Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem kveðið er á um að Sigurjón Þ.

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem kveðið er á um að Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, þurfi að greiða slitabúi Landsbankans rúmar 35 milljónir króna vegna greiðslu sem bankinn lagði í séreignarlífeyrissparnað Sigurjóns 2. október 2008, aðeins fimm dögum áður en bankinn féll.

Í ágúst sama ár hafði Sigurjón óskað eftir því að bankinn keypti skuldabréf í Iceland Foods fyrir eina milljón punda.

Viðskiptin áttu sér stað en fyrir mistök voru sterlingspund ekki keypt samhliða því að verðbréfin voru pöntuð. Greiðslan 2. október 2008 hafi því átt að bæta áfrýjanda þann neikvæða gengismun sem orðið hafði í millitíðinni.

Hæstiréttur sagði þó óumdeilt að aðilum hefði verið ljóst að viðskiptin myndu taka nokkurn tíma, að jafnaði 2-3 mánuði. Því fengist ekki séð hvaða ástæður gátu búið að baki því að greiða skaðabætur vegna neikvæðs gengismunar í október.