Þóra segir langflestar konur vilja gifta sig í hvítu. Kjóll eftir Þóru.
Þóra segir langflestar konur vilja gifta sig í hvítu. Kjóll eftir Þóru.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klæðskerinn Þóra Sif Guðmundsdóttir lærði brúðarkjólahönnun í Mílanó og tekur nú að sér að sauma brúðarkjóla ásamt því að sinna öðrum verkefnum. Þóra segir flestar konur sem koma til hennar velja að gifta sig í hvítu. Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

Allir kjólarnir sem ég hef saumað hafa verið hvítir nema einn, hann var vínrauður, og þeir hafa allir verið síðir. En brúðarkjólatískan í dag fer í allar áttir, það finnst mér mjög gaman. Þeir mega í rauninni vera í hvaða lit og stíl sem er.“

„Ég er komin með orðspor í brúðarkjólabransanum þannig að flest skilaboð sem ég fæ frá kúnnum eru í tengslum við brúðarkjóla. Fyrsta sumarið sem ég var starfandi saumaði ég þrjá brúðarkjóla sem var mjög skemmtilegt og þær voru allar ánægðar sem er dásamlegt. Ég hafði saumað tvo brúðarkjóla áður, einn á lokaönn í kjólaklæðskurðinum og hinn fyrir kúnna sem hafði samband. Eftir að ég setti myndir af þessum kjólum á síðuna mína byrjuðu skilaboðin að hrannast inn og núna er sumarið nánast uppbókað hjá mér,“ segir Þóra sem opnaði sína eigin vinnustofu sumarið 2015.

Þóra hannar brúðarkjóla alltaf í nánu samstarfi við kúnnana. „Ég teikna alltaf sniðin af kjólunum sem ég sauma. Verðandi brúðurin sendir mér myndir af kjólum sem henni finnst fallegir. Ég skoða svo myndirnar og hanna fyrir þær kjól sem inniheldur þá þætti sem hún er hrifin af hverju sinni. Svo sýni ég henni og við vinnum út frá því.“

Tekur um 80-160 klukkustundir að sauma brúðarkjól

„Það er rosalega misjafnt, fer eftir hvernig kjól kúnninn vill,“ segir Þóra aðspurð hvað það taki hana langan tíma að sauma brúðarkjól. „Vanalega er þetta að taka um það bil 80-160 klukkustundir. Þetta er mikil vinna en skemmtileg og kúnnanum finnst þetta ferli alltaf mjög spennandi. Þær koma nokkrum sinnum í mátun og sjá kjólinn fæðast, frá því að vera léreftsprufa yfir í fullgerðan brúðarkjól.“

Að sögn Þóru fylgja íslenskar konur gjarnan þeirri reglu að brúðguminn má ekki sjá kjólinn fyrir athöfnina. „Það er bara gaman. Ein brúður sem kom til mín leyfði bara systur sinni að sjá sig í kjólnum því hún þurfti hjálp frá henni við að klæða sig í hann. Allir aðrir fengu að sjá hann þegar hún gekk inn kirkjugólfið.“

Áhugasamir geta fylgst með Þóru á Facebook-síðunni Þóra skraddari.