[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslenska landsliðið fékk nokkuð snúna mótherja þegar dregið var í riðla í gærmorgun í undankeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik karla 2018, Makedóníumenn, Tékka og Úkraínumenn.

Fréttaskýring

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslenska landsliðið fékk nokkuð snúna mótherja þegar dregið var í riðla í gærmorgun í undankeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik karla 2018, Makedóníumenn, Tékka og Úkraínumenn.

Undankeppnin hefst í byrjun næsta vetrar og lýkur í júní á næsta ári. Leikið verður við öll liðin þrjú heima og að heiman. Tvö efstu lið riðilsins tryggja sér keppnisrétt á EM í Króatíu í janúar 2018.

Makedóníumenn eru fyrirfram sterkasti andstæðingurinn í þessum riðli. Þegar litið er til árangurs þeirra á undanförnum árum þá hafa þeir verið á svipuðu róli og Íslendingar á stórmótum. Makedóníumenn höfnuðu í 11. sæti á EM í Póllandi, tveimur sætum fyrir ofan íslenska landsliðið. Á EM fyrir tveimur árum voru Makedóníumenn í 10. sæti, Íslendingar í 5. sæti sem var sama sæti og landslið Makedóníu náði á EM í Serbíu 2012. Síðast mættust Íslendingar og Makedóníumenn á stórmóti á EM í Danmörku. Eftir barning vann íslenska landsliðið með tveggja marka mun, 29:27.

Á HM í Katar varð landslið Makedóníu í 9. sæti en það íslenska í 11.

Landslið Makedóníu tók þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleikanna sem fram fór í Póllandi um síðustu helgi. og tókst ekki að tryggja sér farseðilinn á leikana. Í framhaldinu sagði Ivica Orbvan landsliðsþjálfari starfi sínu lausu. Um leið ákvað leikstjórnandinn, Naumce Mojsovski, að hætta með landsliðinu fyrir fullt og fast auk þess sem Filip Mirkulovski lýsti því yfir að hann ætlaði að hætta að leika með landsliðinu í vor að loknum umspilsleikjunum fyrir HM.

Aðalstjarna landsliðsins Makedóníu er Kiril Lazarov, örvhenta skyttan sem leikur með Barcelona. Hann er hreint frábær leikmaður sem hefur skorað rétt tæplega sjö mörk að meðaltali í hverjum landsleik sem hann hefur leikið á ferlinum.

Markvörðurinn Borko Ristovski er einnig einn af þeim allra bestu. Hann leikur með Rhein-Neckar Löwen en hefur verið orðaður við Barcelona síðustu daga.

Fengum skell á HM í Katar

Tékkar hafa lengi átt erfitt uppdráttar í alþjóðalegum handknattleik. Þeir voru í 14. og 15. sæti á EM 2012 og 2014 en náðu ekki að tryggja sér keppnisrétt á EM í Póllandi í janúar sl. Tékkar voru ekki með á HM 2013 en voru með tveimur árum síðar. Þeir riðu ekki feitum hesti frá HM 2015 í Katar og urðu í 17. sæti. Þeir náðu þó að kjöldraga íslenska landsliðið, 36:26, í besta leik sínum í mótinu. Hvað sem öllu líður ætti sá leikur að vera leikmönnum íslenska landsliðsins áminning um að vanmeta ekki Tékka þegar á hólminn verður komið.

Filip Jicha, leikmaður Barcelona og fyrrverandi lærisveinn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel, er öflugasti leikmaður tékkneska landsliðsins. Einnig má nefna markvörðinn Peter Stochl, sem reyndist íslensku leikmönnunum erfiður á HM í Katar.

Úkraínumenn eru með lakasta liðið. Langt er um liðið síðan þeir voru með í lokakeppni stórmóts. Í undankeppni nokkurra síðustu Evrópumóta hafa þeir rekið lestina í sínum riðli í undankeppninni. Í Úkraínu er eitt öflugt lið sem leikur í Meistaradeild Evrópu, Motor Zaporozhye. Önnur standa höllum fæti eins og segja má um fleiri íþróttagreinar í landinu sem er í sárum vegna klofnings, spillingar og stríðsátaka. Þó virðist ljóst að Úkraínumenn geta verið harðir í horn að taka á heimavelli.

Geir nokkuð bjartsýnn

„Til að ná öðru af tveimur efstu sætunum held ég að við þurfum að ná um 75% vinningshlutfalli, fá átta stig af 12, en markmiðið er alveg klárt. Það er að komast upp úr riðlinum. Ég met líkurnar á því bara fínar,“ sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari m.a. í samtali við mbl.is í gærmorgun.