Erling Garðar Jónasson
Erling Garðar Jónasson
Eftir Erling Garðar Jónasson: "„Sé almúginn sínum foringjum framar, er festa hans vígsins síðasti hamar. Vaknaðu, reistu þig, lýður míns lands.“ (Heróp Einars Ben.)"
Staksteinar fara mikinn í greiningu mótmæla síðustu daga, svo mikinn að mér varð óglatt. Morgunblaðið, Staksteinar 8.4. 2016. Þar segir m.a.. „Í mótmælum síðustu daga hefur margt sérkennilegt komið fram. Eitt af þessu er því miður mikill misskilningur einstakra mótmælenda um eðli lýðræðisins. Einn mótmælandi var til að mynda í viðtali í ljósvakamiðli spurður út í mótmælin og ástæður þeirra og viðraði afar sérkennileg sjónarmið. Mótmælandinn hélt því fram að mótmælin væru eina leiðin sem fólk hefði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri“. Síðan segir: „Það er mikið áhyggjuefni ef svo mjög hefur verið ýtt undir hávær mótmæli, jafnvel þar sem eignaspjöll og sóðaskapur þykja sjálfsagðir fylgifiskar, að einhverjir landsmenn séu búnir að gleyma því að hér er lýðræði og hvað í því felst“. Síðan: „Sjálfsagt er að fólk mótmæli telji það ástæðu til. Það er eðlilegur réttur almennings. Þegar mótmælin fara skikkanlega fram og án skemmdarverka er ekkert við þau að athuga. En það er alvarlegt mál fyrir lýðræðið í landinu ef mótmælendur, að ekki sé talað um stjórnmálamenn, telja að hávær mótmæli með eggjakasti eigi að taka við af kosningum til að ákvarða stjórn landsins. Og það er ískyggilegt þegar einstakir fjölmiðlar og fjölmiðlamenn eru farnir að ýta undir þá skoðun“. Ég spyr mína frábæru Morgunblaðsritstjóra, „Er það virkilega ykkar skoðun að þessi 20-30 þúsund mans sem mættu í miðbænum séu skríll sem berjist fyrir skrílræði?“ Auðvitað verðum við „skríllinn“ stundum að hypja okkur upp á dekk og hafa uppi háreysti, – hvað annað? Sannleikurinn liggur fyrir í rándýrri og þar af leiðandi skilmerkri sannleiksskýrslu um alla viðskiptaleiki stjórnvalda, banka og viðskiptajöfra í aðdraganda hrunsins og nú í framhaldsútgáfu. Við þurfum engan meiri eða fleiri sannleika. Sannleikurinn er sá, í sinni einföldu mynd, að fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóri sagði okkur sannleikann þegar hann tók út 400 þúsund kallinn úr sparibókinni sinni í bankanum. Og nú þegar hann situr sinn friðarstól ritstjórans bendir hann á að landsmenn megi sofa áfram Þyrnirósarsvefni því nú þegar óvandaðir reyni að vekja hann upp minnir hann á uppvakninginn Frankenstein og þá verði lítið við hann ráðið, sem er auðvitað hárrétt ályktun sem oftast áður hjá ritstjóranum. Já, við hefðum átt að grennslast betur um það sem ritstjórinn var að bauka áður en hann varð ritstjóri og fljóta þannig sofandi að feigðarósi. Ekki meir, ekki meir, nei og aftur nei, það er satt – við þurfum ekki frekari bræðra- eða systravíg eða vægt til orða tekið hlandgusuþvott ráðandi meðalmennsku. Það er nóg komið af slíku. Það sem við þurfum nú sem aldrei fyrr er þjóðarsátt til að brúa okkur burt frá óreiðu fortíðar en ekki langvarandi blóðugan mannorðssviptingarferil sem færir aðeins lögmannastéttinni í landinu brauð á borð og fitar bara púkana á fjósbita þjóðar okkar. Kristín Ómarsdóttir skáld lýkur hetjukvæði sínu með niðurstöðu miðkynslóðarhetjanna. Hetjanna sem sigldu m.a. með þjóðina í útrás og stýrðu þjóðarskútunni svo rækilega í strand að ekkert er eftir nema kjölurinn. Og hún segir: „Því ef við verðum gömul höfum við að minnsta kosti eitthvað – eitthvað meira og gagnlegra að segja en gamalmennin nú sem runnu á rassinn með sitt, sem runnu á rassinn með sitt og það er ekki okkur að kenna! Eitthvað verður að minnsta kosti öðruvísi, tími stingdu okkur á hol.“ Kristín sýnir svo sannarlega í kvæðinu að óvandaðir geta aldrei orðið gamlir með bleyjur, því tíminn stendur í stað hjá hetjunum. Núverandi ráðandi hetjur stjórnmála ættu að gera sér grein fyrir því að ekki er svo í raun, því það kemur nýr dagur á eftir deginum í dag. Starfshefðir stjórnvalda Íslendinga hafa mótast út frá hagsmunum einstakra samfélagshópa, því þar með væri heildarhagsmunum þjóðarinnar best borgið, segja þeir, samanber rökin fyrir hagsmunagæslu fyrir landbúnað og sjávarútveg, og „útrásarvíkinga“ pólitískra og einkavæddra banka. Við ættum að nota þá starfshætti í meira mæli sem sveitarstjórn Egilsstaða gerði allt fram á áttunda áratuginn, að vinna ekki með meiri- eða minnihluta og reyndist það mjög vel við að skapa kaupstað úr þorpi. En ég segi bara líkt og Jóhannes úr Kötlum í kvæðinu Landið fær mál: „ sláum upp skjaldborg um lýðræði og réttlæti, það er menningin, íslenska þjóð.“ Þetta ætti allt að bjargast, þrátt fyrir allt, því við búum í landi mikilla auðlinda sem frumkvöðlarnir hafa hagnýtt fyrir þjóðina og við eigum því að vera nokkuð örugg ef við fáum að njóta þeirrar gæfu að ríkisstjórn læri að smala hugmyndum þegna og geti þannig virkjað nýorku fram í þegnum til aukinnar verðmætasköpunar og framleiðslutækifæri í menningu og mennt þjóðarinnar, í stað þess að liggja undir sæng til að heyra ekki. Og við verðum að taka undir heróp Einars Ben: „Sé almúginn sínum foringjum framar, er festa hans vígsins síðasti hamar. Vaknaðu, reistu þig, lýður míns lands.“

Höfundur er fv. formaður Samtaka aldraðra.

Höf.: Erling Garðar Jónasson