Ratsjárstöð á Bolafjalli 150 varnartengd mannvirki eru á öryggissvæðum hér á landi. Þar af eru tæplega 90 í eigu mannvirkjasjóðs NATO.
Ratsjárstöð á Bolafjalli 150 varnartengd mannvirki eru á öryggissvæðum hér á landi. Þar af eru tæplega 90 í eigu mannvirkjasjóðs NATO. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Það markar tímamót í öryggismálum þjóðarinnar að Alþingi hefur nú samþykkt mótatkvæðalaust og í fyrsta skipti í sögu þess, sérstaka stefnu um þjóðaröryggi landsins.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Það markar tímamót í öryggismálum þjóðarinnar að Alþingi hefur nú samþykkt mótatkvæðalaust og í fyrsta skipti í sögu þess, sérstaka stefnu um þjóðaröryggi landsins. Markmið þjóðaröryggisstefnunnar er að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.

Margra ára vinna býr að baki við mótun þessarar stefnu en hún byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót árið 2011. Þá hefur utanríkismálanefnd fundað mikið um stefnuna og lagði hún til breytingar og viðbætur m.a. um að tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum og fæðu- og matvælaöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum s.s. hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi.

Sex þingmenn VG sátu hjá

Tillögur nefndarinnar voru allar samþykktar á Alþingi í fyrradag sem hluti af þjóðaröryggisstefnunni við lokaafgreiðslu hennar á þinginu. Þjóðaröryggisstefnan var samþykkt mótatkvæðalaust með 46 atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum nema Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, þeir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Einn þeirra, Ögmundur Jónasson, var fjarverandi. Steinunn Þóra Árnadóttir, fulltrúi Vg í utanríkismálanefnd, gerði grein fyrir afstöðu þingmanna flokksins við atkvæðagreiðsluna. Sagði hún þá styðja þær góðu breytingartillögur sem utanríkismálefnd lagði fram. „Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur þó frá upphafi vinnu að þjóðaröryggisstefnu haldið þeirri stefnu hreyfingarinnar til haga, að við teljum öryggi Íslands best borgið utan allra hernaðarbandalaga og að varnarsamningnum við Bandaríkin verði sagt upp. Hreyfingin getur því ekki stutt ákvæði í þjóðaröryggisstefnu sem ganga í aðra átt en það og af þeim sökum munum við sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins,“ sagði hún.

Þjóðaröryggisstefnan er sett fram í nokkrum töluliðum og henni fylgir mjög ítarleg greinargerð. Þar er áhersla lögð á að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði og að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum landsins.

Varnarsamningurinn tryggi áfram varnir landsins

„Að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir eru ríkir,“ segir í þriðja lið stefnunnar. Efla á og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála svo dæmi séu nefnd úr stefnunni. Þá á að tryggja skv. henni að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Jafnframt er áhersla lögð á að stefna í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu.