[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Viðtal

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, les það út úr nýjustu skoðanakönnun Gallup, að hægra fylgi kjósenda Sjálfstæðisflokksins sé að skila sér heim í einhverjum mæli frá Framsóknarflokki, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG dragi vagninn, hvað varðar fylgisaukningu og að Píratar séu að missa fylgi, því fók sé farið að gera sér grein fyrir alvarleika málsins, ef þeir kæmust til valda.

„Mér þykir ljóst, að þegar þetta upplausnarástand blasti við í síðustu viku, bæði í þinginu og fyrir utan það, hafi farið hrollur um þá sem eru íhaldssamari í þjóðfélaginu,“ sagði Stefanía í samtali við Morgunblaðið í gær.

Leiddi Borgarahreyfinguna

„Kannski rifjaðist það líka upp fyrir mörgum, að Birgitta Jónsdóttir leiddi áður Borgarahreyfinguna. Ég held að enginn hafi átt von á því að Píratar myndu uppskera jafn mikið í kosningum og þeir hafa verið að fá í skoðanakönnunum. Miklu frekar að fólk hafi viljað geyma atkvæði sitt hjá þeim á miðju kjörtímabili, til þess að lýsa því yfir að það hefði ákveðinn fyrirvara gagnvart gömlu flokkunum,“ sagði Stefanía.

Hún segir að í síðustu viku hafi MMR könnun sýnt að fylgi Pírata væri aðeins að dala og Gallup-könnunin frá í fyrradag sýni að þeir séu komnir niður fyrir 30% fylgi í fyrsta skipti í heilt ár.

Aðspurð hverja hún teldi skýringuna á því að Sjálfstæðisflokkurinn og VG juku fylgi sitt í Gallupkönnuninni sagði Stefánía: „Fólk í landinu sem er hægra megin við miðju átti áður fyrr bara þann kost að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn saxaði á fylgi Sjálfstæðisflokks í síðustu kosningum og þá kusu margir, sem skilgreina sig sem hægra fólk, Framsóknarflokkinn. Nú hrynur hann og þá getur maður búist við því að ákveðinn hluti þeirra sem kusu flokkinn síðast séu að skila sér heim til Sjálfstæðisflokksins, alla vega að það séu vísbendingar um það.

Katrín Jakobsdóttir nýtur mikils persónulegs fylgis, sem sýndi sig ekki síst í því að hún naut mikils stuðnings til þess að bjóða sig fram til forseta. Stuðningurinn við hana persónulega held ég að sé að hífa upp fylgi VG.“

Sanfylkingin í „tómu tjóni“

Stefanía bendir á að Samfylkingin hafi verið í „tómu tjóni“ undanfarið ár og virðist lítið sem ekkert vera að rétta úr kútnum. Sem hafi sýnt sig þegar krafa kom fram um formannsskipti. Ella myndi flokkurinn ekki lifa fram á haust.

Spilaði ágætlega úr spilunum

„Sjálfstæðisflokkurinn er valkostur fyrir hægra fólk, sem óttast óreiðu. Fólk er að gera sér grein fyrir því á ný. Mér sýnist að niðurstaðan í könnuninni sýni að Bjarni Benediktsson hafi spilað ágætlega úr þeim spilum sem hann hefur haft á hendi síðustu 10 daga og hann sem formaður hafi styrkt sig í sessi, án þess að ég lýsi því yfir að þetta sé einhver persónulegur stórsigur hans,“ sagði Stefanía.

„Maður sá það glöggt í síðustu viku að það fór um suma, sem hugsuðu með sér, guð minn góður, ef Píratar fara að leiða landið og Birgitta verður forsætisráðherra, hvað þá? Fólk hafi þá verið farið að gera sér grein fyrir alvarleika málsins,“ sagði Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild HÍ, að lokum.