Útvarpsmaður Eyjólfur Kristjánsson hefur verið áberandi sem tónlistarmaður um langt árabil. Nú er hann í nýju hlutverki sem þáttastjórnandi.
Útvarpsmaður Eyjólfur Kristjánsson hefur verið áberandi sem tónlistarmaður um langt árabil. Nú er hann í nýju hlutverki sem þáttastjórnandi. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Söngvarinn Eyjólfur Kristjánsson er nú með útvarpsþætti á Hringbraut. Íslensk lög frá öllum tímum eru í öndvegi og sum heyrast sjaldan. Þá verða þeir Stefán Hilmarsson með Nínutónleika innan tíðar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Lögin, sem ég spila eru frá öllum áratugum íslenskrar dægurtónlistar. Bæði gamalt og svo það nýjasta, til dæmis með Diktu, Himbrima, Amabadama, Valdimari og Jóhönnu Guðrúnu svo eitthvað sé tiltekið,“ segir Eyjólfur Kristjánsson tónlistarmaður. Hann er umsjónarmaður þáttarins Morgunstund með Eyfa á útvarpsstöðinni Hringbraut, sem fór í loftið í janúar síðastliðnum. Sent er út á tíðninni FM 89,1 og á hringbraut.is. Þáttur Eyjólfs er á dagskrá alla virka morgna milli kl. 9.00 og 11.00, hvar eingöngu eru leikin lög með íslenskum flytjendum.

Eyjólfur Kristjánsson er einn af vinsælli tónlistarmönnum landsins, en hann skóp sér nafn sem söngvari og lagahöfundur á fyrstu árum Eurovision-keppninnar fyrir um 30 árum. Það hefur svo oft gerst í tímans rás að margir tónlistarmenn hafa verið með þætti í útvarpi.

Að ná til hlustenda

„Ég var með þætti á Bylgjunni fyrir mörgum árum. Tæknin er gjörbreytt síðan þá, en þetta snýst þó sem fyrr alltaf um að ná til hlustenda,“ segir Eyjólfur.

Það var ákvörðun Eyjólfs og Guðmundar Arnar Jóhannssonar framkvæmdastjóra Hringbrautar að í þættinum yrði íslenskt efni. „Þessi gömlu lög sem svo margir kunna standa alltaf fyrir sínu, þó þau séu sáralítið leikin í útvarpi. Í morgun spilaði ég lög með Hljómsveit Ingimars Eydal, Mjöll Hólm, Pónik og Einari, Þuríði Sigurðardóttur, Stuðmönnum og fleirum. Það má jafnvel segja að þetta sé afturhvarf til gömlu óskalagaþáttanna,“ segir Eyjólfur.

Tónlistin hefur breyst

„Íslensk dægurtónlist hefur að vissu leyti breyst nokkuð á undanförnum árum. Í dag heyrist minna af lögum, sem eru með þessari grípandi melódíu, sem allir læra á svipstundu og syngja með. Sumir höfundar eru beinlínis smeykir við að semja slík lög. Finnst þau vera klisja. En þannig lög standa samt alltaf fyrir sínu,“ segir Eyjólfur, sem samdi hið geysivinsæla lag Draumur um Nínu. Lagið, sem þeir Stefán Hilmarsson sungu og var framlag Íslands í Eurovision árið 1991. Síðan er liðinn aldarfjórðungur og þau tímamót ætla þeir félagar að halda upp á með tónleikum í Salnum í Kópavogi í byrjun maí.