Sjúkrahús Helstu markmið frumvarpsins eru m.a. að skapa einfaldara, gegnsærra og skiljanlegra greiðsluþátttökukerfi og styrkja heilsugæsluna.
Sjúkrahús Helstu markmið frumvarpsins eru m.a. að skapa einfaldara, gegnsærra og skiljanlegra greiðsluþátttökukerfi og styrkja heilsugæsluna. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um sjúkratryggingar, sem kveður á um nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um sjúkratryggingar, sem kveður á um nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. Meginmarkmiðið er að hlífa þeim sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum kostnaði og jafna greiðslubyrði sjúkratryggðra.

Samkvæmt frumvarpinu verður tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks fari aldrei yfir tiltekið hámark og sett verður þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum. Helstu markmið frumvarpsins eru að skapa einfaldara, gegnsærra og skiljanlegra greiðsluþátttökukerfi, verja þá sem mestu þjónustuna þurfa fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja hlutverk heilsugæslunnar.

„Kerfið felur í sér meiri jöfnuð en ég get ekki séð að verið sé að leggja til fjármuni heldur er þetta meiri tilfærsla innan kerfisins,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Henni líst þó vel á frumvarpið en tekur fram að hún sé ekki búin að leggjast grannt yfir það.

„Samkvæmt fyrstu viðbrögðum er þetta jákvætt frumvarp og einfaldara, því í dag er þetta flókið og margþætt,“ segir hún.

Hámark 33.600 kr. á mánuði

Í nýju kerfi mun almennur notandi greiða að hámarki 95.200 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu en þó aldrei meira en 33.600 kr. á mánuði. Öryrkjar, aldraðir og börn munu greiða að hámarki 63.500 kr. á ári og aldrei meira en 22.400 kr. á mánuði.

„Eftir því sem ég best skil á þessum tíma er ekkert um tannlækna- eða sálfræðikostnað. Sá kostnaður er mjög veigamikill þáttur hjá mörgum. Það er nánast litið á tannlækningar sem lúxusþjónustu frekar en lækniskostnað. Tannheilbrigði er ekki síður mikilvægt þegar við erum að skoða heilbrigði og líðan fólks. Sálfræðikostnaður ætti líka að vera þarna inni því við vitum að það eru fjölmargar raskanir sem hægt er að halda í skefjum og jafnvel lækna með sálfræðiþjónustu. Hún er dýr í dag. Ef sálfræðiþjónusta væri í þessu kerfi þá myndum við minnka lyfjakostnað á móti en þetta er skref í rétta átt.“