Flókið Game of Thrones er alls ekki einföld saga.
Flókið Game of Thrones er alls ekki einföld saga.
„Þetta er örugglega morðinginn.“ „Hún á eftir að deyja, þess vegna fengum við að kynnast henni.“ „Þau eiga eftir að enda saman.“ Svona Höskuldarviðvaranir (e.

„Þetta er örugglega morðinginn.“ „Hún á eftir að deyja, þess vegna fengum við að kynnast henni.“ „Þau eiga eftir að enda saman.“ Svona Höskuldarviðvaranir (e. spoiler alerts) er kærastan mín og minn uppáhaldssjónvarpsfélagi dugleg við að koma með þegar við horfum saman á þætti eða kvikmyndir. Og hún hefur alltaf rétt fyrir sér (hvað þetta varðar). Það er í raun alveg fáránlegt. Hún les þetta allt eins og opna bók og getur sagt manni strax hvernig hlutirnir koma til með að þróast. Samt er hún alltaf að prjóna á meðan.

Sjálfur sit ég spenntur í sófanum, kippist við og naga neglur, í algjörri óvissu um hvað kemur til með að gerast næst. Það er að segja þar til kærastan mín segir mér það. Þetta getur reyndar verið svolítið pirrandi og stundum bið ég bara um tíma til að leyfa myndinni að klárast, en kosturinn er að í staðinn næ ég að mestu að halda þræði þegar við horfum á vandaðra efni, með flóknari söguþræði. Þá get ég bara spurt: „bíddu, hvort er þetta bæjarstjórinn eða hótelstjórinn?“ eða „hvaða ætt er aftur Baratheon-ættin og af hverju eru þessir óvinir?“ Það er ómetanlegt fyrir mann eins og mig.

Sindri Sverrisson