El Mundo , næststærsta blað Spánar, sem velur sér hið hæverska nafn Heimurinn, skellti mynd af leikmönnum Atlético Madrid að fagna marki á forsíðu sína í gær.
El Mundo , næststærsta blað Spánar, sem velur sér hið hæverska nafn Heimurinn, skellti mynd af leikmönnum Atlético Madrid að fagna marki á forsíðu sína í gær. Ef til vill full ástæða til þar sem Evrópumeistararnir í Barcelona höfðu verið slegnir út úr Meistaradeildinni í fótbolta. Auk þess af öðru spænsku liði.

Ekki er langt síðan Madridarliðin spiluðu til úrslita í þessari keppni. Einungis tvö ár. Aftur eru þau á meðal þeirra síðustu fjögurra. Er það býsna magnað.

Afar erfitt reynist að verja titil sinn í þessari keppni. Er það svo sem ósköp eðlilegt. Þegar öll Evrópa er undir þá á samkeppnin að vera hörð. Sparkspekingar hafa þó tilhneigingu til að reyna að einfalda hlutina. Þegar Bayern München sigraði í keppninni fyrir tveimur árum átti það að vera liðið sem þyrfti að ryðja úr vegi næstu árin. Fyrir tveimur árum átti Real að vera besta liðið næstu árin og fyrir tæpu ári sögðust menn ekki sjá að hægt væri að ýta Barcelona til hliðar. Sem betur fer er ekki svo auðvelt að spá um niðurstöðu í fótboltanum.

En ætli menn hafi tekið með í reikninginn hvaða áhrif það hafði fyrir Barcelona að Xavi yfirgaf félagið? Ef um væri að ræða Football Manager þá myndi slíkt skipta litlu máli þar sem hann er farinn að eldast. En í íþróttum raunveruleikans skiptir máli þegar leiðtoginn síðasta áratuginn flytur í burtu. Jafnvel þótt erfitt sé að setja fingurinn á það.

Einhvern tíma mun koma að því að vopnabróðir hans, Andrés Iniesta, mun einnig láta staðar numið. Þá munu menn átta sig betur á því hversu einstakir þessir leikmenn voru og hvers virði þeir voru fyrir Barca.