Elísabet Ingibjörg Jóhanna Guðmundsdóttir, Elsa, fæddist á Munaðarnesi, Árneshreppi, 18. september 1936. Hún lést 7. apríl 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Guðbrandsson, f. 5. apríl 1909, frá Veiðileysu, d. 9. ágúst 2003, og Elísabet Guðmundsdóttir, f. 5. apríl 1906, frá Munaðarnesi, d. 11. mars 1989. Albróðir Elísabetar var Guðlaugur Ingi Guðbrandur, f. 16. maí 1935, d. 7. ágúst 1935. Uppeldissystir hennar er Guðrún Marta Guðríður Guðlaugsdóttir, f. 11. september 1947.

Þann 28. desember 1956 giftist Elísabet eftirlifandi eiginmanni sínum Maríasi Hjálmari Björnssyni, Dalla, frá Ísafirði, f. 26. ágúst 1934. Foreldrar hans voru Björn Ragnar Hjálmarsson, f. 9. júlí 1906, og Guðmunda Ólöf Rósmundsdóttir, f. 9. júní 1907.

Elsa og Dalli eignuðust fimm börn og eru þau: 1) Ragnar Elías, f. 1957, maki Theódóra Gústafsdóttir. Börn: Ásthildur Ósk, Guðmundur Arnar og Erna Sigríður. 2) Guðmunda, f. 1960, maki Guðmundur Guðmundsson. Börn: Kolbrún Hlíf, Marías Hjálmar og Magnús Geir. 3) Vignir Smári, f. 1965, maki María Páley Gestsdóttir. Börn Aðalgeir Gestur, Hrannar Már og Elísabet Páley. 4) Einar Indriði, f. 1967, maki Inga Lilja Guðjónsdóttir. Börn: Elísa Valdís, Guðjón Snær, Sóley Rún og Hlynur Örn. 5) Guðlaugur Ingi, f. 1970, maki Drífa Gústafsdóttir. Börn: Guðmundur Freyr, Elsa María, Arnaldur Ægir, Eiður Andri og Eydís Glóð. Barnabarnabörn eru 12.

Elísabet verður jarðsungin frá Akraneskirkju í dag, 15. apríl 2016, klukkan 13.

Elsku amma, þín verður sárt saknað og erfitt verður að fylla í það skarð. En minningarnar um þig eru mér svo dýrmætar og munu þær hlýja mér um ókomna tíð. Við eyddum mörgum stundum saman en dýrmætustu stundirnar í minningu minni eru þær sem við áttum saman á vorin í sauðburðinum. Spennan og tilhlökkunin var alltaf svo mikil að komast norður til ykkar að oftar en ekki var ég illa sofin áður en ég kom, slík var spennan. Mér leiddist aldrei hjá þér í sveitinni og þú furðaðir þig oft á því hvað ég gat verið lengi alein með ykkur gamla fólkinu eins og þú orðaðir það. En ég var svo mikil sveitakona í mér og hefði getað verið í fjárhúsinu allan sólarhringinn ef ég hefði mátt ráða. Ég tók alltaf fyrstu vaktina með þér á nóttunni í fjárhúsinu og fór svo inn að sofa. Þegar ég vaknaði á morgnana og einhver kind hafði borið á meðan ég svaf var ég rokin út að skoða á lömbin. Þú glottir alltaf og hafðir gaman af hversu mikinn áhuga ég hafði á kindunum og hversu vel ég þekkti þær í sundur. Þú sagðir að allar hvítar kindur litu eins út en ég var þér alls ekki sammála, þær eru jafn ólíkar og við mennirnir og við hlógum oft þegar við ræddum þessi mál.

Ég elskaði að fara með þér í kaupfélagið og skemmtum við okkur alltaf vel saman tvær, við sungum alltaf í hverri bílferð og alltaf voru það sömu lögin, Ég langömmu á og Sigurður var sjómaður. Já, við eigum svo sannarlega hafsjó af sæluminningum saman og gæti ég setið hér og skrifað heila bók.

Í veikindum þínum ræddum við mikið saman og rifjuðum upp ótal minningar, og ég veit að þér þótti jafnvænt um þessar stundir og mér. Þú sagðir mér að þér hefði aldrei fundist sauðburðurinn geta hafist fyrir alvöru fyrr en ég var komin og eru þessi orð mér svo dýrmæt og mun ég aldrei gleyma því hvernig þú sagðir það með svo mikilli hlýju og væntumþykju.

Takk, elsku amma, fyrir allar yndislegu stundirnar okkar saman. Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa kynnst þér og eytt svo miklum tíma með þér. Ég lít endalaust upp til þín og ert þú ein af mínum fyrirmyndum í lífinu. Þú varst svo ljúf, hlý og hafðir mikið jafnaðargeð og ómælda þolinmæði.

Takk fyrir allt.

Þín

Kolbrún (Kolla).

Til ömmu.

Amma mín björt og blíð

strýkur barnsins vanga.

Í hug og hjarta alla tíð

hreinan kærleik fanga.

Eydís Glóð Guðlaugsdóttir

Elsku amma mín er farin og orð fá ekki lýst sorginni sem hellist yfir mig á þessari stundu, amma mín sem var vænst og best, og öllum þótti ósjálfrátt vænt um þessa hjartahlýju konu sem ljómaði af gæsku og gleði.

Það eru svo margar minningar sem sækja á mig á þessari stundu, minningar sem ylja og veita huggun.

Minningar um sumardvöl hjá ömmu og afa á Felli og þær mörgu og góðu stundir sem við hjónin áttum með þeim eftir að við fluttum hingað á Akranes, ung og nýgift.

Amma mín var mikil handavinnukona og ófá meistarastykkin sem hún hefur töfrað fram í gegnum árin. Það virtist ekki skipta neinu máli hvað hún tók sér fyrir hendur, það lék allt í höndunum á henni, saumaskapur, prjónaskapur, bútasaumur og útskurður í tré.

Ég man hversu þolinmóð amma var þegar hún reyndi að kenna mér að prjóna, þegar ég sat og bölvaði yfir prjónunum en amma sat hjá og hló í hljóði yfir óþolinmæði minni og því hversu fast ég prjónaði í byrjun, ég man að henni varð það að orði að þessi pottaleppur yrði örugglega skotheldur svo fast var hann prjónaður.

Ég man eftir álfasteininum í sveitinni, mikið var ég viss um að það væru álfar sem fylltu holuna undir honum af krukkum og gersemum. Ég man eftir ófáum bílferðum sem við amma og Kolla frænka fórum í þar sem sungin voru hástöfum lögin um Sigurð sjómann og langömmuna, ferðir á milli bæja þegar hringt var eftir hjálp ef ær átti erfitt með burð og hversu stolt ég var af ömmu minni og hennar stóísku ró þegar burður gekk illa.

Amma mín var ein sú besta kona sem ég hef kynnst og er ég henni þakklátari en orð fá lýst fyrir það sem hún hefur kennt mér og gefið með návist sinni.

Elsku amma mín, ég hveð þig með þessu ljóði sem mér finnst lýsa hug mínum hvað best á þessari stundu.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku amma mín, hafðu hjartans þökk fyrir allt.

Hinsta kveðja,

Hilda, Elías og börn.