Kristín Höskuldsdóttir fæddist á Húsavík 7. nóvember 1960. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 7. apríl 2016.

Foreldrar hennar eru Hólmfríður Jóna Hannesdóttir frá Staðarhóli í Aðaldal, f. 17. nóvember 1930, og Höskuldur Aðalsteinn Sigurgeirsson frá Húsavík, f. 19. maí 1932.

Kristín var næstelst fimm systkina en þau eru: a) Hannes, f. 8. september 1956, kvæntur Elfu Signýju Jónsdóttur. b) Páll Aðalsteinn, f. 3. júní 1962, kvæntur Jóhönnu Björgu Hansen. c) Anna Helga, f. 3. nóvember 1963, gift Halldóri Páli Gíslasyni. d) Sigurgeir, f. 26. september 1968, kvæntur Kristjönu Ríkeyju Magnúsdóttur.

Kristín giftist Halldóri Péturssyni 31. desember 1983. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1. Höskuldur Pétur stærðfræðingur, f. 25. febrúar 1985, búsettur í New York. Unnusta hans er Dedra Bailey. 2. Hólmfríður Rósa lífefnafræðingur, f. 4. mars 1991, stundar nám í Kaupmannahöfn. Unnusti hennar er Sigurður Tómasson.

Kristín ólst upp á Húsavík þar til leið hennar lá í Verzlunarskóla Íslands en þaðan útskrifaðist hún sem stúdent 1981. Eftir það hóf hún störf hjá Félagi íslenskra iðnrekenda. Kristín og Halldór bjuggu í Gautaborg 1987 til 1991 þar sem Halldór stundaði framhaldsnám. Fljótlega eftir heimkomu hóf Kristín störf hjá Kælismiðjunni Frosti en frá árinu 2001 hefur hún starfað hjá Vodafone og fyrirrennurum þess.

Útför Kristínar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 15. apríl 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í augum þínum sá ég fegri sýnir

en sólhvít orð og tónar geta lýst,

svo miklir voru móðurdraumar þínir,

þó marga þeirra hafi frostið níst.

Sem hetja barst þú harmana og sárin,

huggaðir aðra brostir gegnum tárin,

viðkvæm í lund, en viljasterk.

Þau bregða um þig ljóma, liðnu árin.

Nú lofa þig þín eigin verk.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.

Er Íslands bestu mæður verða taldar,

þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna,

blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,

og bráðum kemur eilíft vor.

(Davíð Stefánsson)

Takk fyrir allt, elsku mamma,

Höskuldur Pétur og

Hólmfríður Rósa.

Moldin er þín.

Moldin er trygg við börnin sín,

sefar allan söknuð og harm

og svæfir þig við sinn móðurbarm.

Grasið hvíslar sitt ljúfasta ljóð

á leiðinu þínu. Moldin er hljóð

og hvíldin góð...

(Davíð Stefánsson)

Elsku Stína, hvíl í friði.

Mamma og pabbi.

Við höfum misst mikið. Stína systir hefur kvatt okkur. Sorgin og söknuðurinn er mikill. Um leið og við syrgjum Stínu er daginn farið að lengja. Sólin rís hærra, dvelur lengur á himni og yljar okkur, bræðir snjóinn og undirbýr vorkomu. Fuglar syngja fyrir utan gluggann, grasið, trjágróðurinn og blómin undirbúa sig að lifna við, vaxa og dafna. Vorkoman hjálpar okkur að takast á við sorgina og rifja upp yndislegar minningar um Stínu systur. Þessi tími ársins var jú hennar uppáhaldstími. Tími til að undirbúa garðinn, hlúa að gróðrinum og njóta.

Það vermir hjartað að hugsa um þann tíma sem við fengum að vera með Stínu. Glaðlyndi og kímni var hennar aðalsmerki. Það var yndislegt að alast upp með Stínu í Höfðabrekkunni á Húsavík.

Eftir að skóladegi lauk á Húsavík var brunað heim. Mogginn var kominn í bunkum og tími fyrir okkur systkinin að bera út Moggann í allan bæinn. Öll áttum við okkar útburðarsvæði, svæði Stínu var Norðurbærinn. Samvinna okkar systkina var mikil við útburðinn, sú samvinna og samheldni er enn til staðar og hjálpar okkur á erfiðum tímum.

Húsavík var Stínu kær og bar hún sterkar tilfinningar til heimaslóða sinna. Þangað kom hún oft í heimsóknir til að heimsækja vini og ættingja, jafnframt því að hlaða batteríin ef á þurfti að halda.

Stína hafði yndi af ferðalögum. Ferðaðist hún oft með okkur systkinunum og foreldrum okkar út fyrir landsteinana. Flórídaferðirnar standa okkur næst en fyrir tveimur árum fórum við öll systkinin í golfferð til Flórída. Sú ferð verður lengi í minnum höfð en þar áttum við saman frábæran tíma þar sem mikið var hlegið og sprellað. Stína var dugleg að ferðast til barna sinna sem bæði búa núna á erlendri grundu. Börnin hennar voru henni dýrmæt og var hún virkilega stolt af þeim sem og við öll erum, enda fyrirmyndar einstaklingar þar á ferð. Hún hugsaði vel um þau og naut þess að heimsækja þau, sitt hvoru megin við Atlantshafið. Stínu var einnig annt um systkinabörn sín, talaði oft við þau, vildi vita hvað þau væru að gera og hvernig þeim vegnaði. Stína var góð frænka.

Stína var samviskusöm, skynsöm og vinnusöm. Það gerði hana að traustum einstaklingi sem var vinamargur og átti auðvelt að umgangast fólk. Góðir eignleikar sem gerðu hana að einstakri manneskju. Þessir eiginleikar ásamt mikilli bjartsýni og þrautseigju komu henni vel síðustu árin í veikindum sínum. Hún ætlaði ekki að gefast upp.

Elsku Höskuldur Pétur og Hólmfríður Rósa, missir ykkar er mestur. Við munum halda utan um ykkur og gæta eins vel og mögulegt er.

Elsku Stína, takk fyrir þann tíma sem við fengum að vera með þér.

Þín systkini,

Hannes, Páll Aðalsteinn,

Anna Helga og Sigurgeir.

Í dag, föstudaginn 15. apríl, verður Kristín Höskuldsdóttir, kær mágkona og vinkona, lögð til hinstu hvílu. Hún lést á Landspítalanum eftir erfið veikindi þann 7. apríl síðastliðinn. Rúm 28 ár eru síðan ég kynntist Stínu úti í Gautaborg í Svíþjóð, en þar var á ferð ung, glæsileg og frambærileg kona. Árin í Svíþjóð voru þegar litið er til baka dásamleg og líklega ein bestu ár ævinnar, en þar bundumst við Stína fyrst vinaböndum. Síðar þegar börnin okkar Palla uxu úr grasi varð Stína mikil uppáhaldsfrænka þeirra, enda bar hún ævinlega hag og velferð barna fyrir brjósti, hvort heldur voru börn annarra eða hennar eigin. Stoltust var Stína þó alltaf af börnunum sínum, þeim Höskuldi og Hólmfríði, enda eru þau bæði vel gefin og efnilegt ungt fólk sem bera móður sinni góðan vitnisburð um gott atlæti.

Stína var hrókur alls fagnaðar á öllum mannamótum enda hafði hún einstakt viðmót og mikla og góða nærveru. Stína var líka sérstaklega dugleg og ósérhlífin í öllum þeim verkefnum sem hún tók sér fyrir hendur og ekki ónýtt að hafa hana með sér í liði. Stínu verður því sárt saknað enda var hún mikill gleðigjafi og órjúfanlegur hluti fjölskyldunnar. Við munum gæta þess að halda fast í minninguna um einstaka konu.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var

gleði þín.

(Kahlil Gibran, þýð. Gunnar Dal)

Baráttuþrek og æðruleysi Stínu í erfiðum veikindum var einstakt. Alltaf var hún með bros á vör og stutt í næsta brandara, þrátt fyrir að svo stutt væri í endalokin. Það er því þungt að skrifa eftirmála um Kristínu Höskuldsdóttur, þessa frábæru, kláru og skemmtilegu konu, svo löngu áður en hún hefði raunverulega átt að kveðja.

Börnum Stínu, Höskuldi Pétri og Hólmfríði Rósu, foreldrum á Húsavík, Höskuldi og Hólmfríði, og öðrum aðstandendum sem eiga um sárt að binda votta ég mína dýpstu samúð.

Jóhanna Björg Hansen.

Þegar þessar línur eru ritaðar er komið vor í loftið, fuglasöngur árstíðarinnar að hefjast fyrir alvöru, grösin líta upp úr moldinni, laufin fara að birtast á trjánum en Stína okkar er horfin yfir móðuna miklu, allt of snemma, fimmtíu og fimm ára gömul.

Maður spyr hvernig má það vera að kona á bezta aldri hverfur frá okkur svona snemma sem hefði átt að njóta lífs með fjölskyldu sinni og vinum um langan tíma. Vegir Drottins eru órannsakanlegir og þegar við sem eftir lifum spyrjum spurninga er fátt um svör. Almættið ræður för og þar fáum við engu breytt og okkar er að sætta okkur við orðinn hlut.

Stína kom inn í líf okkar aðeins rúmlega tvítug. Lagleg, hláturmild og brosleit birtist hún okkur Rósu Dóru heima hjá okkur þegar hún kom í heimsókn í fyrsta sinn og var hvers manns hugljúfi. Börnin tvö sem þau Halldór eignuðust, Höskuldur Pétur og Hólmfríður Rósa, stolt þeirra beggja enda bæði framúrskarandi elskuleg og vel gerð.

Samband okkar Stínu var gott. Við hringdum hvort í annað öðru hvoru og létum móðan mása. Á afmælisdegi hennar fór ég stundum til hennar í Dalalandið þar sem við spjölluðum létt um daginn og veginn.

Þessum línum fylgja kveðjur til foreldra hennar og frændgarðs á Húsavík og hér í Reykjavík. Afabörnin mín, Höskuldur Pétur og Hólmfríður Rósa, og sambýlisfólk þeirra, þau Dedra og Sigurður, fá hlýjar kveðjur frá okkur öllum í fjölskyldu okkar Halldórs. Lífið verður tómlegra án Stínu – en öll horfum við fram á veginn og þökkum almættinu fyrir að hafa mátt þekkja hana.

Pétur Jósefsson.

Elsku Kristín mín.

Þó kynni okkar hafi aðeins varið í rúm fimm ár hefur engin manneskja, önnur en dóttir hennar, haft jafnmikil áhrif á mig á jafnstuttum tíma. Of stuttum tíma. Ég var rétt farinn að leyfa mér að kalla hana Stínu, eins og hennar nánustu. En fótsporin vara að eilífu. Frá fyrsta degi tók Kristín mér, ungum ráðvilltum dreng, opnum örmum inn á heimilið sitt sem varð um leið mitt. Hjá henni var ég alltaf velkominn, hún sýndi öllu mínu áhuga og vildi mér alltaf hjálpa, hvað sem á bjátaði. Fórnfýsi og skynsemi voru hennar hjartans mál sem mun ætíð standa upp úr í minningunni. Hún lagði áform sín fyrirhyggjulaust til hliðar, mér til aðstoðar, hvort sem það var til að keyra mig í skólann, kenna mér debet og kredit eða baka fyrir mig pítsu, sem hún vissi að væri mitt uppáhald. Sérstaklega pítsan hennar Stínu. Mér finnst ég aldrei hafa endurgoldið hjálpsemi hennar eins og ég hefði viljað, en hún væri sú fyrsta til að benda mér á að slík eftirsjá væri ekki til neins. Ég mun þó áfram iðrast þess að hafa ekki náð að spila með Kristínu golf. En það fær að bíða betri tíma.

Sigurður Tómasson.

Mig langar til að minnast Stínu móðursystur minnar sem var, eins og við sögðum alltaf, mamma númer tvö, en það segir allt um okkar nána samband. Þegar ég var lítil þá var ég mikið hjá Stínu, hún passaði mig oft og kenndi mér margt, t.d. í sambandi við bókhald en það var hennar sérsvið. Það er alveg sama hvað ég hef tekið mér fyrir hendur, hún hefur alltaf hvatt mig áfram og verið einstaklega stolt af mér.

Ofarlega í huga mér er ferð sem við mæðgurnar fórum í ferð norður til Húsavíkur en Stína frænka þurfti að sjálfsögðu að stoppa á Akureyri og stemma bókhaldið af í útibúi Vodafone. Í þessari sömu ferð snéri hún sér að okkur Hófí frænku og sagði: „Stelpur, ég tel alltaf tvisvar til að stemma mig af.“ Þetta lýsir því hversu pottþétt Stína frænka var. Eftir það höfum við haft það fyrir sið að passa að stemma af þegar eitthvað þarf að telja saman. Ég á endalausar skemmtilegar og góðar minningar frá ferðalögum innan lands og utan. Síðustu ár höfum við átt margar yndislegar samverustundir og hún var mikið í Kleifarási hjá okkur. Það var alveg sama hversu veik og kvalin hún var, aldrei kvartaði hún og vildi frekar vita hvernig aðrir höfðu það. Stína var hörkudugleg og var í vinnu alveg undir það síðasta og fannst gott að geta farið í Vodafone.

Það er ósanngjarnt og óraunverulegt að Stína mín hafi kvatt okkur svona snemma en við fáum því ekki breytt og þurfum að styðja hvert annað í sorginni. Það er stórt skarð höggvið í fjölskylduna og það mun enginn koma í hennar stað, matarboðin og ferðirnar verða því ansi tómlegar án Stínu. Minning um góða og yndislega konu mun lifa, enda stundirnar með henni ógleymanlegar.

Þín frænka,

Jóna Svandís.

Þegar við hugsum um Stínu þá munum við bara eftir henni brosandi og hlæjandi. Það var gaman að koma í heimsókn til hennar. Hún gaf okkur alltaf ís og leyfði okkur að gefa kettinum sínum, Bangsínu, harðfisk. Við eigum það sameignlegt með Stínu að við elskum að borða humar. Það voru því dásamlegar stundir þegar við hittumst og borðuðum saman humar. Það var mjög gaman þegar við fórum með Stínu til Flórída. Þá var margt brallað og mikið hlegið. Frábærum stundum með Stínu munum við aldrei gleyma.

Það er sárt að kveðja Stínu frænku. Það hjálpar okkur að hugsa um hvað hún var alltaf glöð. Við ætlum að reyna að vera eins glöð og Stína var alltaf.

Hildur, Ríkey og Magnús Máni.

Ein mestu forréttindi mín í lífinu eru þau að hafa fengið að alast upp í hópi Höfðabrekkubarnanna á Húsavík. Við erum nú komin á miðjan aldur en köllum okkur ennþá Höfðabrekkubörnin og munum aldrei hætta því. Við gerðum okkur snemma grein fyrir því að öll vorum við eins og ein stór fjölskylda og hvert hús í götunni var heimili okkar. Minningar um skemmtilegar samverustundir eru óteljandi og einlæg væntumþykja einkennir þennan einstaka hóp. Eins og gleði okkar er mikil þegar við hittumst er sorgin sár þegar kveðjustund rennur upp. Það er sárt að þurfa að kveðja Stínu okkar en hugurinn er fullur þakklætis fyrir að hafa fengið að kynnast slíkri manneskju. Hún var yndisleg, alltaf jákvæð og bjartsýn og einstakur baráttujaxl, það kom aldrei til greina að gefast upp. Það var skemmtilegt að rifja upp gamlar minningar með Stínu og mikið hlegið. Ein gömul minning var alltaf ljóslifandi hjá okkur en það var þegar við fengum leyfi foreldra okkar til að fara í útilegu upp að Botnsvatni. Það var tjaldað og allt gekk vel þar til leið á kvöld en þá fór að kyngja niður snjó og í kjölfarið kom kröftugur jarðskjálfti. Okkur var nú ekki alveg sama og fórum að spá í hvort Botnsvatn væri nokkuð virk eldstöð og að eldgos væri yfirvofandi. Það leið ekki á löngu þar til komið var að sækja okkur en þá vildum við alls ekki viðurkenna að við hefðum orðið hræddar og gerðum lítið úr öllu saman. Við tókum samt tilboði um að fá far heim og þó við þættumst færar í flestan sjó vorum við í raun yfir okkur ánægðar með að þessi útilega varð ekki lengri.

Lífið er hverfult, kveðjustundin er komin og eftir stendur fjölskylda hennar sem saknar sárt en veit að Stína naut einstakrar ástar og umhyggju frá sínum nánustu fram á síðustu stundu.

Lífsins tré nú laufin fellir sín

Lútum höfði, birta dagsins dvín

Dropar falla, döggvot orðin grund

Dýrmæt perla, horfin frá um stund

(AKV)

Minning um yndislega vinkonu mun lifa.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir (Anna Lína).

Við vorum æskuvinkonur. Foreldrar okkar voru frumbyggjar í Höfðabrekkunni á Húsavík. Fjölskylda Stínu í nr. 8 og mín fjölskylda í nr. 9. Á örfáum árum fjölgaði húsunum við götuna, börnin urðu mörg og við ólumst upp við leiki þar sem allir léku sér saman, jafnvel þó allt að tíu ára aldursmunur væri á þeim elstu og yngstu. Þarna ríkti mikil samheldni og vinátta sem varir enn.

Stína mitt ljúfa ljós

líð þú með mér í dansinn.

Þú ert mín æskurós

enda skaltu hljóta kransinn.

Þannig var oft sungið fyrir Stínu vinkonu þegar hún kom heim til mín. Upphafserindið í „Litlu Stínu“. Og ævinlega brást Stína við með sólskinsbrosi, einmitt eins og vænst hafði verið.

Stína, þetta ljúfa ljós. Æskuminningarnar fara um hugann eins og myndir og ég sé okkur fyrir mér á ganginum heima í dúkkuleik og við með slæður á höfðinu eins og alvöru konur. Við í drulluleik, standandi í miðjum drullupolli á sólríkum vordegi og báðar með lambhúshettur sem voru okkar uppáhald. Sólbað úti í garði; við liggjandi á teppi með Andrésblöð, flysjaðan rabarbara og sykur í glasi til að dýfa honum í, en enduðum ævinlega undir teppinu, okkur var svo kalt.

Stína var næstelst fimm systkina en ég var yngst á mínu heimili og henni þótti jafngott að koma í rólegheit heim til mín eins og mér fannst gaman að fara í fjörið heima hjá henni.

Við rifumst aldrei. Það þurfti aldrei að rífast við Stínu. Ljúflyndi og gleði einkenndi hana strax sem barn og hún var svo góð vinkona. Ég man þó hve mér sárnaði að hún skyldi fara á undan mér í skóla. Það var þá sem ég uppgötvaði að hún var eldri en ég. Ég skildi þetta ekki og samt var ég stærri en hún. Þetta áfall varð ekki til að spilla vinskapnum enda fór ég í sama skóla og við héldum áfram að leika okkur saman næstu árin.

Stína var mjög góður námsmaður, samviskusöm og eldklár. Hún fór í Versló og tók stúdentspróf en hún hélt ekki áfram námi. Hún giftist, við fylgdumst að ófrískar að fyrstu börnunum okkar og Höskuldur Pétur fæddist nákvæmlega þremur mánuðum á eftir Björgu minni. Stína og fjölskylda fluttu til Svíþjóðar þar sem fjölskyldufaðirinn fór í framhaldsnám.

Svo bættist annar gullmoli við þegar Hólmfríður Rósa fæddist. Þau keyptu íbúð í Dalalandi og eftir skilnað bjó Stína þar áfram ásamt börnunum sínum.

Stína var allstaðar vel liðin enda kát og lífsglöð og ákaflega traust og vel gerð manneskja. Hún greindist fyrst með krabbamein í ársbyrjun 2008 og útlitið var hreint ekki bjart en hún kvartaði ekki. Í öll þessi ár og í hvert skipti sem höggvið var í hana, tók hún því með jafnaðargeði og ótrúlegri bjartsýni. Hennar einstaka geðslag fleytti henni langt.

„Enda skaltu hljóta kransinn,“ segir í „Litlu Stínu“. Mér finnst hún Stína mín hafi hlotið fallegan blómakrans og borið hann vel. Hún átti yndislega foreldra, samheldinn systkinahóp og frændsystkin og börnin sín tvö og tengdabörn. Hún skilur eftir sig margt og svo margs að minnast og þakka.

Elsku þið öll, kæra fjölskylda og vinir, við Gummi sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Sigríður Ingvarsdóttir.

Það var fallegur og bjartur dagur þegar Kristín, skólasystir okkar og vinkona, kvaddi. Þannig eru einnig minningar okkar um hana fallegar og bjartar. Kristín gekk í gegnum langa og erfiða baráttu við krabbamein og er aðdáunarvert hvernig hún tókst á við það verkefni. Þvílíkt æðruleysi, þvílík hetja.

Kynni okkar hófust haustið 1977 í Versló er við hófum nám í 3-H og margar gleðistundir höfum við átt saman á ferðalögum innanlands og utan, í saumaklúbbum og golfferðum. Kristín var ein af „dreifbýlistúttunum“ í bekknum, uppalin á Húsavík og talaði skýra norðlensku. Hún hafði fallegan og raddaðan framburð sem eftir var tekið og oft gantast með. Kristín var stolt af því að vera Húsvíkingur og þótti vænt um heimabæ sinn og heimsótti hann reglulega.

Kristín lagði mikinn metnað í allt sem hún tók sér fyrir hendur. Í skólanum stóð hún sig afburðavel. Aldrei var slegið slöku við í vinnu og ekki var hægt að fara í ferðalög eða golf nema öll verkefni hennar í vinnunni væru á hreinu. Í golfinu var spilað meðan heilsan leyfði og stundum aðeins meira en það. Veikindi og erfiðleikar virðast ekki hafa verið til í orðabók Kristínar, en öll þau ár sem hún glímdi við veikindi kvartaði hún aldrei, heldur lagði áherslu á að njóta lífsins. Það var ekki fyrr en nú í febrúar að við heyrðum Kristínu tala um að hún væri sjúklingur en þá var hún líka orðin mjög veik.

Kristín var félagslynd og glaðvær og alltaf fyrst til að tilkynna þátttöku sína ef rætt var um að hittast. Hún hafði einstaklega góða nærveru, var hjálpfús og umhyggjusöm. Vandamál virtust ekki vera til í huga hennar nema sem verkefni til að leysa, enda hugsaði hún alltaf í lausnum.

Kristín eignaðist tvö börn, Höskuld og Hólmfríði, sem hún var afar stolt af. Undanfarin ár hafa þau verið í námi og vinnu erlendis, búsett í sitt hvorri heimsálfunni og hefur hún haft mikla ánægju af að heimsækja þau. Hún studdi þau dyggilega í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau sjá nú á eftir frábærri móður sem kvödd er langt um aldur fram.

Við erum þakklátar og ríkari fyrir að hafa fengið að kynnast Kristínu og eiga sem vinkonu í öll þessi ár.

Við sendum Höskuldi, Hólmfríði, foreldrum og allri fjölskyldu Kristínar okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi góður Guð veita þeim styrk á þessum erfiðu tímum.

Minningin um Kristínu mun lifa í hjörtum okkar.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum,

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu gengin á guðanna fund,

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Anna Birna, Ása, Bergljót, Gerður, Guðrún, Gunnhildur, Kristín, Margrét G., Margrét H., Ólöf og Þuríður.

Elsku Hólmfríður, Höskuldur og aðrir aðstandendur.

Kristín var stórkostleg kona og missir ykkar er mikill. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elsku Kristín.

Það er skrýtin tilhugsun að venjast því að þú gangir ekki hér inn til okkar og setjist brosandi í sætið þitt, opnir tölvuna, kíkir á reikningabunkann, röltir inn í mötuneyti, sækir þér vatn og flatköku og byrjir svo daginn af krafti. Að horfa á sætið þitt autt, nammiskálina tóma og heyra ekki röddina þína er erfitt. Að geta ekki leitað til þín er erfitt. Að geta ekki rætt fréttir gærdagsins, hversdagsleikann og vinnuna við þig er erfitt.

Þú varst einstök manneskja. Þú varst ekki einungis samstarfskona okkar, þú varst okkur mikið meira. Þú varst stoð okkar og stytta, sönn vinkona og sumum okkar gekkst þú nánast í móðurstað, svo mikill var stuðningurinn sem þú sýndir okkur í vinnu jafnt sem einkalífi og eigum við þér allar mikið að þakka.

Ef hægt er að tala um að í einhverjum hafi slegið Vodafone-hjarta, þá sló Vodafone-hjarta í þér. Það var ofboðslega gott að leita til þín, þú vissir allt, hvernig sem þú fórst nú að því. Alltaf tókst þú öllum með bros á vör, sama hversu mikið var að gera hjá þér, nema að viðkomandi ætti mjög marga ósamþykkta reikninga, þá fékk sá hinn sami örlitla áminningu áður en brosið breiddist yfir.

Þú varst ótrúlega hugrökk og dugleg kona, ein sú allra duglegasta og lífsglaðasta sem við höfum kynnst. Jákvæðnin var engu lík og erum við allar sammála um að jákvæðnin og baráttugleðin hafi gefið þér ótrúlegan kraft í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm.

Orðin sem koma fyrst upp í hugann þegar við hugsum til þín eru; brosmild, húmoristi, fagleg, frábær, kraftmikil, ótrúlegt minni, greind, jákvæð, yndisleg, ljúf, skilningsrík, traust og umburðarlynd.

Það lýsir þér vel að það sem þú varst alltaf stoltust af voru ekki þín verk, heldur verk barnanna þinna, sem í raun eru þín verk, stuðningurinn sem þú sýndir þeim var algjörlega til fyrirmyndar og skilur þú eftir þig tvo framúrskarandi einstaklinga.

Skarðið sem nú hefur verið höggvið í okkar hóp er stórt.

Það er engin af okkur sem þekkir Vodafone án þín og þú munt alltaf eiga stað í hjörtum okkar.

Blessuð sé minning þín og hvíldu í friði, kæra Kristín.

Fyrir hönd stelpnanna þinna í bókhaldinu,

Sæunn Elsa.

Kristín hóf störf hjá Íslandssíma, forvera Vodafone, haustið 2001. Í 15 ár starfaði Kristín hjá fyrirtækinu sem síðar sameinaðist Tali og varð að Vodafone.

Það er því óhætt að segja að Kristín hafi upplifað ýmsar breytingar í starfi hjá fyrirtækinu.

Ég kynntist Kristínu þegar ég hóf störf hjá Vodafone 2005 og starfaði náið með henni frá þeim tíma til dagsins í dag.

Kristín gaf mikið af sér í starfi, var góður leiðbeinandi og fyrirmynd þeirra sem unnu með henni. Hún var ávallt jákvæð og glöð og tókst á við veikindi sín af miklu æðruleysi.

Hjá Vodafone þökkum við Kristínu 15 ára samleið og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til aðstandenda.

Hrönn Sveinsdóttir.

Kæra Kristín, nágrannakona okkar, er fallinn frá. Lífsglöð og hörkudugleg kona í blóma lífsins langt fyrir aldur fram, vegna sjúkdóms sem hún barðist við af æðruleysi og dugnaði.

Kristín sá um fjármál húsfélagsins og fleira fyrir okkur íbúanna í Dalalandi til margra ára af samviskusemi, þar sem henni þótti sjálfsagt að sinna slíku fyrir þá sem þar búa. Við þökkum henni fyrir allt hennar góða framlag og erum glöð fyrir það að hafa deilt því þakklæti til hennar. Við nágrannar Kristínar erum lánsöm að hafa kynnst þessari kjarnakonu.

Við vottum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúð og megi Guð og gæfa fylgja hennar duglegu börnum, Höskuldi Pétri Halldórssyni og Hólmfríði Rósu Halldórsdóttur, og styrkja þau í gegnum sorg þeirra.

Hér þótt lífið endi,

rís það upp í Drottins dýrðarhendi.

(J. Joch.)

Salome, Baldur og

fjölskylda, Dalalandi.

HINSTA KVEÐJA

Þú systir ert horfin í himnanna geim,
nú þjáningum leyst ert þú frá.
Ein sit ég eftir í veraldarheim
en Guði þú situr nú hjá.

En minningin um þig í hjarta ég geymi,
er kúrðum við saman um nætur.
Stundum okkar þeim aldrei ég gleymi,
því sál þín hún festi í mér rætur.

Þær stundir ég þakka þér systir,
faðmlög þín, kossa og hlýju.
Mynd þín hún djúpt í huga ristir,
þar til við hittumst að nýju.
(HB)

Ávallt þín litla systir,
Anna Helga.