Silja og Ana klæddust báðar hvítum kjól á stóra daginn.
Silja og Ana klæddust báðar hvítum kjól á stóra daginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær Silja Hlín Guðbjörnsdóttir og Ana Acedo del Olmo Godino giftu sig seinasta sumar. Þær héldu tvö brúðkaup, eitt hinn 20. júní í Mosfellsbæ og annað í Marbella á Suður-Spáni þaðan sem Ana er.

Þær Silja Hlín Guðbjörnsdóttir og Ana Acedo del Olmo Godino giftu sig seinasta sumar. Þær héldu tvö brúðkaup, eitt hinn 20. júní í Mosfellsbæ og annað í Marbella á Suður-Spáni þaðan sem Ana er. Þær lögðu áherslu á að gera hlutina alveg eftir sínu höfði og hvetja verðandi brúðhjón til að gera slíkt hið sama. „Hafið þetta eins og þið viljið! Ekki vera hrædd við að gera eitthvað öðruvísi ef þið viljið. Þið eruð að giftast ástinni ykkar og þessi dagur er til þess gerður að fagna ykkar sambandi.“ Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

Silja og Ana kynntust árið 2007 þegar Silja fór til Madrídar sem au pair. „Að góðum íslenskum sið kynntist ég henni auðvitað á bar. Ég kunni smá hrafl í spænsku og ákvað að fara til hennar og segja við hana á spænsku: „Þú ert mjög sæt.“ Hún svaraði: „Ég býð þér upp á skot.“ Við fórum á nokkur brösugleg deit þar sem við gátum nánast ekkert talað saman þar sem spænskan mín var mjög takmörkuð, sem og enskan hennar Önu. En fljótlega varð ég reiprennandi í spænsku, þökk sé Önu! Við bjuggum úti í Madríd í þrjú ár en fluttum síðan til Íslands og höfum verið þar síðan,“ segir Silja.

Hélt áður fyrr að hún myndi fá „kjánahroll af svona væmni“

Árið 2011 trúlofuðu þær sig þegar Ana bar upp bónorðið á Þorláksmessu. „Þar sem þetta var á Þorláksmessu var ég með bílinn fullan af Bónuspokum með öllum jólamatnum. Ég hringdi í Önu úr bílnum og bað hana að koma og hjálpa mér upp stigann með alla þessa poka. Hún hélt nú ekki, sagði að við myndum bara ná í pokana seinna. Það þótti mér alveg út í hött og þrjóskaðist þá við og tók alla pokana sjálf. Þegar ég labbaði fyrir hornið hafði Ana dreift rósablöðum og kertum í snjóinn í garðinum. Þegar ég opnaði síðan útidyrnar, kappklædd og móð með um það bil fimm bónuspoka í höndunum, hafði Ana raðað kertum og rósablöðum eftir endilöngum ganginum. Í stofunni sat hún með hring inni í lófanum sem hún rétti mér og sagði: „Viltu giftast mér?“ Það hafði hún lært á íslensku í vinnunni. Ég sagði auðvitað „já“. Ég hélt áður fyrr að ég myndi bara fá kjánahroll af svona væmni en svo er þetta svo yndislegt þegar svona er gert fyrir mann.“

Eins og áður sagði héldu Silja og Ana tvö brúðkaup og þannig gátu stórfjölskyldur beggja fagnað með þeim. „Okkur langaði mikið að láta gefa okkur saman að heiðnum sið. Það er falleg og persónuleg athöfn og gestirnir taka meiri þátt í athöfninni en ella. Þá liggur auðvitað beint við að gera þetta á Íslandi. Við buðum fjölskyldu og vinum úr öllum áttum. Ana bauð þó eingöngu nánustu fjölskyldu sinni þar sem hennar fjölskylda er mjög stór. En í brúðkaupinu sem við héldum á Spáni bauð hún fleirum úr stórættinni sinni auk fleiri vina. Bæði brúðkaupin voru náttúrlega alveg yndisleg frá A-Ö.“

Báðir foreldrar leiddu þær upp að altarinu

Silja segir mikið stuð hafa ríkt í báðum brúðkaupum. „Í spænsku veislunni kom meira að segja zumba-kennari til að hressa liðið við! Það vakti aldeilis mikla lukku. Síðan í íslensku veislunni vorum við með tvær vinkonur okkar sem veislustjóra en þær tala báðar spænsku og íslensku. Mér skilst að engum hafi leiðst þar sem dansinn dunaði alla nóttina á báðum stöðum.“

Silja og Ana veltu lengi fyrir sér hvernig þær vildu hafa fyrirkomulagið á stóra daginn. Þær komust þó fljótlega að þeirri niðurstöðu að þær vildu báðar gifta sig í hvítum kjólum og láta báða foreldra sína leiða sig upp að altarinu. „Við ákváðum að hafa allt nákvæmlega eftir okkar höfði. Það góða við að vera tvær konur er að fólk gerir kannski ekki alveg sömu kröfur um hefðir eins og ef við værum karlmaður og kona. Við höfum mjög gaman af ýmsum venjum, til dæmis vorum við báðar með brúðarvönd, skárum köku og svo framvegis. En þar sem við vorum hvort eð er að „synda á móti straumnum“ og giftast annarri konu, þá gátum við alveg eins haft þetta eins og við vildum. Þannig að við ákváðum að ganga saman frá glæsibílnum sem skutlaði okkur á athafnarstaðinn þar sem allir biðu okkar. Við erum báðar mjög nánar foreldrum okkar og fannst eitthvað undarlegt að bara feður okkar fengju að „gefa okkur frá sér“. Þannig að það var nú ekki beint erfið ákvörðun að hafa mæður okkar með. Það var ótrúleg tilfinning að stíga út úr bílnum og horfa yfir þennan fríða hóp sem beið okkar.“

„Haukur vinur okkar, sem er ásatrúargoði, gaf okkur svo saman á íslensku en Iris vinkona okkar og eiginkona Hauks túlkaði hluta af athöfninni yfir á spænsku. Við Ana fórum með heitin okkar á spænsku þannig að athöfnin var í rauninni 50/50 á íslensku og spænsku.“

„Ana er ekki mikil kjólakona en var mjög spennt fyrir því að vera í kjól á brúðkaupsdeginum sínum. Hún fékk vinkonu sína, Margréti Þórhildi Þórhallsdóttur fatahönnunarnema, til að teikna á sig kjól og svo saumuðu snillingarnir í Klæðskerahöllinni kjólinn. Ég fór í brúðarkjólaleigu Katrínar og mátaði kjóla af ýmsu sniði. Síðan pantaði ég kjól í gegnum þau sem ég keypti en leigði ekki. Við ákváðum að vera ekki að eyða orku í að passa að sjá ekki kjólinn hjá hvor annarri. Hjátrúin segir víst að það boði ógæfu ef brúðguminn sjái brúðarkjólinn fyrir athöfnina en engan höfðum við brúðgumann.“

Eiga von á sínu fyrsta barni

Þær Silja og Ana eiga nú von á sínu fyrsta barni sem kemur í heiminn í sumar. „Ég er ófrísk af stelpu sem er væntanleg í heiminn í júní, tveimur dögum eftir eins árs brúðkaupsafmælið okkar. Það er mikil tilhlökkun þar sem það gekk hálf brösuglega að búa hana til. Við erum svo lánsamar að búa á Íslandi þar sem við gátum frjóvgað egg frá Önu og sett í mig með aðstoð tækninnar. Þannig að þessi langþráða stúlka mun verða hápunktur sumarsins rétt eins og brúðkaupið var síðasta sumar,“ segir Silja að lokum.
Höf.: Silja Hlín Guðbjörnsdóttir, Ana Acedo del Olmo Godino