Sigríður Bárðardóttir fæddist í Holti í Álftaveri í V-Skaftafellssýslu 3. júní 1921. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 5. apríl 2016. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Jónsson, 24. september 1876, d. 18. febrúar 1953, og Bárður Pálsson, f. 27. júní 1872, d. 13. maí 1935, bændur í Holti. Sigríður var yngst þrettán systkina sem öll eru nú látin.

Sigríður giftist árið 1957 Einari Jóhannessyni sem fæddur var á Söndum í Meðallandi 2. desember 1915 en ólst upp á Herjólfsstöðum í Álftaveri. Einar lést 3. nóvember 2005. Börn Einars og Sigríðar eru: 1) Sigríður Bára, f. 18. janúar 1947, eignaðist þrjú börn og eru tvö á lífi. 2) Þuríður, f. 15. nóvember 1949, eignaðist fjögur börn og eru þrjú þeirra á lífi. 3) Kristín, f. 31. maí 1952, á tvö börn. 4) Fanney, f. 17. október 1953, á tvö börn. 5) Jóhannes Guðmundur, f. 4. mars 1964, hann á fjögur börn.

Einar og Sigríður hófu búskap árið 1944 í Stafholti í Stafholtstungum í Mýrasýslu, þar sem þau bjuggu til ársins 1949 er þau fluttu að Hamraendum í sömu sveit. Þar bjuggu þau til ársins 1954 en þá fluttu þau að Jarðlangsstöðum í Borgarhreppi, þar sem þau bjuggu til ársins 2003 er þau fluttu í Engihjalla í Kópavogi þar sem þau bjuggu til æviloka.

Útför Sigríðar verður gerð frá Borgarneskirkju í dag, 15. apríl 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Jarðsett verður á Borg á Mýrum.

Mamma átti langa og viðburðaríka ævi, hún fæddist í Holti í Álftaveri og var yngst 13 systkina. Amma var að setja niður kartöflur þegar stúlkan boðaði komu sína. Hún fór heim og fæddi sitt 13. barn, hefur sjálfsagt verið fljótt komin aftur út til að ljúka verkinu. Barnaskóli í Álftaveri var á Herjólfsstöðum og þangað sóttu börn skólagöngu, þar bjuggu hjónin Jóhannes og Þuríður, sonur þeirra var Einar faðir minn. Mamma og pabbi ákváðu snemma að eyða lífinu saman. Þann 9. maí 1944 hófu þau búskap í Stafholti. Ferðalagið þangað var erfitt, þau sigldu með Laxfossi upp í Borgarnes og mamma var svo sjóveik að hún hélt að sinn síðasti dagur væri kominn. Saga mömmu og pabba er saga einyrkjanna þar sem fólk þurfti að treysta á veðurfar, árferði og eigin dugnað til að komast af. Eftir 10 ára búsetu í Stafholtstungum og að viðbættum fjórum dætrum festu þau kaup á Jarðlangsstöðum. Þar bjuggu þau til ársins 2002 er þau fluttu í Kópavog þar voru þau til æviloka. Á Jarðlangsstöðum fæddist eini sonurinn. Aðstæður við flutninginn að Jarðlangsstöðum voru erfiðar, ekkert símasamband, ekki rafmagn nema frá ljósavél og vegasamband ótryggt. Heima var oft fjölmennt, frændfólk, fjöldi barna og ungmenna. Þessu öllu hélt mamma í röð og reglu. Snyrtimennsku og reglusemi hafði hún lært í uppeldinu. Mamma var ekki bara húsmóðir, hún gekk í öll verk, mjólkaði kýr, gaf á garðann og hjálpaði lömbum í heiminn. Við heyskapinn var hún öflug með heykvíslina og hrífuna og man ég hana slá með orfi og ljá á engjum. Börn í sveit í mínu uppeldi sóttu skólavist í heimavistarskóla. Það má nærri geta að ekki hefur verið auðvelt að senda níu til tólf ára börn í burtu í skóla tvær til þrjár vikur í senn og seinna meir unglinga í heilan vetur en það var ekki annað í boði. Mömmu féll ekki oft verk úr hendi, hún nýtti frístundir til að sauma út og svo drýgði hún heimilistekjurnar með því að prjóna og selja lopapeysur og fleira úr íslensku ullinni. Á efri árum sneri mamma sér að garðrækt og kom sér upp skrúðgarði með trjágróðri, berjarunnum og blómum af ótal tegundum fyrir utan öll stofublómin. Þá kom áhugi hennar á ferðalögum, gönguferðum og útivist, þar var allt tekið með trompi, hún lagði land undir fót árið sem hún varð áttræð og gekk Laugaveginn bæði sjötíu og fjögurra ára og áttræð. Mamma hafði ánægju af söng. Hún hafði einstakan hæfileika til að læra ljóð og texta. Þegar fjölskyldan var á ferðalagi og farið að hitna í kolunum hjá barnaskaranum í aftursætinu í rússajeppanum átti hún til að kyrja Malakoff, öll sautján erindin frá byrjun til enda. Það var líka hennar helsta ánægja síðustu mánuðina þegar Gunnsi spilaði á gítar og söng með henni gömlu slagarana. Á föstudeginum áður en hún lést lagði Sigga Eyrún vanga sinn að hennar og þær sungu saman Blátt lítið blóm eitt er, þar hafði mamma engu gleymt. Já, nú er lokið langri ævi og skilað hefur verið góðu dagsverki. Hún kvaddi södd lífdaga umkringd börnunum sínum fimm, þriðjudaginn 5. apríl síðastliðinn. Hvíl í friði, kæra mamma.

Þuríður Einarsdóttir.

Þú átt ekkert erindi hingað. Þetta sagði tengdamóðir mín við mig fyrir margt löngu, frekar höstug er ég hafði álpast inn fyrir skenkinn í eldhúsinu. Þarna var ég sem sagt kominn inn á hennar svæði. Ég áttaði mig fljótt á því að þetta var ekki illa meint heldur var hún ekki vön því að karlmenn væru eitthvað að vasast í hennar eldhúsi. Síðar sættist hún á að ég fengi að koma inn fyrir skenkinn einstaka sinnum og jafnvel aðstoða við uppvask. Hún var ein þessara húsmæðra sem vildu sjá um eldhússtörfin sjálfar, koma matnum á borðið og helst ekki setjast niður með hinu fólkinu heldur jafnvel borða standandi við skenkinn – hún þurfti jú að geta þjónað matborðinu vel. Þetta er bara örlítil lýsing af mörgu skemmtilegu sem ég hef upplifað í gegnum árin með Siggu tengdó sem hefur reynst mér og mínum afskaplega vel í öllu og á miklar þakkir skildar fyrir. Tengdamóðir mín, hún Sigga á Jarðlangsstöðum, var mikil kjarnakona. Hún var bóndi ásamt Einari sínum og móðir fimm barna, lifði fyrir náttúruna og dýrin sem þeim hjónum þótti afskaplega vænt um og fóru vel með. Sigga var kraftmikil og naut útiveru, var stolt af fallega garðinum í kastalanum sem hún byggði upp af mikilli eljusemi. Hún vildi hafa fallegt og snyrtilegt í sínu umhverfi og má enn sjá merki þess á Jarðlangsstöðum. Eftir að bústörfum fækkaði fékk hún mikið út úr því að fara í lengri og skemmri gönguferðir. Mér er sérstaklega minnistætt 80 ára afmæli Siggu þegar hún ákvað að ganga Laugaveginn með Stínu dóttur sinni í ágúst sama ár sem hún hafði gengið fimm árum áður. Sigga skoraði á okkur hjónin að koma með. Við tókum að sjálfsögðu áskoruninni en ég verð að viðurkenna að á mig runnu tvær grímur því ég var á þeirri stundu alls ekki viss um að geta gengið þennan spöl, jafnvel þó ég væri 26 árum yngri en hún. Með æfingu tókst þetta þó og við fórum með henni Laugaveginn. Hef ég oft getið þess að í stórum gönguhópi var Sigga iðulega fremst í göngunni og fór létt með. Þessi ferð lifir í minni minningu og kynntist ég þarna nýrri hlið á minni kæru tengdamóður. Lífshlaup Siggu er á margan hátt merkilegt og örugglega ekki alltaf verið dans á rósum eins og nærri má geta við rekstur búskapar við mismunandi aðstæður og árferði og með stóra fjölskyldu fjarri sínum ættingjum og tengslaneti. Sigga og Einar voru bæði Skaftfellingar úr Álftaveri en vegna þess hve erfitt var um jarðnæði í þeirra heimahéraði fluttu þau í Borgarfjörðinn og bjuggu þar allan sinn búskap. Alltaf var hugur þeirra fyrir austan og má búast við að þau hafi ávallt saknað heimahaganna. Sigga fylgdi manni sínum í öllu og voru þau ávallt manna fyrst til að aðstoða ef einhver átti um sárt að binda eða var í vanda staddur. Þá var ekki spurt um tíma eða annað sem sumir láta flækjast fyrir góðverkum. Þetta reyndu bæði menn og málleysingjar sem urðu á vegi þeirra og fór mín fjölskylda ekki varhluta af þeim eiginleikum. Hvíl í fríði hjá þínum heittelskaða, kæra Sigga, vertu sæl, þín er sárt saknað.

Friðrik Alexandersson.