Hjónin Kristín Guðnadóttir og Ásbjörn Björnsson sjá um kynningarmál Hjónahelgarinnar.
Hjónin Kristín Guðnadóttir og Ásbjörn Björnsson sjá um kynningarmál Hjónahelgarinnar.
„Hjónahelgin er rómantískt ferðalag. Þar er meðal annars kennd og æfð áhrifarík tjáskiptaaðferð sem fæstir hafa notað áður. Hjónahelgin er miklu frekar upplifun en námskeið.

„Hjónahelgin er rómantískt ferðalag. Þar er meðal annars kennd og æfð áhrifarík tjáskiptaaðferð sem fæstir hafa notað áður. Hjónahelgin er miklu frekar upplifun en námskeið. Munurinn felst til dæmis í því að hjónin læra ekki bara hvernig þau geta átt áhrifaríkari tjáskipti, heldur er aðferðin líka æfð rækilega,“ segja hjónin Kristín Guðnadóttir og Ásbjörn Björnsson sem sjá um kynningarmál Hjónahelgarinnar. Guðný Hrönn | gudnyhronn@gmail.com

Kristín og Ásbjörn segja þessar helgar hafa verið haldnar í um 30 ár á Íslandi og að yfir 3.500 hjón hafa sótt þær í gegnum tíðina. Hjónahelgin hefst um klukkan 20:00 á föstudagskvöldi og endar um klukkan 18:00 á sunnudegi að sögn Kristínar og Ásbjörns. „Við dveljum á góðu hóteli í Reykjavík í tvo sólarhringa, fáum góðan mat og mikla andlega næringu. Fern hjón eru leiðbeinendur á helginni. Þau segja frá persónulegum dæmum úr lífi sínu. Í lok hvers lesturs er tími fyrir persónulega íhugun og tjáningu við maka sinn, í einrúmi. Þetta er skipulögð vinnuhelgi. Hjónahelgarnar eru hvorki afslöppun né hjónabandsmeðferð í þeim skilningi sem venjulega er lagður í það orð,“ segja þau Kristín og Ásbjörn, aðspurð hvernig Hjónahelgin fer fram.

Eins og áður sagði er Hjónahelgin ekki hugsuð sem hjónabandsmeðferð. „Helgin er fyrir hver hjón að njóta út af fyrir sig. Þau þurfa ekki að deila sínum málum með öðrum hjónum. Þetta á að vera einstök reynsla sem hver hjón upplifa sín á milli og mikil áhersla er lögð á að öll fái næði til þess. Þetta er ekki hugsað fyrir hjón sem eru á barmi skilnaðar en hins vegar hefur það oft gerst að hjón sem voru að komast í vonlitla stöðu hafi leyst hnútana saman með því að nota aðferðina sem þau læra. Við göngum öll í gegnum krefjandi tímabil en getum samt verið í góðu hjónabandi. Tilgangurinn með Hjónahelgunum er að styrkja og endurnýja góð hjónabönd. Flest segja reynsluna sem þau gengu í gegnum vera ákaflega gefandi fyrir hjónabandið og mörg hjón tala hreinlega um lífið fyrir og eftir Hjónahelgina. Sum hjón hafa jafnvel komið oftar en einu sinni á Hjónahelgina og gera það til að hlaða batteríin ef svo má að orði komast.“

Öll hjón glíma við einhver vandamál

„Gott hjónaband er ekki endilega hjónaband án vandamála. Öll hjón kljást við einhver vandamál, en ef þau eru ekki stórvægileg og hafa ekki alvarleg eða skaðleg áhrif á sambandið, þá eru hjónin í góðu hjónabandi.“

„Nei, en það er kostur að vera kærleiksríkur,“ segja Kristín og Ásbjörn, aðspurð hvort þátttakendur þurfi að vera trúaðir. „Trúarlegi hlutinn snýst að mestu um það sem ritningin segir um kærleikann og hjónabönd. Við erum sannfærð um að fallegt hjónaband er einhver fallegasta birtingarmynd kærleikans. Við viljum bæta samfélagið með því að efla hjónabönd, hvort sem þau eru byggð á trú eða ekki. Hjónahelgarnar eru í raun kærleiksverk frá hjónum til hjóna.“

Hjónahelgin getur nýst öllum hjónum

Hjónahelgin er fyrir bæði ung nýgift hjón sem og hjón sem hafa verið gift lengi. „En við teljum að hjónin fái meira út úr Hjónahelginni eftir að nokkurra ára reynsla er komin á sambandið. Þó hafa ung hjón með stutt kynni að baki líka sagt okkur að Hjónahelgin þeirra hafi verið gott veganesti inn í framtíðina,“ útskýra Kristín og Ásbjörn.

Áhugasamir geta kynnt sér Hjónahelgina nánar á www.hjonahelgi.is og svo er hægt að skrá sig í gegnum netfangið skraning@hjonahelgi.is.