Helga Ingólfsdóttir
Helga Ingólfsdóttir
Eftir Helgu Ingólfsdóttur: "Kjósendur vilja betra siðferði og til þess að nauðsynlegar breytingar eigi sér stað í íslenskri pólitík þarf fleira að koma til en kosningar."

Á Íslandi hefur það ekki tíðkast að stjórnmálamenn segi af sér og fréttir liðinnar viku, þegar forsætisráðherra landsins var knúinn til afsagnar vegna sjónvarpsviðtals sem birtist víða um heim, eru því töluverð tíðindi. Auðvitað er meginástæða afsagnar Sigmundar Davíðs sú að hann og kona hans eru í hópi kröfuhafa föllnu bankanna og því alls óviðunandi að hann hafi setið beggja vegna borðs í samningaviðræðum við kröfuhafa sökum eigin hagsmuna og konu sinnar. Hvernig manninum datt í hug að þetta væri í lagi er stórfurðulegt en miðað við breytingu á eignaskráningu hans í aflandsfélagi þeirra hjóna rétt áður en lögum um upplýsingagjöf var breytt á Alþingi má leiða að því líkur að honum hafi vel verið ljóst að kjósendur hafa skoðun á því að kjörnir fulltrúar geymi eignir sínar í skattaskjólum.

Kjósendur gera þá kröfu að kjörnir fulltrúar séu sjálfum sér samkvæmir og segi kjósendum satt, svo einfalt er það. Þetta er sama krafa og við gerum almennt hvert til annars í samskiptum okkar á milli og þetta er það sem við eigum að kenna börnunum okkar. Nú er ljóst að ekki verður við það unað lengur að það séu sérreglur í gangi fyrir suma en aðrar reglur fyrir aðra. Stjórnmálaflokkar verða að vera sjálfum sér samkvæmir og koma heiðarlega fram gagnvart kjósendum. Íslensk pólitík, eins og hún hefur verið rekin, er búin með alla sénsa.

Stjórnarflokkar í ríkisstjórn verða að axla þá ábyrgð að opna bækur sínar með viðunandi hætti þannig að kjósendur þurfi ekki að standa á Austurvelli og berja trumbur. Krafa fulltrúa minnihlutaflokkanna á Alþingi er um kosningar strax og líklegt er að sú krafa sé hávær vegna þess andrúmslofts sem er í þjóðfélaginu og þá virðist engu skipta að afgreiða frá þinginu mikilvæg hagsmunamál sem bíða. Spurningin er hvort það er raunhæf krafa að krefjast kosninga strax og hverju það breyti gagnvart kjósendum hvort kosið verði í sumar eða í haust eins og samþykkt hefur verið.

Kjósendur vilja betra siðferði og til þess að nauðsynlegar breytingar eigi sér stað í íslenskri pólitík þarf fleira að koma til en kosningar. Kjörnir fulltrúar í öllum flokkum þurfa að vanda betur til verka og öðlast traust. Það verður ekki gert nema með heiðarleika, gegnsæi og vönduðum vinnubrögðum.

Höfundur er bæjarfulltrúi, Hafnarfjarðarbæ.

Höf.: Helgu Ingólfsdóttur