[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson húsasmíðameistari létu gefa sig saman í Fríkirkjunni í júlí árið 2007.

Fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson húsasmíðameistari létu gefa sig saman í Fríkirkjunni í júlí árið 2007. Snæfríður segir hvatvísi ávallt hafa verið ráðandi í sambandi þeirra en þau giftu sig eftir minna en árs kynni. Athöfnin var óvenjuleg að sögn Snæfríðar, meðal annars var um morgunbrúðkaup að ræða og svo tók við afar hressandi veisla sem entist fram á kvöld. Marta María Jónasdóttir | martamaria@mbl.is

Athöfnin var óvenjuleg fyrir þær sakir að þetta var morgunbrúðkaup og eins héldum við bæði ræðu í kirkjunni sem gerði athöfnina afar persónulega. Þegar gestirnir komu út úr kirkjunni beið lúðrasveit fyrir utan og allir fengu fána í hönd. Gestir höfðu ekki fengið upplýsingar um það hvar veislan yrði haldin en við létum hópinn marsera saman af stað í átt að salnum. Genginn var góður hringur um Þingholtin á eftir lúðrasveitinni til þess eins að enda í sal Fríkirkjunnar, útskýrir Snæfríður.

Snæfríður segir þennan göngutúr hafa vakið mikla lukku. „Hann byggði upp stemningu fyrir veisluna. Þegar í salinn var komið stungum við hjónin af í myndatöku en á meðan þurftu gestir að leita að sessunaut sínum. Allir fengu ákveðnar upplýsingar um sessunaut sinn, sem sagt áhugamál, skóstærð, háralit og svo framvegis. Gestirnir urðu síðan að ganga um og leita að sessunautnum til þess að vita hvar þeir ættu að sitja. Þetta hristi hópinn saman og braut niður alla feimni milli gesta því þeir urðu hreinlega að tala saman til þess að geta sest.“

Hagsýnin réð ríkjum í undirbúningnum

Snæfríður og Mattías trúlofuðu sig hálfu ári áður en brúðkaupið var haldið og helltu sér beint í undirbúninginn. „Við reyndum að vera hagsýn þar sem því varð viðkomið. Við fengum til dæmis alla vini sem voru á leið til útlanda og erlenda gesti sem komu í veisluna til þess að koma með rommflösku úr tollinum en þannig náðum við að eiga nóg romm í Mojito handa þessum rúmlega 100 gestum. Maturinn var bæði aðkeyptur og heimagerður og lögðu þar margir hönd á plóg. Land Rover föður míns var brúðarbíllinn og var hann skreyttur með lúpínum sem tíndar voru samdægurs. Við vorum meira að segja það hagsýn að við gengum í Fríkirkjusöfnuðinn gagngert til þess að fá sal leigðan á góðum kjörum, það er varla hægt að segja frá þessu, en ég geri það núna þar sem það eru 9 ár síðan og við fyrir löngu gengin úr Fríkirkjunni,“ segir Snæfríður og hlær.

„Við höfðum óskaplega gaman af því að skipuleggja þennan dag og ég held að sú vinna hafi skilað sér alla leið til gesta. Ég man að það var mjög flókið að finna út hvar allir áttu að sitja og þá var ekki síður tímafrekt að búa til þennan leik fyrir gestina varðandi sætavísunina. Við fengum fréttaljósmyndara til þess að mynda brúðkaupið þar sem ég hafði áhyggjur af því að hefðbundinn brúðkaupsljósmyndari væri ekki nógu snar í snúningum til þess að fanga skrúðgönguna og ég var mjög ánægð með hans framlag. Eins man ég að það var smá leit að heppilegri lúðrasveit,“ segir Snæfríður þegar hún er spurð nánar út í skipulagið.

Systir Snæfríðar, Björg Ingadóttir, hönnuður Spaksmannsspjara, á svo heiðurinn af fötunum sem Snæfríður gifti sig í. „Hún saumaði hettu úr gamalli gardínu á mig í staðinn fyrir hefðbundið slör og svo var ég í hvítu korseletti og bláu tjullpilsi úr Spaksmannsspjörum. Pilsið er ég enn að nota svo það voru góð kaup í því.“

Enginn var haugafullur í veislunni

Snæfríður segir daginn hafa heppnast afar vel, þau hjón eru sérstaklega ánægð með þá ákvörðun að hafa athöfnina fyrir hádegi. „Já, það gerði það að verkum að bæði við og gestirnir vorum afar hress í veislunni sem stóð alveg fram á kvöld. Gestir voru þægilega „tipsí“ allan daginn en enginn haugafullur eins og gerist oft í veislum sem byrja seinnipartinn og standa langt fram á nótt. Við vorum líka komin í rúmið á skikkanlegum tíma til að uppfylla hjónabandsskyldurnar en þess má til gamans geta að frumburðurinn fæddist níu mánuðum síðar. Það sem stendur samt líklega upp úr er hvað vinir okkar komu okkur hressilega á óvart með frábærum skemmtiatriðum, ég var með strengi í munnvikunum í viku á eftir, svo mikið hló ég þennan dag,“ segir Snæfríður.

Aðspurð hver sé lykillinn að góðu hjónabandi segir Snæfríður: „Ég held að það sem skipti mestu sé að vera samstiga. Það er mikilvægt að vera helst á sömu blaðsíðu, eða að minnsta kosti í sama kafla. Ef fólk er ekki einu sinni í sömu bókinni þá er ólíklegt að sambandið gangi.“

Höf.: Snæfríður Ingadóttir, Matthías Kristjánsson