Signý Jóna Tryggvadóttir og Einar Númi Sveinsson gengu í hjónaband 4. júlí 2015.
Signý Jóna Tryggvadóttir og Einar Númi Sveinsson gengu í hjónaband 4. júlí 2015.
Signý Jóna Tryggvadóttir og Einar Númi Sveinsson gengu í hjónaband 4. júlí 2015. Þau byrjuðu að skipuleggja brúðkaupið með ársfyrirvara og segir Signý að það hafi alls ekki veitt af þeim tíma. Marta María Jónasdóttir | martamaria@mbl.is

Dagurinn byrjaði með brúðargreiðslu hjá Fíu vinkonu minni á 101 hárhönnun, þar tók hún á móti mér með morgunmat og freyðivíni. Þaðan fór ég heim til mömmu og þar biðu konurnar í lífi mínu sem eru systir mín, mamma, eiginkona hennar, stjúpdóttir mín og tengdamamma. Við fengum allar æðislega förðun hjá Karin, sem er eigandi nola.is. Mamma var svo búin að panta snittur og við skoluðum þeim niður með kampavíni. Þessi stund var algjörlega yndisleg,“ segir Signý Jóna.

Eftir þessa notalegu stund með konunum í lífi Signýjar fóru hjónin tilvonandi í brúðkaupsmyndatöku.

„Rut Sigurðardóttir tók myndirnar, sem komu alveg ótrúlega vel út. Við tókum þá ákvörðun að fara í myndatökuna fyrir athöfnina svo að það væri minna stress og við gætum notið þess að vera í myndatökunni. Síðast en ekki síst til að láta ekki gestina bíða eftir okkur í veislunni. Þetta gekk eins og í sögu,“ segir hún.

Signý Jóna og Einar Númi leigðu turnsvítuna á Hótel Borg fyrir brúðkaupsnóttina en veislan fór fram í Gyllta salnum á Borg Restaurant.

„Eftir myndatökuna fór ég með pabba og stjúpdóttur minni þangað og við fylgdumst með gestunum trítla inn í kirkjuna. Það var ógleymanleg stund, tilhlökkunin í hámarki. Séra Hjálmar Jónsson gaf okkur saman í Dómkirkjunni og Sigríður Thorlacius söng eins og engill undir.“

Brúðkaupsveislan sjálf var beint eftir athöfnina á Borg Restaurant.

„Þóra Sigurðardóttir hjá Hótel Borg sá til þess að maturinn var upp á tíu. Veislan var heldur ekki af verri endanum, við fengum svo æðisleg óvænt atriði á borð við Stefán Hilmarsson, Lárusdætur og karlakórinn Esju. Svo var dansað fram á nótt,“ segir hún.

Þegar Signý Jóna er spurð hvenær þau hafi byrjað að undirbúa brúðkaupið segir hún að þau hafi byrjað ári fyrr.

„Það fyrsta sem við gerðum var að bóka kirkju, prest og sal. Einnig bókuðum við ljósmyndara. Það var ótrúlegt hvað það var mikið uppbókað ári fyrir.

Um það bil átta mánuðum fyrir daginn völdum við þemað í brúðkaupinu og ég fór að huga að kjólnum þar sem ég ætlaði að láta sérsauma hann. Einnig bókaði ég blómaskreytingar og bókaði Eirík hjá Silent til að taka upp daginn fyrir okkur. Við höfðum líka samband við veislustjóra.

Svo hálfu ári áður völdum við boðskort, pöntuðum brúðartertu og völdum föt á brúðgumann og fyrir stjúpdóttur mína. Stuttu fyrir brúðkaupið voru minni hlutirnir framkvæmdir eins og að velja lög fyrir kirkjuna, kaupa gestabók, velja skó og svo framvegis.

Þar sem við búum erlendis þurftum við að vera extra skipulögð og nýta allar ferðir sem við komum heim alveg ótrúlega vel. Skipulagningin var ótrúlega skemmtileg, svona eftir á.“

Hvað var flóknast við skipulagninguna?

„Að reyna að fara eftir fjárhagsáætluninni sem við gerðum ári fyrir brúðkaupið. Það var erfiðast. Líka að skipuleggja brúðkaupið meðan við vorum úti en það er ótrúlegt hvað maður getur gert mikið í gegnum tölvupóst. Svo að sjálfsögðu að láta allt ganga upp, það komu upp hnökrar sem við þurftum að leysa en það er bara eitthvað sem fylgir held ég.“

Signý Jóna klæddist sérsaumuðum kjól frá Malen og Ásu í Eðalklæðum.

„Ég hafði mjög sterkar skoðanir á hvernig ég vildi hafa kjólinn. Ég hannaði hann sjálf með aðstoð frá þeim í Eðalklæðum.

Ég mætti með tíu myndir og sagði nákvæmlega hvað ég vildi og þær útfærðu það 100% . Ég lagði einnig upp úr því að velja góð efni og þær hjálpuðu mér svo sannalega við það og útkoman var meiriháttar. Þjónustan var frábær, ég mæli eindregið með Eðalklæðum.

Þetta var án efa það skemmtilegasta við undirbúning brúðkaupsins; að fylgjast með kjólnum verða til.“

Þegar þú horfir til baka, hvað fannst þér standa upp úr á brúðkaupsdeginum?

„Dagurinn var frábær, eiginlega bara fullkominn. Það sem ég held að standi helst upp úr eru æðislegu ræðurnar sem við fengum og öll óvæntu skemmtiatriðin.

Veislan var ótrúlega skemmtileg og yndislegt að fagna með öllu fólkinu sínu. Svo vorum við svo heppin með frábæra veislustjóra sem héldu fjörinu uppi allan tímann. Góðir veislustjórar gera gæfumuninn.“

Hver er lykillinn að góðu hjónabandi?

„Við leggjum mikið upp úr góðum samskiptum og vera alltaf hreinskilin hvort við annað. Við erum miklir vinir og okkur þykir gaman að gera hlutina saman. Virðing hvort fyrir öðru er auðvitað stór þáttur í að halda heilbrigðu sambandi. Svo skiptum við að sjálfsögðu með okkur verkum við heimilisstörf. Mér finnst það mjög mikilvægt. Maðurinn minn segir að lykilatriðið í hjónabandinu sé þetta: „If mama ain't happy, ain't nobody happy!“

Signý Jóna og Einar Númi lögðu mikla áherslu á að hafa salinn fallega skreyttan.

„Við fengum Maríu Másdóttur eða Maju hjá Blómahönnun til að sjá um skreytingarnar fyrir okkur. Þemað í brúðkaupinu var vintage eða 20's sem var svo við hæfi þar sem veislan var á Hótel Borg. Ég vildi reyna ná stemningunni með skreytingum og svo með góðri djasstónlist. Ég var búin að búa til albúm á Pinterest með borða og blómaskreytingum sem mér þætti flott svo Maja gæti unnið út frá því. Það var mikið um háar borðskreytingar, fjaðrir, háa kertastjaka og fullt af blómum. Maja gerði þetta fullkomið fyrir okkur, alveg eins og okkur langaði að hafa það.“

Geturðu gefið verðandi brúðhjónum tíu góð ráð um skipulagningu brúðkaupsins?

1 Byrja snemma að undirbúa. Bóka sal, kirkju og prest tímanlega.

2 Gera gestalista snemma (það kemur á óvart hvað þetta getur verið erfitt).

3Búa til fjárhagsáætlun.

4 Fá einhvern til að taka upp daginn (ómetanlegt að geta horft á allt aftur).

5Velja veislustjóra vel (góðir veislustjórar geta gert kvöldið ógleymanlegt).

6 Dreifa verkefnum á fjölskyldu og vini (það er lúmskt mikið sem þarf að gera).

7Reyna að gera eins mikið saman og þið getið (þetta er skemmtilegra en þið haldið).

8 Útbúa síðu á Pinterest með hugmyndum fyrir brúðkaupið.

9 Hafa daginn algjörlega eftir ykkar höfði og ekki spá í hvað öðrum finnst. Þetta er ykkar dagur.

10 NJÓTA! Njóta meðan á þessu stendur, tíminn er svo fljótur að líða.

Höf.: Signý Jóna Tryggvadóttir , Einar Númi Sveinsson