Margrét fæddist á Dynjanda í Jökulfjörðum 6. maí 1928. Hún lést 9. apríl 2016 á Landspítalanum. Foreldrar hennar voru Hallgrímur Jónsson bóndi og hreppstjóri, f. 11. desember 1902, d. 11. febrúar 1988, og Kristín Benediktsdóttir, ljósmóðir og húsfreyja f. 5. júní 1896, d. 6. maí 1979. Margrét var ein tíu systkina. Þau eru Bentey Guðmunda, f. 9. maí 1925, d. 2012, Sigurjón Ebenezer, f. 8. nóvember 1926, Gunnar Kristján, f. 21. maí 1929, tvíburabróðir hans lést í frumbernsku, Gunnvör Rósa, f. 24. nóvember 1929, Halldóra Hólmfríður Ásta, f. 13. ágúst 1934, d. 1935, Halldóra Benedikta, f. 3. maí 1936, María, f. 2. júlí 1938, d. 2010 og Sigríður Kristín, f. 18. janúar 1942.

Margrét var gift Marinó Magnússyni, f. 7. nóvember 1928, d. 6. febrúar 1995. Þau eignuðust þrjú börn: a) Kristín Halla Marinósdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 22. febrúar 1957. Maki Bjarki Bragason og þeirra börn eru Gyða, f. 1985, Helga, f. 1989, og Rúnar, f. 1993. b) Sigursveinn Stefán Marinósson, f. 13. desember 1959. Maki Sesselja Tryggvadóttir. Stjúpsonur Stefáns er Ragnar Freyr Pálsson, f. 1980, og dóttir hans er Margrét Ögn, f. 1984, en hún á eina dóttur, Rakel, f. 2009. c) Stúlka, f. 11. apríl 1961, fæddist andvana.

Margrét ólst upp á Dynjanda í Jökulfjörðum en vann um tíma í Reykjavík. Fyrstu búskaparárin, frá 1958, bjuggu Margrét og Marinó á Stað í Grunnavík. Þegar sveitin lagðist í eyði árið 1962 fluttu þau þaðan að Þverá í Ólafsfjörð á æskustöðvar Marinós. Árið 1986 hættu þau búskap og settust að í Ólafsfjarðarbæ. Eftir andlát Marinós flutti Margrét til Reykjavíkur árið 2000 og bjó þar til dánardags.

Margrét fór í farskóla en síðan einn vetur á Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum. Mestan hluta ævi sinnar var hún húsfreyja í sveit.

Útför Margrétar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 15. apríl 2016, og hefst athöfnin kl. 15.

Að kvöldi 9. apríl síðastliðins andaðist amma mín, Margrét Hallgrímsdóttir, á Landspítalanum. Amma fæddist á Dynjanda í Jökulfjörðunum og var gift Marinó Magnússyni sem lést 1995. Ég sakna þeirra beggja meira en orð fá lýst.

Þegar þetta er skrifað sit ég úti á palli hjá mömmu og pabba. Amma Magga kvaddi heiminn í gær. Ég er tilfinningarlega búin á því, líkamlega úrvinda, útgrátin og hjartað brotið. Þó tíminn græði lífsins sár mun þetta skilja eftir ör og ömmu mun ég aldrei gleyma. Það er nefnilega ómögulegt að gleyma þessari yndislegu konu eins og ég hef komist að á þessum fáu stundum frá því hún kvaddi okkur, ég sé hana allt í kringum mig.

Að sitja úti á þessum fallega degi minnir mig á þegar ég var í leik sem barn í garðinum hjá ömmu og afa á Ólafsfirði að gera tjald úr gömlum gardínum. „Mac and cheese“-uppskrift á Facebook minnir mig á makkarónugrautinn hennar eða eins og við kölluðum hann, bullusúpu. Víðsjá-blaðið á eldhúsborðinu heima minnir mig á samverustundir okkar í húsnæði blindrafélagsins. Tjörnin minnir mig á 17. júní fyrir norðan með þeim þegar ég var barn. Flugvél flýgur yfir og ég minnist þess að fljúga ein norður þar sem amma og afi tóku á móti mér opnum örmum og brosandi á flugvellinum. Auglýsing með hesti minnir mig á Funa og að fara með afa og ömmu á hestbak. Súkkulaðið minnir mig á hvað henni þótti vænt um konfektið sem ég gaf henni um hver jól, svo ekki sé minnst á súkkulaðimúsina sem hún borðaði ávallt með bestu lyst. Mjólk og appelsínusafi minnir mig á glasið sem ég átti hjá ömmu ásamt frænku minni, Möggu, en það er nú heil saga af því. Ber minna mig á þegar við fórum öll í berjamó saman á Ólafsfirði. Ullarpeysan minir mig á hvað henni þótti gaman að prjóna og hafði gaman af allskonar handverki. Sjónvarpið minnir mig á dagskrárlok RÚV þegar það var birt mynd af stað á Íslandi og svo stuttu seina nafn staðarins. Amma leyfði mér alltaf að vaka þar til nafnið hafði verið birt. Ég, amma og afi reyndum svo að giska á nafnið áður en nafn staðarins var birt. Svona mætti lengi telja. Ég mun aldrei gleyma henni og hver hún var því hún er alls staðar í kringum mig, í hlutum, í öðrum, í hjarta mér.

Bros þitt bjarta,

rödd þín blíð,

birtir mitt hjarta,

linar hugans hríð.

Að lokum þig kveð,

en aldrei þér gleymi,

minningum með,

alla tíð dreymi.

Ég geymi þig hér

í hjarta mér

um alla tíð

minningin blíð.

Ég elska þig, amma mín, ég mun aldrei gleyma þér.

Gyða Bjarkadóttir.