— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Eftir því sem sólargangur lengist verður uppskeran meiri. Það sem við setjum á markað núna í viku hverri er sennilega 10% meira en var í allra svartasta skammdeginu,“ segir Guðjón Birgisson á Melum á Flúðum.

„Eftir því sem sólargangur lengist verður uppskeran meiri. Það sem við setjum á markað núna í viku hverri er sennilega 10% meira en var í allra svartasta skammdeginu,“ segir Guðjón Birgisson á Melum á Flúðum. Hann er einn af umsvifamestu garðyrkjubændum landsins, með þúsundir fermetra undir gleri og ræktar þar bæði tómata og gúrkur.

Sú var tíðin að íslenskt grænmeti kom aðeins á markað yfir sumartímann, en með lýsingu í gróðurhúsum er uppskerutíð árið um kring. Dagsbirtan er þó það sem mest munar um. „Núna er orðið bjart á fimmta tímanum á morgnana og sólarljóssins nýtur alveg fram á níunda tímann á kvöldin. Að undanförnu hefur líka verið mjög sólríkt hér í uppsveitunum og gjarnan heiðskírt. Slíkt skilar sér svo sannarlega,“ nefnir Guðjón. Hann bætir því við að hjá garðyrkjubændum sé viðmiðið að af hverjum fermetra tómatplantna undir gleri fáist 1,7 til 1,8 kílóa uppskera vikulega. Því er hægt að senda tugi tonna af afurðum á markað í viku hverri. sbs@mbl.is