Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
Eftir Einar Benediktsson: "Sú skylda verður að komast á, að eigendaskrár aflandsfélaga séu birtar, svo og reikningsuppgjör þeirra."

Ekki vantaði spárnar um skamma lífdaga nýrrar ríkisstjórnar eftir hina stórdramatísku atburði vikunnar, sem marka þáttaskil í stjórnmálasögu okkar. Með fjölmennum, háværum útifundum á Austurvelli, stöðugum sjónvarpsútsendingum og snörpum, rafrænum skoðanakönnunum, má segja að komið hafi verið á hraðframkvæmd þingbundins lýðræðis; svo sem mál þróuðust lét landslýður jafnharðan í ljósi við þingkjörna fulltrúa sitt álit, reyndar aðallega vandlætingu. Og skyndilega varð Ísland fyrirmynd breskra mótmælenda, sem heimta afsögn Davids Cameron af sömu ástæðum og var með Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Lögmannsskrifsofan Mossack Fonseca á bresku Jómfrúaeynni Tortola, nú heimsfræg, hefur verið fáum kunn fram til lekans á þeim þúsundum milljóna tölvupóstsendinga og skjala um viðskiptavinina, sem nú eru til rannsókna. Og þar koma Íslendingar við sögu. Eins og Morgunblaðið hefur kynnt ítarlega, er það á engan hátt brot á íslenskum lögum að lögaðilar eigi inneignir eða félög í skattaskjólum. Þetta er háð því að skattskyldu sé gætt heima og Ríkisskattstjóra ber að fylgjast með. En vandinn er sá, að upplýsingar fást ekki úr skattaskjólunum né heldur um eignarhald félaga undir dulnefnum.

Eftir nýafstaðna ráðstefnu OECD blása vindar vonandi byrlega um að heimsbyggðin ráðist gegn þessum vanda. Sú skylda verður að komast á, að eigendaskrár aflandsfélaga séu birtar svo og reikningsuppgjör þeirra. Viðeigandi breytingar á íslenskri löggjöf eru nauðsynlegar en ekki síður að Ísland láti að sér kveða á aþjóðavettvangi. OECD á að fjalla um þessi mál, enda þegar með þann árangur að hafa stöðvað spillingu svissneskra banka á þessu sviði.

Sé um það samstaða og skilningur hjá þjóðinni, getum við væntanlega búið okkar hag samfara auknu öruggi. En það krefst breytinga. Við erum örsmá þjóð og okkar sveiflukennda hagkerfi stendur ekki undir eigin gjaldmiðli. Afnám gjaldeyrishafta með krónu fljótandi gengis er fræðilegur möguleiki við mikla festu og aga í fjármálum hins opinbera og peningastefnu. En það er einmitt þetta sem ekki hefur lánast í langri sorgarsögu íslensku krónunnar. Sífelldar gengisfellingar og óheft verðbólga er okkar reynsla, hvað sem líður getu Norðmanna til gengisfellinga til að mæta lækkun olíverðs. Þjóðarbú Noregs, tuttugufalt stærra og með norska olíusjóðinn upp á $ 800 milljarða að bakhjalli, er ekki til samanburðar við Ísland.

Við Evrópusamvinnunni blasir hugsanleg úrsögn Breta úr ESB – Brexit. Hvort sem svo verður eða ekki, þurfa Íslendingar að horfa beint til eigin hagsmuna varðandi evrusvæðið. Spyrja mætti af hverju það kemur ekki til mála hjá Finnum eða Eistum að segja sig frá evrunni? Gæti það ekki verið til tryggingar stöðugleika og því, að hrægammasjóðir gleypi ekki hagkerfin, eins og gæti orðið aftur, stæðum við enn aleinir á beru svæði? Sveigjanleiki með minnstu sjálfstæðu mynt heims hefur reynst dýrkeypt hagræði.

En lokaorðin eru að nú blasa við hættur en jafnframt tækifæri ef við sýnum getu og vilja. En það krefst pólitískrar samstöðu og stillingar í stað bumbusláttar hvers kyns. Það er komið nóg af tilfinnaþrungnum ræðum okkar þingkjörnu fulltrúa, aðallega hvers um annan.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.

Höf.: Einar Benediktsson