Eva Dögg og Bjarni á brúðkaupsdaginn.
Eva Dögg og Bjarni á brúðkaupsdaginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það kom í raun ekkert annað til greina en að gifta sig öllum að óvörum í Las Vegas.

„Það kom í raun ekkert annað til greina en að gifta sig öllum að óvörum í Las Vegas. Okkur langaði hvorugt í hefðbundið kirkjubrúðkaup og ekki vildum við fara til Sýslumanns þannig að það var annaðhvort Vegas eða bara að halda áfram að búa í óvígðri sambúð,“ segir Eva Dögg Sigurgeirsdóttir , framkvæmdastjóri Tíska Reykjavík, aðspurð hvers vegna hún og eiginmaður hennar, Bjarni Ákason , völdu að gifta sig í Las Vegas þann 10. janúar. Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

Við höfðum oft grínast með það í gegnum tíðina að ef við myndum gifta okkur þá yrði það í Las Vegas.“

Vinir þeirra Evu og Bjarna, Sigurður Hlöðversson og Þorbjörg Sigurðardóttir,

eða Obbý eins og hún er kölluð, fóru með þeim í ferðina til Las Vegas. „Þau hafa verið dyggir stuðningsmenn þess að við gengjum í hjónaband og í raun var þetta orðið mikið grín. Jólakortin frá þeim voru til dæmis með útprentuðu bréfi með hjúskaparlögunum og svona mætti lengi telja. Þessir vinir okkar þekkja Las Vegas vel og voru einmitt á leið í frí til USA á sama tíma og maðurinn minn var á leið á vinnusýningu í Las Vegas. Þannig að í einu matarboðinu var þetta bara slegið og við vorum öll á leið til Las Vegas. Vinir okkar undirbjuggu þetta allt saman frábærlega og hjálpuðu okkur með ferlið en það þarf að gera ýmsar ráðstafanir áður en maður framkvæmir svona,“ útskýrir Eva Dögg. Hún segir þetta vera eina skemmtilegustu ferð sem hún hefur farið í.

Eva kveðst ekki hafa verið búin að spá í kjól né skó áður en hún fór út. „En var þó búin að bóka hár og förðun á hótelinu. Við höfðum einn heilan dag fyrir brúðkaupið sem fór í það að kaupa fötin á okkur bæði. Þetta gekk alveg ótrúlega vel, Bjarni fann súperflott föt og ég datt niður á geggjaðan kjól en við skiptum auðvitað liði þannig að hann var ekki búinn að sjá kjólinn fyrr en á brúðkaupsdaginn,“ segir Eva Dögg sem gifti sig í svörtum og gylltum kjól.

„Það kom ekki til greina hjá mér að vera í hvítu enda þegar fólk gerir þetta í seinna hollinu þá á þetta bara að vera gaman og maður á að vera nákvæmlega eins og maður fílar sig. Ég er ótrúlega mikil gullkona og elska allt gyllt þannig að ég kolféll fyrir svörtum kjól með gylltri blúndu. Það eina sem minnti á brúðarkjól var í raun að hann var með smá slóða þannig að hann steinlá. Ég valdi síðan sandala með hæl frá Steve Madden sem ég veit að ég get notað í sumar. Þessi kjóll kostaði bara brot af því sem kostar að leigja kjól á Íslandi þannig að sjálfsögðu splæsti ég í annan skósíðan pallíettukjól sem var notaður um kvöldið.“ Eva Dögg segir ekki hægt að líkja því saman að kaupa kjóla í Bandaríkjunum annars vegar og á Íslandi hins vegar. „Verðið er svo miklu lægra úti og úrvalið auðvitað meira. Ameríka á líka orðið svo ótrúlega flotta hönnuði og er til dæmis Ralph Lauren í algjöru uppáhaldi hjá mér þessa dagana.“

Eva Dögg splæsti svo í aðhaldsundirföt sem gerðu gæfumun. „Ég fann Spanx-verslun sem sérhæfis sig í undirfötum og fatnaði með aðhaldi. Þessi föt frá Spanx eru mjög flott og gera raunverulega sitt gagn,“ segir Eva sem hingað til hefur ekki verið sérstaklega hrifin af aðhaldsundirfötum. „Það sem mér hefur þótt leiðinlegt er hvað aðhaldsföt eru yfirleitt ótrúlega púkaleg og gera mann oft bara verri.“

Fékk Dallas-hár frá „rúmlega miðaldra“ hárgreiðslumanni

Eva Dögg segir stóra daginn hafa verið dásamlegan í alla staði. Þau byrjuðu á að fá sér brunch og því næst skellti Eva sér í hár og förðun á hótelinu. „Við gistum á geggjuðu hóteli og snyrtistofan og spa-ið á hótelinu eru heimsfræg. Gaman að segja frá því að þarna rakst ég á íslensku snyrtivörurnar frá Bioeffect en þær voru þarna til sölu ásamt Tom Ford og fleiri góðum merkjum. En málið er að hárgreiðlsumeistarinn, sem var rúmlega miðaldra, blés á mér hárið og krullaði lítillega svona upp á ameríska mátann. Ég leit rosalega vel út í korter, en minnti þó pínu á skvísurnar í Dallas á góðum degi, en þegar ég kom niður í lobbý aftur þá var í raun hárið fallið og krullurnar orðnar að þreyttum liðum. Sem betur fer hafði ég tekið með mér krullujárn og var vel búin af hárlakki og kraftaverkaefnum þannig að ég hentist upp á herbergi og krullaði hárið með hjálp vinkonu minnar. Förðunin heppnaðist nokkuð,“ útskýrir Eva sem er vön því að láta farða sig og veit hvað hún vill. „Ég átt auðvelt með að segja henni til og svo bara lagaði maður þetta aðeins. Annars var ég svo sniðug að ég henti mér í brúnku rétt áður en ég fór út, bara það að vera með smá lit á líkamanum gerir það að verkum að maður lítur strax betur út.“

Eva og Bjarni létu engan vita af brúðkaupinu nema Sigurð og Obbý, sem komu með þeim út. „En við hringdum í okkar nánustu sama dag og brúðkaupið var, við lofuðum að halda brúðkaupspartý í sumar. Núna erum við að skipuleggja skemmtilegt partý og við ætlum að bjóða nánustu vinum okkar og ættingjum til að samgleðjast með okkur yfir lífinu. Þar fá börnin okkar líka tækifæri til að upplifa þetta með okkur.“