Brúðarkjóllinn var sérsaumaður á Ítalíu en Emil spilar fótbolta þar í landi.
Brúðarkjóllinn var sérsaumaður á Ítalíu en Emil spilar fótbolta þar í landi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ása María Reginsdóttir gekk að eiga Emil Hallfreðsson 16. júní 2012. Hafliði Kristinsson gaf brúðhjónin saman í Dómkirkjunni í Reykjavík. Á eftir var slegið upp glæsilegri veislu í Norðurljósasal Hörpu. Marta María Jónasdóttir | martamaria@mbl.is

Þegar Ása María er spurð út í brúðkaupsundirbúninginn segir hún að hann hafi staðið yfir í eitt og hálft ár.

„Það er líklegast alltof langur tími,“ segir hún og brosir og bætir við: „Þá bókaði ég kirkjuna, salinn, Pál Óskar og Moniku sem sáu um tónlistina í athöfninni og Ingó Veðurguð sem hélt uppi stuðinu í veislunni.“

Er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi? „Ég hugsaði hvert smáatriði í þaula en klikkaði samt á einu og það var að hafa menntaðan ljósmyndara í veislunni. Það er súrt að eiga engar almennilegar og vandaðar myndir af okkur í veislunni, með foreldrum og systkinum.“

Ása María klæddist sérsaumuðum kjól á brúðkaupsdaginn.

„Kjólinn lét ég sauma á mig hér á Ítalíu en þar sem ég var með sex mánaða son okkar hjóna á brjósti á þessum tíma þurfti að taka tillit til þess. Annars vildi ég bara hafa hann látlausan og þannig að hann kæmi vel út á mynd, sem ég held að hafi tekist nokkuð vel.“

Þegar þú horfir til baka, hvað fannst þér standa upp úr á brúðkaupsdeginum? „Í athöfninni söng Emil fyrir mig lag sem er okkur mjög kært og ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa til þess. Að auki verð ég ævinlega þakklát okkar nánustu fjölskyldu, vinkonum og vinum sem sáu til þess með ýmsum hætti að gera þennan dag algjörlega ógleymanlegan.“

Fenguð þið einhver ráð á brúðkaupsdaginn sem hafa komið að góðum notum? „Mamma talaði um í ræðunni sem hún hélt að fara aldrei ósátt að sofa. Ég rifja það upp í hvert skipti sem það tekst ekki og langar alltaf að gera betur næst...“

Hver er lykillinn að góðu hjónabandi? „Lykillinn er að geta talað saman um ágreining á þann hátt að það leiði ekki til árása eða persónulegrar gagnrýni. Bera virðingu fyrir maka sínum, bera traust til hans og ef traustið er þá vex maður og dafnar innan sambandsins. Mikilvægt að eyða tíma tvö saman – hafa alltaf eitthvert ævintýri framundan, það þarf ekki að vera stórt eða dýrt, en skemmtilegt. Vera stoð og stytta í gegnum súrt og sætt og að lokum; rækta hlýju, nánd og umhyggju í garð hvort annars.“