Styrkþegi Haukur Björnsson afhenti Agnesi Tönju styrkinn í gær.
Styrkþegi Haukur Björnsson afhenti Agnesi Tönju styrkinn í gær.
Söngmenntasjóður Marinós Péturssonar úthlutaði í gær árlegum styrk til framhaldsnáms í söng erlendis á Björtuloftum í Hörpu og hlaut styrkinn, eina milljón króna, Agnes Tanja Þorsteinsdóttir mezzósópran sem bæði hefur stundað nám í söng og píanóleik.

Söngmenntasjóður Marinós Péturssonar úthlutaði í gær árlegum styrk til framhaldsnáms í söng erlendis á Björtuloftum í Hörpu og hlaut styrkinn, eina milljón króna, Agnes Tanja Þorsteinsdóttir mezzósópran sem bæði hefur stundað nám í söng og píanóleik. Hún lauk námi á Íslandi með framhaldsprófi í söng og píanóleik við Tónlistarskóla Garðabæjar árið 2009 og hefur upp frá því verið við nám erlendis, einkum í Vínarborg og lauk fyrir skömmu BA-prófi í söng við Universität für Musik und darstellende Kunst í Vínarborg.

„Á námstímanum hefur Agnes Tanja komið fram í fjölda óperuuppfærslna, konserta og tekið þátt í samkeppnum og vegnað vel,“ sagði í ávarpi Hauks Björnssonar, formanns sjóðsins, sem veitti styrkinn í gær.

Sjóðurinn er kenndur við Marinó Pétursson stórkaupmann sem lét, eftir sinn dag, allar eigur sínar renna í söngmenntasjóð. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn árið 1992 og stefnan að veita árlega einn myndarlegan styrk til handa ungum efnilegum söngvara til framhaldsnáms.