Helgi Jóhannesson lögmaður á LEX.
Helgi Jóhannesson lögmaður á LEX. — Morgunblaðið/Eggert
Það er kannski ekki mjög „sexí“ umræðuefni að tala um hjúskaparlög og kaupmála í aðdraganda brúðkaups en það þarf engu að síður að ræða þessa hluti, svo allir séu staddir á sömu blaðsíðu, hvað hjónabandið felur í sér og hvaða réttindi fólk...

Það er kannski ekki mjög „sexí“ umræðuefni að tala um hjúskaparlög og kaupmála í aðdraganda brúðkaups en það þarf engu að síður að ræða þessa hluti, svo allir séu staddir á sömu blaðsíðu, hvað hjónabandið felur í sér og hvaða réttindi fólk fær með því að ganga í hjónaband. Marta María Jónasdóttir | martamaria@mbl.is

Helgi Jóhannesson, lögmaður á LEX, segir að það séu tvær praktískar ástæður fyrir því hvers vegna fólk ætti að ganga í hjúskap.

„Það má eiginlega segja að það séu tvær góðar „praktískar“ ástæður fyrir því að ganga í hjúskap. Í fyrsta lagi er ekki gagnkvæmur erfðaréttur milli aðila í óvígðri sambúð en slíkur erfðaréttur er lögbundinn ef fólk er í hjúskap. Það er mjög útbreiddur misskilningur að sambúð í langan tíma megi jafna til hjúskapar að þessu leyti. Það er ekki rétt.

Hin ástæðan er sú að það eru skýrar reglur í lögum um skiptingu eigna og skulda við slit á hjúskap. Engin lög eru til um óvígða sambúð og því reglur ekki eins skýrar,“ segir hann.

Er algengt að fólk leiti til lögmanna áður en það gengur í hjónaband?

„Það er alls ekki óalgengt a.m.k. Þó flestir séu að hugsa um ást, gleði og veisluhöld í aðdraganda hjónabands má ekki gleyma þeirri staðreynd að skilnaðartíðni er mjög há og því ekkert nema sjálfsagt að kanna réttarstöðuna sem best. Sennilega er samt algengara að fólk sem er að ganga í hjúskap eftir að hafa eignast börn eða eftir annan hjúskap leiti ráðlegginga lögmanna í aðdraganda giftingar, m.t.t. erfðaréttar o.þ.h.“

Hvað um kaupmála, er að færast í vöxt að fólk geri slíka samninga sín á milli?

„Kaupmálar eru í raun samningar fólks sem er í hjúskap eða hyggst ganga í hjúskap um að ákveðnar eignir séu séreignir viðkomandi í hjúskapnum. Það þýðir að þær eignir koma ekki til skipta ef til skilnaðar kemur, en annars er reglan sú að eignir skiptast til helminga við skilnað. Það er ekki merkjanleg fjölgun í skráningu kaupmála, en þeir eru ekki lengur stimpilskyld skjöl og ætti því sá þröskuldur allavega ekki að standa í vegi fyrir gerð slíkra skjala. Mikilvægt er að hafa í huga að kaupmála verður að skrá hjá viðkomandi sýslumannsembætti til að þeir öðlist gildi.“

Nú virðast pör oft vera rög við að ræða þessi málefni áður en gengið er í hjónaband. Hvers vegna heldur þú að það sé?

„Ætli það sé ekki vegna þess að tal um skilnað og dauða er yfirleitt ekkert skemmtilegt íblöndunarefni við brúðkaupsundirbúning. Það ætti samt að hafa í huga að meira en þriðja hvert hjónaband endar með skilnaði. Það er því bullandi áhætta í þessu öllu saman og rétt að binda hnúta vel í upphafi til að forðast löng og erfið stríð ef illa fer.“