Svona leit salurinn út þegar Signý Jóna Tryggvadóttir og Einar Númi Sveinsson héldu brúðkaupsveislu.
Svona leit salurinn út þegar Signý Jóna Tryggvadóttir og Einar Númi Sveinsson héldu brúðkaupsveislu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brúðkaup er alla jafna stór dagur í lífi hverra brúðhjóna og mikill undirbúningur liggur að baki.

Brúðkaup er alla jafna stór dagur í lífi hverra brúðhjóna og mikill undirbúningur liggur að baki. Þóra Sigurðardóttir , veitingamaður á Hótel Borg, er orðin sérfræðingur í brúðkaupsveislum því í gegnum tíðina hefur verið vinsælt að láta pússa sig saman og fagna brúðkaupinu á Hótel Borg. Hún lumar á ótal ráðum varðandi brúðkaupsveislur og þann undirbúning sem fylgir þeim veislum. Meðfylgjandi eru sex atriði sem Þóra minnir öll verðandi brúðhjón á að skoða. Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

1 Veislustjóri. „Þetta þarf ekki endilega að vera skemmtikraftur heldur einhver sem heldur utan um veisluna. Markmiðið er að veislan gangi smurt fyrir sig og að aldrei nokkurn tímann þurfi að angra brúðhjónin með fyrirspurnum eða atriðum sem kunna að koma upp. Hér skiptir máli að manneskjan sem fyrir valinu verður sé nokkuð röggsöm og geti haft stjórn á veislunni. Geti „dílað“ við drukkna ættingja og sé annáluð rólyndismanneskja sem láti fátt koma sér úr jafnvægi.“

2 Matur „Verið er að bjóða til veislu og yfirleitt er fólk að greiða vænan skilding fyrir. Það er því höfuðatriði að það sé nóg af mat og að maturinn sé góður. Oftar en ekki koma brúðhjónin til okkar í smakk og eru því fullkomlega meðvituð um það sem verið er að bjóða upp á.“

3 Drykkir. „Ef verið er að veita áfengi er mikilvægt að keyrslunni sé stýrt miðað við það magn sem verið er að bjóða upp á. Oftast erum við nokkuð nærri lagi með hversu mikið magn fer en það er alltaf gott að vera búin að ákveða fyrirfram magnið þannig að þetta verði ekki langt umfram það sem áætlað var.“

4 Skipulag. „Hér skiptir máli að vera með nokkuð skýra hugmynd um hvernig veislan á að vera og hvað þarf til að hún heppnist sem best. Fundir í aðdragandanum eru nauðsynlegir þannig að allir viti hvað þeir eru að gera og að verkefnum sé útdeilt. Við förum alltaf gaumgæfilega yfir planið með brúðhjónunum og erum óhrædd við að miðla úr okkar reynslubanka. Það er fátt erfiðara en veisla sem á bara að vera „einhvern veginn“.“

5 Dagurinn eftir brúðkaupið. „Sjálfri fannst mér sá dagur ekki síðri en brúðkaupsdagurinn sjálfur og ég er dugleg að predika það. Það þarf að gera ráðstafanir varðandi þann dag. Opna gjafir, hitta vini og vandamenn og endurupplifa brúðkaupið í afslöppuðu umhverfi. Oft boðar parið gesti heim til sín eða hist er á veitingastað og borðaður „brunch“. Þetta er eiginlega bara alveg frábært og ég ráðlegg sem flestum að njóta þessa dags.“

6 Njótið dagsins. „Það má ekki gleyma því að þetta á að vera gaman. Það er í góðu lagi að eyða mánuðum í undirbúning og þaulskipuleggja hvert smáatriði en þegar kemur að deginum sjálfum verður maður að sleppa takinu og muna að njóta.

„Þetta eru þau atriði sem ég legg alltaf mikla áherslu á að fólk skoði þegar verið er að plana brúðkaupsveislu. Svo er eitt annað sem ég passa upp á í hverju brúðkaupi og það er að brúðurin borði! Oftar en ekki er dagurinn búinn að vera þéttur og stressið mikið, þá gleymist stundum að borða. Því brýni ég fyrir hverri brúði og öllu hennar fólki, ekki gleyma að brynna brúðinni reglulega og gefa henni matarbita. Glöð brúður tryggir gott brúðkaup.“