[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Benedikt Grétarsson bgretarsson@gmail.com Þú þarft sennilega að vera rosalega bjartsýnn og búa fyrir norðan til að spá Akureyri góðu gengi í einvígi liðsins gegn Íslandsmeisturum Hauka í átta liða úrslitum Olísdeildar karla.

Á Ásvöllum

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@gmail.com

Þú þarft sennilega að vera rosalega bjartsýnn og búa fyrir norðan til að spá Akureyri góðu gengi í einvígi liðsins gegn Íslandsmeisturum Hauka í átta liða úrslitum Olísdeildar karla. Haukar hafa verið með heljartök á Akureyringum í vetur og það breyttist ekkert að Ásvöllum í gær. Lokatölur urðu 33:24 en staðan í hálfleik ver býsna sérstök eða 20:7 Haukum í vil!

Aðalsmerki Hauka skinu í gegn í fyrri hálfleik. Vörnin og markvarsla Gidriusar Morkunas skilaði fjölmörgum hröðum sóknum þar sem Hákon Daði Styrmisson fór fremstur en þessi snaggaralegi Eyjamaður skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik og tíu alls. Sannkallaður happafengur frá Vestmannaeyjum og það hljóta nokkrir Eyjamenn að naga sig í handarbökin að missa Hákon Daða yfir til Hauka.

„Þeir börðu aðeins á okkur í seinni hálfleik, eins og þeir gera nú gjarnan en mér fannst við bara flottir í þessum leik. Fyrri hálfleikurinn var frábær og vörnin okkar skilaði okkur ótrúlega mörgum auðveldum mörkum úr hraðupphlaupum,“ sagði Hákon Daði eftir leik.

Seinni hálfleikur var bara formsatriði en hrósa verður Akureyringum fyrir góða baráttu í vonlausri stöðu. Markvörðurinn Tomas Olason kom sterkur inn í seinni hálfleiknum og frammistaðan er eitthvað sem norðanmenn geta byggt á fyrir næsta leik á laugardaginn.

Mikill getumunur

Þessi tvö lið eru sitt á hvorum staðnum í handboltanum. Haukavélin mallar áfram og það þarf eitthvað mikið að gerast til að meistararnir fari ekki áfram í næstu umferð. Akureyringar náðu sennilega aðalmarkmiði sínu með því að forðast fall og liðið virkar einfaldlega skrefi á eftir Haukum.

Það vakti athygli undirritaðs að stemningin í húsinu í gær var nánast eins og um æfingaleik væri að ræða. Skiptir þá nánast engu hvar er drepið niður, alls staðar var rólyndisbragur yfir öllu. Það var nánast eins og allir sem að leiknum komu hefðu vitað hvernig hann færi að lokum og spennustigið var í algjöru lágmarki. Það verður væntanlega bætt úr þessu á Akureyri á laugardaginn, sem gæti orðið síðasti leikur Akureyringa fyrir sumarfrí.

„Það var mjög erfitt að horfa upp á þetta í fyrri hálfleik og svo virtist sem spennustigið væri að fara með menn. Mér finnst þetta ofsalega leiðinlegt fyrir hönd strákanna, sem eru búnir að leggja mikið á sig og eiga að geta gert mikið betur,“ sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.

Haukar – Akureyri 33:24

Schenker-höllin, 8-liða úrslit karla, 1. leikur, fimmtudag 14. apríl 2016.

Gangur leiksins : 4:0, 9:3, 13:4, 17:5, 20:7 , 21:10, 24:10, 26:13, 28:18, 30:21, 33:24 .

Mörk Hauka : Hákon Daði Styrmisson 10/2, Adam Haukur Baumruk 9, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Elías Már Halldórsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 2, Janus Daði Smárason 2, Jón Þorbjörn Jóhannsson 2, Þröstur Þráinsson 2.

Varin skot : Giedrius Morkunas 16, Grétar Ari Guðjónsson 2.

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk Akureyrar : Bergvin Þór Gíslason 5, Andri Snær Stefánsson 4, Hörður Másson 4, Kristján Orri Jóhannsson 4, Róbert Sigurðarson 3, Halldór Logi Árnason 2, Friðrik Svavarsson 1, Sigþór Árni Heimisson 1.

Varin skot: Tomas Olason 13, Hreiðar Levý Guðmundsson 2/1.

Utan vallar: 10 mínútur.

Dómarar : Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Árni Björnsson.

Áhorfendur : 743.