Bókauppboð „Það er einlæg ósk mín og von að á næstu árum verði haldið svona „live“ bókauppboð eins og í gamla daga,“ segir Ari Gísli Bragason fornbókasali sem stendur fyrir bókauppboði í samstarfi við Gallerí Fold.
Bókauppboð „Það er einlæg ósk mín og von að á næstu árum verði haldið svona „live“ bókauppboð eins og í gamla daga,“ segir Ari Gísli Bragason fornbókasali sem stendur fyrir bókauppboði í samstarfi við Gallerí Fold. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Bókin Chronica Danorum frá árinu 1695 eftir Árna Magnússon handritasafnara er ein af þeim fágætu 25 íslensku ritum sem boðin eru upp á vefuppboði Gallerí Foldar í samstarfi við fornbókabúðina Bókina.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Bókin Chronica Danorum frá árinu 1695 eftir Árna Magnússon handritasafnara er ein af þeim fágætu 25 íslensku ritum sem boðin eru upp á vefuppboði Gallerí Foldar í samstarfi við fornbókabúðina Bókina. Vefuppboðið stendur til 24. apríl. Bókina skrifaði Árni þegar hann var rúmlega þrítugur, hún fjallar um sögu Danmerkur og Sjálands og er með fyrstu verkum hans. Hún er í samtímabandi, þ.e.a.s. í sama bókbandi og hún var bundin inn í árið 1695. „Bókin kemur út þegar Árni er á lífi,“ segir Ari Gísli Bragason fornbókasali um bókina sem er metin á 395 þúsund krónur

Hann bendir á að á þessu tiltekna vefuppboði séu eingöngu boðnar upp fáar en fágætar bækur. Á síðasta ári voru alls boðnar upp í kringum 600 bækur á vefuppboði Gallerís Foldar og Bókarinnar.

Margar atlögur að bókinni

„Fornbókamarkaðurinn náði ákveðnum hápunkti í kringum 1960 og 1970. Hann hefur í rólegheitunum verið að koma aftur,“ segir Ari Gísli, spurður út í markað á Íslandi með fornbækur. Í því samhengi vísar hann til líflegra bókauppboða á þessum árum sem voru vel sótt. „Þar kepptust menn við að bjóða hver á móti öðrum til dæmis í Sjómannablaðið Ægi og hálfpartinn slógust um það. Ef ég væri með það núna þyrfti ég að gefa það. Þetta var ákveðin stemning,“ segir hann og hlær. „Það er einlæg ósk mín og von að á næstu árum verði haldið svona „live“ bókauppboð eins og í gamla daga,“ segir Ari Gísli, spurður hvort bókauppboð í svipuðum anda verði haldin á nýjan leik.

„Það hafa svo margar atlögur verið gerðar að bókinni úr öllum áttum úr heiminum. Það hefur ekki enn tekist að drepa hana. Sumir vilja alls ekki hafa bækur í kringum sig en aðrir vilja það, eins og gengur,“ segir hann, spurður hvort áhugi á bókum og bókauppboðum sé deyjandi.

Hann segir fágætar bækur alltaf halda verð- og söfnunargildi sínu. Hann finnur fyrir því að bókasöfnurum hafi fækkað í gegnum tíðina og bendir á að þeim mætti fyrir alla muni fjölga. „Ástríðufullir safnarar hér eru líklega í kringum 100. Þeir eru eflaust fleiri en maður heldur.“ Í dag eru ljóðabækur eftirsóttar á uppboðum, einkum þær sem gefnar voru út í takmörkuðu upplagi á sínum tíma. „Það má færa rök fyrir því að við prentum of mikið og í of mörgum eintökum. En það verða alltaf einhverjir hlutir sem verða sjálfkrafa að ákveðnum safngripum,“ segir Ari Gísli.