Karnival Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, tíu ára þverflautunemandi við Tónlistarskóla Kópavogs, flutti verkið Karnival í Feneyjum, stef og tilbrigði eftir Paul Genin. Árni Harðarson lék með á píanó.
Karnival Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, tíu ára þverflautunemandi við Tónlistarskóla Kópavogs, flutti verkið Karnival í Feneyjum, stef og tilbrigði eftir Paul Genin. Árni Harðarson lék með á píanó.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lokahátíð Nótunnar 2016, uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins, fór fram í Eldborg sl. sunnudag og komu fram tónlistarnemendur af öllu landinu, á öllum aldri og á öllum stigum námsins og léku listir sínar.

Lokahátíð Nótunnar 2016, uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins, fór fram í Eldborg sl. sunnudag og komu fram tónlistarnemendur af öllu landinu, á öllum aldri og á öllum stigum námsins og léku listir sínar. Um 140 tónlistarnemendur frá 22 tónlistarskólum tóku þátt í lokahátíð Nótunnar og sýndu að starf tónlistarskóla ber ríkulegan ávöxt.

Að venju voru fjölmörg verðlaun veitt. Þrjú atriði í grunnnámi hrepptu Nótuna 2016, þau hlutu Anya Hrund Shaddock píanónemandi og Anton Unnar Steinsson trommunemandi við Tónlistarskóla Fáskrúðs- og Stöðvarfjarðar sem fluttu verkið My Favorite Things eftir Rodgers/Hammerstein í eigin útsetningu; Birkir Blær Óðinsson frá Tónlistarskólanum á Akureyri sem lék á gítar og söng, flutti verkið I see Fire eftir Ed Sheeran og Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, tíu ára þverflautunemandi við Tónlistarskóla Kópavogs, sem flutti Karnival í Feneyjum, stef og tilbrigði eftir Paul Genin. Árni Harðarson lék með á píanó.

Miðnám

Fjögur atriði í miðnámi hrepptu Nótuna 2016. Ásta Dóra Finnsdóttir, 9 ára og Anaís Bergsdóttir 11 ára, píanónemendur við Allegro Suzukitónlistarskólann, hlutu hana fyrir fjórhentan leik sinn á píanó í Ungverskum dansi nr. 2 eftir Johannes Brahms; Klara Margrét Ívarsdóttir, 12 ára píanónemandi við Tónlistarskóla Kópavogs, fyrir flutning á 1. kafla í píanókonsert í D-dúr eftir Joseph Haydn en meðleikari á píanó var Birna Hallgrímsdóttir; Styrmir Þeyr Traustason píanónemandi við Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar sem flutti verkið All of me eftir Jon Schmidt í útsetningu The piano guys og loks Oliver Rähni, 13 ára píanónemandi við Tónlistarskóla Bolungarvíkur, sem flutti frumsamið verk sem ber heitið Píanókonsert fyrir einleikspíanó.

Framhaldsnám

Þrjú atriði í framhaldsnámi hrepptu Nótuna 2016. Voru það Jóhanna Brynja Ruminy og Jóhann Örn Thorarensen fiðlunemendur við Tónskóla Sigursveins sem fluttu verkið Navarra fyrir tvær fiðlur og hljómsveit eftir Pablo Sarasate en meðleikari á píanó var Anna Málfríður Sigurðardóttir; Kristín Harpa Jónsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson píanónemendur við Tónlistarskóla Ísafjarðar sem léku Harry Potter svítu fyrir tvö píanó eftir John Williams í eigin útsetningu og loks Stórsveit Tónlistarskóla FÍH sem flutti Us eftir Thad Jones undir stjórn Snorra Sigurðarsonar.

Sérstakar viðurkenningar

Nokkrar sérstakar viðurkenningar og verðlaun voru jafnframt veitt á lokahátíð Nótunnar. Útnefninguna Besta atriði Nótunnar 2016 fengu: Jóhanna Brynja Ruminy og Jóhann Örn Thorarensen, fiðlunemendur við Tónskóla Sigursveins fyrir flutning á verkinu Navarra fyrir tvær fiðlur og hljómsveit eftir Pablo Sarasate. Meðleikari á píanó var Anna Málfríður Sigurðardóttir. Heiðurstitlinum fylgir Tóngjafinn, verðlaun Tónastöðvarinnar, auk gjafabréfs og farandgripur Nótunnar. Hvatningarverðlaun Töfrahurðar hlaut Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, tíu ára þverflautunemandi við Tónlistarskóla Kópavogs sem flutti verkið Karnival í Feneyjum, stef og tilbrigði eftir Paul Genin. Árni Harðarson lék með á píanó.

Pavarotti-verðlaun ítalska sendiráðsins, sérstök verðlaun á Nótunni 2016, hlaut Gísli Rúnar Víðisson söngnemandi við Tónlistarskólann á Akureyri sem söng Vesti la giubba aríu Canio úr Pagliacci eftir Ruggero Leoncavallo. Daníel Þorsteinsson lék með á píanó.

Þátttaka í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, nýr samstarfsaðili Nótunnar, bauð þremur atriðum að koma fram á tónleikum hljómsveitarinnar nk. haust í viðurkenningarskyni. Þá viðurkenningu hlutu: Anna Katrín Hálfdanardóttir, fiðlunemandi við Tónlistarskóla Garðabæjar sem flutti verkið Czárdás eftir Vittorio Monti, meðleikari á píanó var Guðrún Dalía Salómonsdóttir; Klara Margrét Ívarsdóttir, píanónemandi við Tónlistarskóla Kópavogs, sem flutti 1. kafla í píanókonsert í D-dúr eftir Joseph Haydn, meðleikari á píanó var Birna Hallgrímsdóttir og loks Jóhanna Brynja Ruminy og Jóhann Örn Thorarensen, fiðlunemendur við Tónskóla Sigursveins, sem fluttu verkið Navarra fyrir tvær fiðlur og hljómsveit eftir Pablo Sarasate. Anna Málfríður Sigurðardóttir lék með á píanó.