Það getur reynst hjálplegt fyrir pör í vanda að ræða saman undir leiðsögn sérfræðings.
Það getur reynst hjálplegt fyrir pör í vanda að ræða saman undir leiðsögn sérfræðings. — Getty Images/iStockphoto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónabands- og pararáðgjöf er stór partur af starfi Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings að hennar sögn. Kolbrún tekur á fjölbreyttum og misalvarlegum vandamálum með skjólstæðingum sínum.

Hjónabands- og pararáðgjöf er stór partur af starfi Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings að hennar sögn. Kolbrún tekur á fjölbreyttum og misalvarlegum vandamálum með skjólstæðingum sínum. Kolbrún segir þau pör og hjón sem leita til hennar geta grætt að jafnaði mikið á því að fá ráðgjöf frá þriðja aðila þar sem rótar vandans er leitað. Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

Það er mikil fjölbreytni í hver vandinn er, stundum eru árekstrar vegna mismunandi væntinga, gildismats og persónuleikaþátta sem rekast illa saman. Stundum eru um trúnaðarbrest, tortryggni og vantraust að ræða sem alloft á rætur að rekja til framhjáhalds eða tilfinningalegra samskipta annars aðila við aðra manneskju að ræða. Valdabarátta; barist um síðasta orðið, hver hefur rétt fyrir sér, gagnkvæmar ásakanir eru líka algengt vandamál. Geðræn vandamál, s.s. þunglyndi og kvíði sem farið er að hafa áhrif á fjölskylduna getur líka haft sitt að segja. Í sumum tilfellum eru aðilar mikið að þrasa, rífast um allt og ekkert og virðast vera staddir á einhverjum óskilgreindum stríðsvettvangi en muna svo ekki endilega hvað var verið að rífast um,“ útskýrir Kolbrún. Hún segir að í þeim samböndum þar sem vandamál á borð við valdabaráttu eru til staðar snemma í sambandinu sé líklegt að vandamálið verði enn til staðar í framtíðinni ef ekki er tekið á málunum. Og stundum er vandamálið jafnvel það sem fólki þótti mest heillandi við makann í upphafi. „Þá hefur það þróast út í að verða það sem pirrar hinn aðilann mest og verður síðar stærsti „gallinn“. Pörin sem eru hætt að tala saman lýsa því einnig oft að fyrst í sambandinu hafi þau getað talað endalaust saman en svo hafi samskiptavandi með tilheyrandi vansæld og svekkelsi leitt þau smám saman inn í þögn eða fýlu.“ Það má því með sanni segja að Kolbrún þekki hin ýmsu vandamál.

En sem betur fer nær Kolbrún gjarnan góðum árangri með þeim pörum og hjónum sem til hennar leita. „Ef enn er góður grunnur til að byggja á og fólk vill laga þessa hluti, þá gengur yfirleitt vel. En það þarf tvo til. Ef annar aðilinn er búinn að missa áhugann mun meira en hinn getur vandi verið á höndum, stundum hefur annar aðilinn ákveðið að yfirgefa sambandið en vill fara milda leið að því (fara í ráðgjöf) og vill kannski innst inni gefa þessu lokaséns. Jafnvel þótt annar aðilinn hafi ákveðið að yfirgefa sambandi þá er, með því að leita til fagaðila hægt að segja að allt hafi verið reynt. Oft skiptir mánuður eða jafnvel mánuðir til eða frá ekki máli þegar kemur að því að taka endanlega ákvörðun um að enda hjónaband.“

Rót vandans leitað

Fyrsta skrefið í átt að bættu sambandi er að leita að rót vandans að sögn Kolbrúnar. Ég byrja á að skoða á hvaða forsendum þessir aðilar byrjuðu saman og á hvernig grunni sambandið er byggt? Stundum segir fólk að hjónabandið hafi meira svona „atvikast“, eitt leitt af öðru og að eðlilegt framhald hafi verið hjónaband. En í öðrum tilfellum segir fólk að grunnurinn sé byggður á mikilli hrifningu og ást og að haldið hafi verið út í hjónabandið með sterka vissu og væntingar um að þetta væri eins skothelt og það gæti orðið miðað við að enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Flestir fara vissulega í hjónaband með væntingar til þess að það lifi í gegnum súrt og sætt. Dæmi eru þó um að fólk segi eftir á að það hafi skynjað að þetta myndi ekki ganga vel eða lengi en samt ákveðið að fljóta með í þeirri von að betri tíð væri framundan og að hlutirnir myndu breytast til batnaðar.“ Kolbrún segir einnig nokkuð algengt að hjón segi að þau hafi einfaldlega látið pússa sig saman til að tryggja erfðaréttindi.

Að sögn Kolbrúnar þurfa þau pör sem leita til hennar að ganga í gegnum ákveðið ferli til að ná árangri. „Í upphafi þarf að skilgreina vandann vel, átta sig á hvers eðlis hann er og hvert umfang hans er. Svo þarf að kanna hvaða tilfinningar og væntingar eru tengdar við aðstoð fagaðila. Báðir aðilar tjá sig um hvað þeim finnst jákvætt í sambandinu og hvað þeim finnst að þurfi að laga. Kanna þarf hvort aðilar vilja fara í að byggja upp, laga og líma sambandið eða hvort öðrum aðilanum eða jafnvel báðum finnist sambandið hreinlega hafa runnið sitt skeið. Þá er fólk kannski frekar að leita eftir skilnaðarráðgjöf. Oft er fólk alls ekki visst hvað það vill, sveiflast til og óttast eiginlega bæði að halda áfram og skilja. Í ráðgjöfinni er þetta allt skoðað vandlega.“

„Tortryggni er eins og eitur“

Eins ólík og málin geta verið sem Kolbrún tekur að sér þá leggur hún ávallt áherslu á að fólk reyni ekki að breyta maka sínum algjörlega enda sé slíkt einfaldlega ekki raunhæft. „En vissulega er alveg hægt að gera breytingar á hugsunum, viðhorfum og hegðun hafi fólk innsæi í það, sveigjanleika og löngun. Oft vill fólk leggja mikið á sig til að bæta sambandið þegar komið er inn á gólf sálfræðings. Fyrir fagaðilann er að finna út hvað aðilar vilja gera og hvort það er samhugur um að laga hlutina. Í vinnslunni felst að auka innsæi, hjálpa aðilum að finna hvað skiptir þá máli þegar upp er staðið. Greina þarf hvort um er að ræða einhvern einn grunnvanda sem leitt hefur til ýmiss konar fylgivanda eða hvort sambandið er komið í einhvern vítahring sem finna þarf leið til að klippa á og svo framvegis. Í ferlinu eru gerðar áætlanir og fólk fær verkefni. Öll úrræði vinnast í samráði við parið enda vinnan þeirra þegar heim er komið,“ útskýrir Kolbrún. Hún tekur fram að fólk sé misopið og oft finnst „lokuðum“ einstaklingum betra að tjá sig þegar utanaðkomandi og hlutlaus aðili er til staðar.

Þau mál sem koma upp á borð Kolbrúnar eru vissulega misalvarleg og -djúpstæð. „Erfiðustu málin eru þau þegar orðið hefur trúnaðarbrot milli para, annaðhvort vegna framhjáhalds eða annar aðilinn hefur verið í tilfinningalegu skriflegu sambandi við einhvern annan, hvort sem hann/hún hafi hitt þann aðila. Eftir að Facebook kom til sögunnar hefur þessum málum fjölgað. Í þessum tilfellum er fótum trausts oft kippt undan þeim sem upplifir að hann hafi verið svikinn eða óttast að hann sé um það bil að verða svikinn. Þegar tortryggni og vantraust hefur sáð sér getur verið afar erfitt að ná aftur fyrri stað í sambandinu. Tortryggni er eins og eitur sem býr um sig í iðrunum og skýtur upp kollinum við hið minnsta áreiti. Minning um trúnaðarbrot er iðulega geymd en ekki gleymd.“

Hversu vel þekkir þú maka þinn?

Kolbrún mælir með að allir þeir sem eru á leiðinni í hjónaband spyrji sjálfa sig nokkurra spurninga áður en látið er til skara skríða. „Ágætt er að spyrja sig hvort og hversu mikið maður þekkir þann sem maður er að fara að giftast. Ríkir traust, virðing, samheldni og gagnkvæmur skilningur? Geta aðilar báðir átt sitt einstaklingslíf og fjölskyldulíf án þess að eiga von á gagnrýni, óheiðarleika eða óeðlilegum höftum? Ákvarðanir sem varða alla fjölskylduna, svo sem þær sem hafa með að gera fjármál, búsetu, börn og annað grundvallarskipulag fjölskyldunnar, verður að vera hægt að taka í sameiningu.“

Góð samskipti eru númer eitt, tvö og þrjú að mati Kolbrúnar. „Því meira gegnsæi, opin samskipti, hreinskilni og einlægni sem ríkir í sambandinu því meiri líkur eru á að það verði farsælt. Lífsstíll beggja þarf einnig að eiga saman og fólk þarf að geta talað saman, skilið hvað annað, hlustað á hvað annað og sett sig í spor hvað annars ef sambandið á að verða farsælt fyrir báða aðila. Gott hjónaband einkennist ekki bara af því að vera rekið eins og gott fyrirtæki heldur að aðilar hlakki til að koma heim, hlakki til að hittast og vera saman og langi í nánd og samveru við hvor annan,“ segir Kolbrún að lokum. Hún heldur úti vefsíðunni www.kolbrunbaldurs.is, þar er hægt að nálgast nánari upplýsingar um þá þjónustu sem hún býður upp á.