Litla-Hraun Segir afplánun í opnu úrræði eins og Vernd góðan kost.
Litla-Hraun Segir afplánun í opnu úrræði eins og Vernd góðan kost. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar, segir að breytt löggjöf geri það að verkum að þörf Verndar fyrir aukið húsnæði til þess að taka á móti föngum sem eru að ljúka afplánun hafi stóraukist.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar, segir að breytt löggjöf geri það að verkum að þörf Verndar fyrir aukið húsnæði til þess að taka á móti föngum sem eru að ljúka afplánun hafi stóraukist. Hann telur að Vernd þurfi jafnvel að geta tekið á móti 20 fleiri föngum en gert er í dag, sem væri þá tvöföldun frá því sem nú er.

Þráinn sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að álagið og ásóknin í að fá pláss á Vernd hefði stóraukist í kjölfar nýju laganna. „Við getum í sjálfu sér lítið gert, annað en halda óbreyttum takti. Það má búast við því að það komi að þeim þolmörkum að það komist ekki allir að á Vernd, sem þangað vilja koma.

Það er löngu tímabært að stækka það húsnæði sem við höfum til umráða fyrir starfsemi okkar, vegna þeirrar hagræðingar sem fylgir því að bjóða upp á slík úrræði sem við bjóðum upp á,“ sagði Þráinn.

Samfélagið hagnast

Hann segir að úrræðið á Vernd sé miklu farsælla úrræði en hefðbundin fangelsisvistun og samfélagið hagnist á því á mörgum sviðum. Það sé minni endurkoma fanga sem fara í gegnum úrræði Verndar og þetta sé ekki eins kostnaðarsamt fyrir samfélagið.

„Svo eru það fjölskyldur þeirra einstaklinga sem eru undir þessum viðurlögum að hafa verið dæmdir til refsivistar, sem vissulega hafa ávinning af því að einstaklingar ljúki afplánun sinni á Vernd,“ sagði Þráinn.

Þráinn segir að einhverjir losni úr fangelsum fyrr en ella og klári sína dóma fyrr. Einnig séu breytingar í lögunum hvað varðar unga afbrotamenn, sem hafi möguleika á að losna út eftir að hafa afplánað þriðjung refsingarinnar, sem ekki hafi verið áður, þannig að skilorðsbinding lengist og sömuleiðis samfélagsþjónusta. „Það tekur einhvern kúf af biðlista, en þó aldrei nægjanlega mikið,“ segir Þráinn.

„Við höfum möguleika á að gera stóra hluti í þessu, því við á Vernd höfum það í höndum okkar að ákveða, í samráði við Fangelsismálastofnun, hversu marga mánuði menn geta gist í opnu úrræði eins og á Vernd. Það væri þannig ekkert því til fyrirstöðu að auka lengsta tímann úr 12 mánuðum í 16 mánuði og þannig sæjum við það fyrir okkur að við þyrftum 15 til 20 pláss í viðbót, en í dag höfum við pláss til þess að vista 22 einstaklinga,“ sagði Þórarinn.

Hann segir að óskandi væri að komið væri til móts við þarfir Verndar, í samræmi við fjárveitingar sem eru í gildi í dag. „Það er nú í endurskoðun en heilbrigð skynsemi segir okkur að eðlilegra væri að veita fjármagn í þetta úrræði. Afplánun í opnu úrræði eins og Vernd er svo miklu heilbrigðara og betra úrræði, heldur en vistun í lokuðum fangelsum. Hún gerir engum gott.“