Hjalti fæddist á Fossi á Síðu 15.4. 1869. Foreldrar hans voru Jón Einarsson, bóndi, hreppstjóri og læknir þar, og Guðný Jónsdóttir húsfreyja. Hjalti var tvíkvæntur.

Hjalti fæddist á Fossi á Síðu 15.4. 1869. Foreldrar hans voru Jón Einarsson, bóndi, hreppstjóri og læknir þar, og Guðný Jónsdóttir húsfreyja.

Hjalti var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Ólafsdóttir frá Vestri-Tungu í Landeyjum sem dó ung, en seinni kona hans var Sigríður Guðmundsdóttir. Dóttir Hjalta og Guðrúnar var Ragnhildur, kona Siggeirs Kristjánssonar kaupmanns, föður Hjalta Geirs, fyrrv. forstjóra, föður Ragnhildar ráðuneytisstjóra og Jóhönnu Vigdísar fréttamanns.

Hjalti missti föður sinn er hann var 11 ára, ólst upp hjá vandalausum frá 13 ára aldri og eru skrautlegar lýsingar á aðbúnaði hans og húsbændum í skemmtilegri ævisögu hans eftir Guðmund G. Hagalín.

En Hjalti var bráðger, greindur, harðduglegur og með sterka skaphöfn. Hann var í Vestmannaeyjum 1888-95 og kleif Eldey með bræðrunum Stefáni og Ágústi Gíslasonum úr Eyjum, árið 1894. Talið er að þeir hafi verið fyrstir til að klífa þennan 77 metra háa klettadrang, suðvestur af Reykjanesi. Eftir það fékk Hjalti viðurnefnið Eldeyjar-Hjalti.

Hjalti var sigmaður, sjómaður og formaður í Eyjum, þótti fengsæll atgervis- og atorkumaður, lærði vel dönsku, ensku og frönsku og lauk prófi frá Stýrimannaskólanum 1899.

Hjalti var útgerðarmaður og hafnsögumaður í Höfnum um skeið en flutti til Reykjavíkur um aldamótin og var þar lengst af búsettur að Bræðraborgarstíg 8. Hann var þar skipstjóri á þilskipum og togurum og einn af brautryðjendum togaraútgerðar hér á landi. Hann fór oft utan til skipakaupa, var forgöngumaður um stofnun Fiskveiðafélags Íslands og um hríð skipstjóri á vegum þess. Þá var hann framkvæmdastjóri ýmissa fyrirtækja og félaga, var einn stofnenda vélsmiðjunnar Hamars og Kola og salts, framkvæmdastjóri þess 1924-30 og lét reisa hinn fræga kolakrana við gömlu höfnina í Reykjavík sem þá var sá fullkomnasti á Norðurlöndum.

Hjalti lést 5.7. 1949.
Aths. blm.:
Eiginmaður Ragnhildar, dóttur Eldeyjar-Hjalta og Guðrúnar, hét Kristján Siggeirsson. Einnig mátti skiljast af textanum að Ragnhildur hefði verið eina dóttir Eldeyjar-Hjalta og Guðrúnar, en dætur þeirra voru þrjár.