson 2.

Utan vallar : 14 mínútur.

Dómarar : Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.

Áhorfendur : 450.