Sigur Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool faðmar króatíska miðvörðinn Dejan Lovren sem skoraði sigurmark liðsins í uppbótartíma.
Sigur Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool faðmar króatíska miðvörðinn Dejan Lovren sem skoraði sigurmark liðsins í uppbótartíma. — AFP
Margir stuðningsmenn Liverpool minntust „kraftaverksins í Istanbúl“ frá árinu 2005 í gærkvöld þegar lið þeirra vann ótrúlegan sigur á þýska liðinu Dortmund á Anfield, 4:3, og tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.

Margir stuðningsmenn Liverpool minntust „kraftaverksins í Istanbúl“ frá árinu 2005 í gærkvöld þegar lið þeirra vann ótrúlegan sigur á þýska liðinu Dortmund á Anfield, 4:3, og tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.

Umrætt kraftaverk unnu leikmenn Liverpool þegar þeir urðu Evrópumeistarar með því að sigra AC Milan eftir að hafa lent 0:3 undir í fyrri hálfleik í Istanbúl.

Fyrri leikurinn í Þýskalandi endaði 1:1 en Dortmund virtist ætla að sigla þægilega áfram eftir að hafa komist í 2:0 eftir aðeins 8 mínútna leik á Anfield. Henrikh Mkhitaryan og Patrick Aubameyang skoruðu og staða Liverpool virtist vonlaus.

Þurftu að skora þrjú mörk

Divock Origi minnkaði muninn í byrjun seinni hálfleiks en þegar Marco Reus kom Dortmund í 3:1 á 57. mínútu virtust Þjóðverjarnir vera með undanúrslitasætið í höfn. Liverpool þurfti þrjú mörk til að fara áfram.

Jürgen Klopp, sem stýrði Dortmund um árabil, setti Joe Allen og Daniel Sturridge inná sem varamenn á 62. mínútu og þeir voru geysilega drjúgir í magnaðri endurkomu liðsins. Philippe Coutinho minnkaði muninn strax í 2:3 og á 77. mínútu jafnaði miðvörðurinn Mamadou Sakho, 3:3, en hann hafði verið ansi tæpur í vörn Liverpool fram að því.

Í uppbótartímanum skallaði svo hinn miðvörðurinn, Dejan Lovren, boltann í mark Dortmund, 4:3, eftir sendingu frá James Milner og ævintýraleg endurkoma var staðreynd.

Liverpool verður því í hattinum þegar dregið verður til undanúrslitanna í dag ásamt spænsku liðunum Sevilla og Villarreal og Shakhtar Donetsk frá Úkraínu. vs@mbl.is