Hrund Heimisdóttir sendi mér í gær tölvupóst fyrir hönd ömmu sinnar Erlu Bergmann varðandi gátu sem Einar Ben samdi og birtist í Vísnahorni á miðvikudag og telur að rétt sé hún svona og vísar til Kvæðasafns Einars Benediktssonar: Í gleði og sút hef ég...

Hrund Heimisdóttir sendi mér í gær tölvupóst fyrir hönd ömmu sinnar Erlu Bergmann varðandi gátu sem Einar Ben samdi og birtist í Vísnahorni á miðvikudag og telur að rétt sé hún svona og vísar til Kvæðasafns Einars Benediktssonar:

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,

til gagns menn mig elta, til skaða njóta,

í reiða er ég hafður, um hálsa ég renn,

til höfða ég stíg, en er bundinn til fóta.

Um þennan orðamun hafa áður orðið blaðaskrif. Móðursystir mín, Ólöf Benediktsdóttir, skrifaði Velvakanda grein um bjórvísu Einars Benediktssonar 23. mars 1989, þar sem m.a. segir:

„Faðir minn, Benedikt Sveinsson, fór oft með þessa vísu, reyndar örlitið öðruvsísi, en þó greinilega sömu vísuna. Afi minn, Sveinn Magnússon frá Víkingavatni, stundum nefndur Sveinn Víkingur, rak greiðasölu á Húsavík á síðari hlut 19. aldar. Var þar gestkvæmt og Einar Benediktsson oft í hópi gesta. Þessa sögu sagði faðir minn af einni heimsókn Einars til foreldra hans:

Eitt sinn um vorið eða sumarið 1893 sátu þeir á tali við Svein Einar og Ásgeir læknir Blöndal. Ræddu þeir um þjóðlegan fróðleik, kvæði og vísur, og loks var farið að geta gátur. Undir kvöld fór Einar út að Héðinshöfða, en eftir skamma stund kom sendimaður og færði Sveini blað, sem á var ritað:

Við glaum og sút á ég gildi tvenn,

til gagns menn mig elta, en til skemmda mig hljóta,

til reiða er ég hafður, um hálsa ég renn,

til höfða ég stekk, en er bundinn til fóta.

Meðan sendimaður drakk kaffi réð Sveinn gátuna og sendi Einari ráðninguna. Þegar þetta gerðist var faðir minn á 16. ári. Um aðrar útgáfur gátunnar sagði faðir minn: „Svona var vísan þá, en Einar kann að hafa breytt henni síðar.“

Mér þykir rétt að rekja nákvæmlega mínar heimildir og vísa enn fremur til greinar um Benedikt afa minn eftir Guðmund Hagalín í Andvara 1956.

En svo að farið sé út í aðra sálma. Ólafur Stefánsson segist hættur að hlusta á þvargið í stjórnmálunum en bergmálið liggi enn í loftinu:

Inni á þingi er aðferð slík

að elta ljósið mýra,

pexa hátt um pólitík

og pusa á Sigurð dýra.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is