Fjöldi framboða til embættis forseta Íslands hefur gengið í bylgjum undanfarnar vikur og væntanlegur forseti bíður sjálfsagt eftir rétta tímanum og tækifærinu til þess að tilkynna ákvörðun sína.

Fjöldi framboða til embættis forseta Íslands hefur gengið í bylgjum undanfarnar vikur og væntanlegur forseti bíður sjálfsagt eftir rétta tímanum og tækifærinu til þess að tilkynna ákvörðun sína. Ef hann er eins kurteis og af er látið er viðbúið að hann hleypi öllum öðrum fram fyrir sig, eins og prófessorinn gestkomandi fyrir utan áfengisverslunina við Snorrabraut á gamlársdag fyrir margt löngu, missi af lestinni og boði tíðindin of seint.

Í margmenni og troðningi er gjarnan haft á orði að ekki muni um einn en öðru máli gegnir ef þessi eini er maður þjóðarinnar í kosningu til embættis forseta Íslands. Eins og sakir standa verða kosningarnar líkastar víðavangshlaupi þar sem allir eru ræstir á sama tíma og hending ræður hver nær fyrstur í mark. Við slíkar aðstæður verður mörgum hugsað til frumherjanna sem báru gæfu til þess að skipta hlaupurum í riðla í styttri vegalengdum, síðan í milliriðla og loks þeim fremstu í úrslit. Í hlaupum fer ekki á milli mála hver er sigurvegari en í næstu forsetakosningum hérlendis er ekki víst að sá fyrsti verði raunverulegur sigurvegari.

Ekki verður á allt kosið og ætla má að kjósendur þekki hvorki haus né sporð á flestum frambjóðendum, hvað þá að þeir geti nefnt þá með nafni.

Saga frá Vestmannaeyjum eftir að Vigdís var fyrst kjörin forseti 1980 á nú vel við. Albert var vinsæll í Eyjum, hafði búið þar og leikið fótbolta, og átti mikið fylgi hjá heimamönnum. Eyjamenn voru því að vonum nokkuð tapsárir þegar úrslitin lágu fyrir. Kunnur Eyjamaður var fljótur að gera sem best úr öllu saman, eins og góðra manna er siður, og svaraði lipurlega þegar hann var spurður daginn eftir kosningar hvernig honum líkaðu úrslitin. „Ja, ég verð að viðurkenna það að Pétur var bestur, en ég kaus Albert. En fyrst Guðlaugur komst ekki að þá sætti ég mig við Vigdísi!“