Árið 1947.
Árið 1947.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Grétar Sigfússon og Sigríður Gunnarsdóttir hafa verið gift í 70 ár og eru enn skotin hvort í öðru. Þau segja vináttu og þolinmæði skipta mestu máli varðandi hjónabandið. Bergþóra Jónsdóttir

Þau héldu upp á brúðkaupsafmælið sitt þann 7. mars síðastliðinn sem er líka afmælisdagur Tómasar Grétars en þá varð hann 95 ára. „Ég kom við í verslun Óla H. í Hafnarfirði til að kaupa efni í kjól handa ömmu sem ég ætlaði að gefa henni í afmælisgjöf. Þá sá ég hana Siggu fyrst því hún var að afgreiða mig og leist mér strax mjög vel á hana. Við hittumst svo nokkru seinna á balli og þá fórum við að tala saman. Svo bauð ég henni í bíó og fljótlega held ég að ég hafi spurt hana hvort við ættum ekki að setja upp hringa. Það er svo langt síðan að ég man þetta ekki vel. En hún vildi mig,“ segir Tómas Grétar og hlær.

„Karlgreyið, ég var oft erfið við hann, ég er skapstór en hann hann hefur þolað mig í 70 ár. En hann var alltaf svo ljúfur og geðgóður, ég var heppin að ná í hann,“ segir Sigríður.

„Ég giftist henni bara og hugsaði svo ekkert meira um það“

Þegar þau voru spurð um góð ráð fyrir ungt fólk í hjónabandi eða fyrir þá sem eru í giftingarhugleiðingum þurftu þau að hugsa sig aðeins um. „Það er svo langt síðan við vorum að hugsa um svona hluti,“ segir Sigríður. „En það er mikilvægt að stökkva ekki upp á nef sér þó maður sé ekki alltaf sammála, kunna að þegja og láta ekki hlutina pirra sig of mikið,“ segir hún. „En annars hef ég miklu sterkara skap, hann tók því aldrei illa þó eitthvað væri sagt í vitleysu. Kannski vorum við bara heppin því við vorum mikið sammála með hlutina og alltaf góðir vinir.“ Tómas Grétar átti líka erfitt með að gefa ráð, en tók undir með Sigríði og sagði að þau hefðu oftast verið sammála og bætti við að í hjónabandi þyrfti að hafa mikla þolinmæði og vera ekki að æsa sig yfir smámunum „Ég giftist henni bara og hugsaði svo ekkert meira um það, aldrei hugsað mér neina aðra konu. Alveg nóg með hana að gera,“ segir hann og hlær.

Tómas Grétar er fæddur 1921, hann er elstur fjögurra systkina og ólst upp á Eyrarbakka. Hann var lengst af til sjós á bátnum Friðriki Sigurðssyni sem gerður var út frá Þorlákshöfn. Þegar hann hætti á sjónum fór hann í Álverið í Straumsvík og vann þar í nokkur ár áður en hann komst á eftirlaun.

Sigríður Gunnarsdóttir er hreinræktaður Hafnfirðingur og elst sjö systkina. Hún er fædd 12. október 1923. Hún ólst upp í Gunnarsbæ þar sem húsið Gunnarssund 1 stendur nú, en gatan var nefnd eftir gamla bæ fjölskyldunnar. Að sögn elsta sonar hennar er hún fjórði ættliður frá fyrstu ábúendum Hafnarfjarðar og er því sennilega elsti núlifandi Hafnfirðingurinn. Þegar börnin voru orðin stálpuð fór Sigríður að vinna frá heimilinu og vann lengst af í versluninni Skemmunni í Hafnarfirði.

Giftingin fór fram heima hjá prestinum

„Við fórum bara tvö til prestsins og létum gifta okkur einn daginn. Mamma var bara ánægð með að ég væri gengin út. Ég var samt í fínum kjól man ég en engin veisla var haldin. Við vildum ekki láta neitt á okkur bera,“ segir Sigríður. „Ég var alltaf að flýta mér á sjóinn, það var enginn tími í svona hluti en við vildum gifta okkur því í þá daga þótti ómögulegt að fólk færi að búa saman án þess að giftast,“ segir Tómas Grétar. Sigríður varð svo fljótlega ófrísk eftir giftinguna og eignuðust þau alls fimm börn. Fyrstu búskaparárin sín bjuggu þau á Eyrarbakka. En árið 1963, þá búin að eignast fjögur börn, fluttust þau til Hafnarfjarðar í hús sem Tómas Grétar byggði ásamt bróður sínum Haraldi. Hann krækti svo í systur Sigríðar, hana Guðnýju, og bjuggu þeir bræður með systrunum hvor á sinni hæðinni með fjölskylduna að Kelduhvammi 1. Mikill samgangur var á milli fjölskyldnanna og náin tengsl sköpuðust þeirra á milli.

Tómas Grétar var mjög laghentur og flinkur í höndunum og gat smíðað og gert við nánast hvað sem var að sögn Gunnars, elsta sonar þeirra hjóna. Einnig hafi hann verið þekktur sem afburða-skautaíþróttamaður og vel þekktur í þeirri íþrótt bæði á Eyrarbakka og Laugarvatni þar sem hann gekk í skóla. Þau hjónin búa núna í notalegri íbúð á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ. Þar fer vel um þau að þeirra sögn og allt gert til að þeim líði sem best. Þau eru afar glöð og þakklát fyrir tímann sem þau hafa haft saman en finnst stundum skrítið til þess að hugsa að elsta barnið sé nýlega orðið sjötugt og því ekkert unglamb lengur. „Hann er alveg að ná okkur,“ segir Sigríður og hlær, „við ætlum endalaust að tóra en það er í lagi á meðan við höfum þokkalega heilsu.“ Sigríður hefur gaman af því að yrkja og hefur gert mikið af því í gegnum tíðina. Eftirfarandi vísu samdi hún til Tómasar Grétars ekki alls fyrir löngu:

Í sjötíu ár við höfum búið,

oft hefur skap mitt verið snúið

en alltaf þú tilbaðst mig.

Ég var heppin er hitti ég þig.

Fimm eru börnin sem dá þig og meta

en mamman gat verið eitthvað betra.

Ég þakka þér liðna tíð

og vona að framtíðin verði blíð.

Ennþá þú tollir við hliðina á mér

þó ég sé óþekk og hlýði ekki þér.

Ekki reiður þó þú sért svolítið leiður

á kellingarskömminni þinni.

Höf: Sigríður Gunnarsdóttir