[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla Rún Sigþórsdóttir heldur utan um Facebook-hópinn Brúðkaups hugmyndir. Í þeim hóp skiptist fólk meðal annars á hugmyndum og ráðum um brúðkaupsdaginn og allt sem honum tengist.
Erla Rún Sigþórsdóttir heldur utan um Facebook-hópinn Brúðkaups hugmyndir. Í þeim hóp skiptist fólk meðal annars á hugmyndum og ráðum um brúðkaupsdaginn og allt sem honum tengist. Fólk notar þá hópinn einnig til að auglýsa þjónustu og selja brúðkaupstengda hluti, svo sem notaða brúðarkjóla. Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

Þessi síða var upphaflega stofnuð fyrir fólk sem var í brúðkaupshugleiðingum og vildi skiptast á hugmyndum við aðra sem eru í sömu hugleiðingum. En núna er síðan orðin mun stærri og fólk er farið að auglýsa allt milli himins og jarðar,“ segir Erla Rún sem verður mikið vör við að konu séu að selja brúðarkjólana sína. „Kannski tek ég bara svona vel eftir því þar sem ég tími ekki að selja minn. En tímarnir eru svo breyttir, brúðarkjóll er ekki álitinn erfðagripir lengur eins og í gamla daga, þegar heilu kynslóðirnar giftu sig í sama kjólnum. Það er viss praktík í þessu [að selja kjólinn eftir stóra daginn], þú ert aldrei að fara að nota hann aftur og það er ekki sjálfsagt að dóttir þín hafi áhuga á að gifta sig í þínum kjól. Þá er hann í rauninni bara að taka pláss í skápnum svo af hverju ekki að græða smá?“

Hægt að kaupa kjól á netinu á kostakjörum

Erla Rún segir sífellt fleiri verðandi brúðir kaupa kjólana sína á netinu erlendis frá þó að því fylgi ákveðin áhætta „Það er auðvitað frábært að netverslanir sendi um allan heim, hver vil ekki fá draumakjólinn sinn á helmingi lægra verði? En það sem gerir þetta minna eftirsóknarvert er auðvitað að þú getur ekki handleikið kjólinn eða mátað hann áður en þú kaupir. Svo kemur hann til landsins og þú mátar hann loksins en þá hentar hann mögulega ekki. Þá þarf jafnvel að eyða meiri pening í saumakonu eða að kaupa nýjan kjól.“

Erla Rún gifti sig sumarið 2012, hún keypti sinn brúðarkjól í Bandaríkjunum. „Hann er mjög einfaldur en óskaplega fallegur og ég er ekki viss um að ég gæti selt hann, ég er búin að bindast honum tilfinningalegum böndum,“ segir Erla Rún og hlær. Hún útilokar þó ekki að selja hann einhvern tímann. „Mér þykir hann of fallegur til að liggja bara inni í skáp eða geymslu, en það verður ekki alveg strax sem ég sel hann.“