Tveir gullpeningar í brennó Lilja Katrín hefur æft brennó af miklum móð í sex ár. Hún keppti með sigurliðinu 2010 og fékk gullpening. Og öðru sinni á síðasta Íslandsmeistaramóti kvenna í brennó í ár, en þá sem besti hlauparinn.
Tveir gullpeningar í brennó Lilja Katrín hefur æft brennó af miklum móð í sex ár. Hún keppti með sigurliðinu 2010 og fékk gullpening. Og öðru sinni á síðasta Íslandsmeistaramóti kvenna í brennó í ár, en þá sem besti hlauparinn. — sdfs
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær eru stundum svolítið krambúleraðar og með litríka og misstóra marbletti eftir æfingar. Í brennó er nefnilega töluverð harka en konurnar sem æft hafa íþróttina tvisvar í viku í mörg ár láta slíka smámuni ekki á sig fá.

Þær eru stundum svolítið krambúleraðar og með litríka og misstóra marbletti eftir æfingar. Í brennó er nefnilega töluverð harka en konurnar sem æft hafa íþróttina tvisvar í viku í mörg ár láta slíka smámuni ekki á sig fá. Íslandsmeistaramót kvenna í brennó var haldið um liðna helgi í Kórnum í Kópavogi. Lilja Katrín Gunnarsdóttir, sem keppti með túrkísbláa liðinu, er ein þeirra sem foringjarnir í brennó völdu alltaf síðast í liðin á skólalóðinni í gamla daga.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Sumum er enn í fersku minni höfnunartilfinningin sem helltist yfir þá á skólalóðinni eða í götunni heima í gamla daga þegar foringjarnir í brennó völdu í liðin. Lilja Katrín Gunnarsdóttir er ein þeirra sem eiga sárar minningar frá þessum tíma, ævinlega valin síðust eða a.m.k. með þeim síðustu. „Ég var ekki sú léttasta á velli, fremur svona bústin auk þess sem ég var bara rosalega léleg,“ rifjar hún upp.

Mörgum árum síðar sá hún fyrir tilviljun boð á Facebook frá Brenniboltafélagi Reykjavíkur og ákvað að drífa sig á æfingu. „Ég var í fæðingarorlofi og þurfti að komast aðeins út af heimilinu og hreyfa mig. Eiginlega var ég búin að gleyma leikreglunum í brennó, ruglaði saman brennó og skotbolta og var alveg að farast úr stressi þegar ég hitti allar þessar ókunnu, kraftmiklu konur. Svo spilaði auðvitað inn í að ég hafði alltaf verið svo léleg í brennó.“

Klúðruðu á lokametrunum

En Lilja Katrín fékk hlýjar móttökur og féll strax vel í hópinn. Hún segir konurnar yfirleitt lítið þekkjast innbyrðis. Þær mæti bara á æfingar, spili brennó með tilheyrandi dúndrum, fjöri og látum og fari síðan hver til síns heima. Stundum svolítið krambúleraðar og með litríka og misstóra marbletti.

„Við erum að meðaltali 20 til 25 stelpur á þrítugs- og fertugsaldri sem æfum tvisvar í viku í Kórnum í Kópavogi á veturna og á Klambratúni og víðar á sumrin. Brennó er hörkupúl, mikið stuð og gríðarlegur keppnisandi í hópnum. Árið 2010, sem var fyrsta æfingaár mitt, tók ég þátt í Íslandsmeistaramóti kvenna í brennó, var í sigurliðinu og fékk gullpening,“ upplýsir hún stolt.

Liðinu hennar vegnaði þó ekki eins glimrandi vel á nýafstöðnu móti. Þátttakendur voru úr nokkrum brenniboltafélögum kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Athygli vakti að tvö lið frá Álftanesi mættu til leiks, en Lilja Katrín segir að brenniboltalið kvenna séu starfandi víða um land. Henni er ekki kunnugt um að karlar komi reglulega saman í brennó. „Fyrir mótið var dregið í lið til að þau væru ekki ójöfn. Margar voru nýbyrjaðar að æfa og við vildum að liðin ættu jafna möguleika á að vinna. Eftir harða baráttu í undanúrslitakeppninni voru fjögur lið hnífjöfn. Liðið mitt, Merkjalausnir, klúðraði því miður öllu á lokametrunum og missti fyrir vikið af verðlaunum; gulli, silfri og bronsi. Við þurfum greinilega að æfa meira til að hafa betra úthald því ef leikurinn dróst á langinn flaug einbeitingin út um gluggann. Flest liðin spiluðu 12 leiki, en hver leikur er í mesta lagi 15 mínútur.“

„Ertu að skoða rassinn minn?“

Brenniboltafélag Reykjavíkur er ekki formlegt íþróttafélag innan vébanda ÍSÍ og því borga konurnar úr eigin vasa leigu á sal og þvíumlíkt og sjá sjálfar um undirbúning og skipulagningu móta. Fyrir mótið 2016 voru hæg heimatökin varðandi búninga því þær gerðu góðan samning um áprentaða boli hjá Merkjalausnum, nýstofnuðu fyrirtæki Lilju Katrínar og eiginmanns hennar.

Sigurliðið, Hit Me Baby One More Time, skartaði appelsínugulum bolum, I've Got Your Ball, liðið sem hafnaði í öðru sæti, bláum og Forsetaframbjóðendurnir í þriðja sætinu svörtum. Lið Lilju Katrínar tók sig vel út í túrkísbláum. „Við létum prenta alls konar brandara á bolina. „Ertu að skoða rassinn minn?“ stóð í agnarsmáu letri á okkar bolum. Hugsunin var að andstæðingarnir yrðu forvitnir og færu að rýna til að geta lesið áletrunina og misstu þar af leiðandi einbeitingu í leiknum. Tiltækið mistókst gjörsamlega.“

Lilja Katrín mátti þó vel við una því hún fékk verðlaun á mótinu sem besti hlauparinn – sinn annan gullpening í brennó. „Ég var svo fljót að ná boltanum þegar hann fór út fyrir hliðarlínu,“ útskýrir hún og kveðst aðspurð vera þokkalegur hlaupari. Hún hvorki játar né neitar spurningunni hvort hún sé ekki orðin góð í brennó eftir öll þessi ár. „Hins vegar kynntist ég á mér nýrri hlið þegar ég byrjaði. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði svona mikið keppnisskap. Stríðsmaðurinn hreinlega blossar upp í mér í hita leiksins, ég æsist ósjálfrátt upp, öskra formælingar eða hvatningarorð á báða bóga og verð brjáluð ef við töpum. Mér er sagt að ég verði rosalega illileg á svipinn og því kærði ég mig ekkert um að fjölskyldan kæmi til að fylgjast með Íslandsmeistaramótinu.“

Misheppnaðir íþróttatilburðir

Henni finnst ágætt að vita af tilvist stríðsmannsins því hann geti ábyggilega komið að gagni þegar mikið liggi við í lífi og starfi. „Brenniboltinn hefur gert mig andlega og líkamlega sterkari, til dæmis er ég orðin miklu spretthraðari og er farin að ná mun betri tíma en áður í hálfu maraþoni. Svo er bara miklu skemmtilegra að fara í brennó en á hlaupabrettið í ræktinni og bíða eftir að tíminn líði.“

Svo mælir konan sem áður þoldi ekki hópíþróttir af neinu tagi, kannski brennd af því að hafa alltaf verið valin með þeim síðustu í brennó á árunum áður. „Ég gerði þó eina tilraun þegar ég var 10 ára og skráði mig í kvennafótbolta með Leikni. Ég hætti eftir nokkur skipti, enda var ég svo léleg að ég gat ekki boðið liðinu upp á að hafa mig með. Mér fannst líka leiðinlegt að þurfa að troða mér í allt of þröngan búning, þeir áttu nefnilega engan í minni stærð. En ég stóð mig prýðilega sem eina stelpan með strákunum í rúgbí, þeim þótti gott að hafa mig svona stóra og þunga á endalínunni og voru mikið að hringja dyrabjöllunni og biðja mig að vera „memm“,“ segir Lilja Katrín og brosir að misheppnuðum íþróttatilraunum sínum.

Núna er hún tveggja barna móðir og finnst hún alveg ómöguleg ef hún missir af æfingu í brennó. Stefnan er á Íslandsmeistaratitil kvenna í brennó árið 2017. Gullið, hvorki meira né minna.

Foringinn hefur tvö líf

Gögn: Bolti.

Svæði: Leiksvæði, tún, íþróttasalur eða annað autt svæði.

Lýsing: Leiksvæðinu er skipt í tvennt og þátttakendum í tvö lið sem stilla sér upp hvort á sínum vallarhelmingi. Liðin kjósa sér foringja sem tekur sér stöðu fyrir aftan endalínur mótherjanna. Markmiðið er að skjóta bolta á sem flesta andstæðinga.

Markmiðinu er náð ef einhver er hæfður nema ef skotið er í höfuð viðkomandi þá telst hann ekki úr leik. Einnig er heimilt að grípa boltann en þá er sá sem kastaði boltanum úr leik. Þeir sem eru úr leik fara til foringjans fyrir aftan endalínurnar og aðstoða hann við að skjóta á andstæðingana. Þegar aðeins einn liðsmaður er eftir í öðru liðinu má foringinn fara inn á völlinn og vera honum til aðstoðar. Foringinn hefur tvö líf en aðrir eitt. Það lið sigrar sem hæfir alla sína andstæðinga.