Jónas Ragnar Pétursson fæddist í Selshjáleigu í Austur-Landeyjum 5. október 1928. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu 3. apríl 2016.

Foreldrar hans voru hjónin Soffía Guðmundsdóttir, f. 1892, d. 1973, og Pétur Guðmundsson, f. 1893, d. 1959, bóndi á Stóru-Hildisey í Austur-Landeyjum. Hann var ellefti af fjórtán systkinum og næstsíðasti þeirra sem kveður. Áður eru látin systkinin: Marta (f. 1914), Guðmundur (f. 1915), Kristín (f. 1917), Hallgrímur (f. 1918), Rósa (f. 1919), Kristján (f. 1921), Jóhanna (f. 1922), Guðrún (f. 1926), Guðleif (f. 1927), Lovísa (f. 1933), Sigríður (f. 1935) og Grétar (f. 1937). Eftirlifandi er Pétur (f. 1924).

Eiginkona Jónasar var Guðrún Guðmundsdóttir frá Syðri-Hól undir Vestur-Eyjafjöllum, f. 11. janúar 1933, d. 30. ágúst 1993. Saman eignuðust þau tvö börn: 1) Auðunn Óskar (f. 1961), búsettur á Selfossi. Maki hans er Kolbrún Einarsdóttir (f. 1960). Fyrri kona hans og barnsmóðir er Ingibjörg H. Guðmundsdóttir (f. 1962). Börn þeirra eru: a) Jóna B. Sigurðardóttir (f. 1981), maki Guðmundur Vigfússon (f. 1975). Börn þeirra eru: Silja, Harpa og Aron, b) Sigríður Steinunn (f. 1984), maki Eggert Sigursveinsson (f. 1983). Barn þeirra er Lilja Sól, c) Ágústa Katrín (f. 1990), maki Brynjar Jóhannsson (f. 1987). 2) Katrín Björg (f. 1965), búsett á Hvolsvelli. Eiginmaður hennar var Ingvar Sigurjónsson (f. 1964). Þau skildu. Börn Katrínar eru: a) Sigurbjörg G. Borgþórsdóttir (f. 1984). Faðir hennar er Borgþór Gústafsson (f. 1963, d. 2007), b) Guðrún Jóna Ingvarsdóttir (f. 2001). Fósturdóttir Jónasar er 3) Hrefna Magnúsdóttir (f. 1952), búsett í Akurey í Vestur-Landeyjum, maki Jón Ágústsson (f. 1942). Börn þeirra eru: a) Lóa (f. 1971), maki Ingvar Helgason (f. 1965). Börn þeirra eru: Jón Helgi, Sindri og Hrefna Dögg. b) Ágúst, (f. 1964), maki Erla G. Jónsdóttir (f. 1977). Börn þeirra: Jón og Bergrún. c) Hafsteinn (f. 1975), maki Kristín S. Jónsdóttir (f. 1978). Börn þeirra: Magnea Ósk og Brynjar Máni. d) Þórunn (f. 1977), börn hennar: Ágúst Aron og Alexander Dagur. e) Hafdís María (f. 1982), maki Örvar Arason (f. 1978). Börn þeirra: Ívar Ari og Soffía Ýr.

Jónas ólst upp í Austur-Landeyjum, fyrst í Selshjáleigu en síðar í Stóru-Hildisey, eftir að foreldrar hans fluttu þangað. Þegar hann komst á legg starfaði hann um tíma við múrverk á Selfossi og fór á margar vertíðir til Vestmannaeyja auk þess sem hann starfaði í sláturhúsunum á Hellu og í Djúpadal. Árið 1962 flutti hann að Syðri-Hól undir Vestur-Eyjafjöllum þar sem hann bjó hefðbundnum blönduðum búskap ásamt konu sinni. Öll búskaparárin þar nytjaði hann einnig jörðina Lambhúshól. 1998 hætti Jónas búskap og sonur hans tók við. Hann átti þó áfram heimili á Syðri-Hól allt til ársins 2010 er hann flutti á Selfoss ásamt syni sínum. Árið 2012 flutti hann svo á hjúkrunarheimilið Lund á Hellu heilsu sinnar vegna.

Útför Jónasar verður gerð frá Ásólfsskálakirkju undir Vestur-Eyjafjöllum í dag, 15. apríl 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Í dag kveðjum við elsku afa okkar sem við eigum margar góðar minningar um. Við vorum svo heppnar að fá að alast upp með afa á næsta bæ, samgangur var því mjög mikill. Alla okkar æsku var afi ekki langt undan og eyddum við miklum tíma með honum bæði í bústörfum og heima á Syðri-Hól. Á hverju sumri hjálpuðumst við að í heyskapnum og eru miklar og góðar minningar frá þeim tíma. Það er okkur minnisstætt þegar heyjað var í Lambhúshól og öll fjölskyldan var þangað saman komin með fullt skott af bakkelsi, því ekki mátti taka pásu til að fara heim í kaffi. Afi var hörkuduglegur og lét ekkert bíða til morguns sem hægt var að gera strax. Hann var þrjóskur, kallinn, en góður afi og það var alltaf gott að koma til hans.

Eftir að afi hætti bústörfum fórum við alltaf eftir morgunmjaltirnar inn til afa og þar beið okkar súkkulaðikex og kókglas. Á meðan fylgdist afi með því út um gluggann hvað væri að gerast í sveitinni. Eftir kvöldmjaltirnar fórum við einnig í heimsókn til afa og horfðum þá með honum á einn þátt eða svo og spjölluðum um daginn og veginn áður en haldið var heim í kvöldmat.

Á hverju ári héldum við upp á afmælið hans afa með rjómapönnukökum sem honum þóttu sérlega góðar og varð engin breyting þar á þrátt fyrir að afi væri kominn á hjúkrunar- og dvalarheimilið Lund. Þegar afi var kominn á Lund þá mættum við með rjómapönnukökurnar þangað og héldum upp á afmælið hans með heimilisfólkinu þar. Það fór vel um afa síðustu árin hans á Lundi, en starfsfólkið þar var einstaklega gott við hann og hugsaði vel um hann. Við viljum koma kæru þakklæti til starfsfólks Lundar.

Við minnumst hans með söknuði en erum einnig þakklátar fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með honum. Við trúum því að afi sé nú á góðum stað með ömmu Gunnu.

Jóna, Sigríður og Ágústa.

Það er með miklum söknuði en jafnframt ást og þakklæti sem ég kveð hann Jónas afa minn.

Ég var svo lánsöm að fá að alast upp fyrstu tíu ár ævi minnar í Syðri Hól hjá honum afa. Eftir að við mamma fluttum á Hvolsvöll þá kom ég um hverja helgi og í öllum sumarfríum í sveitina til afa. Það voru ófá kvöldin sem við afi sátum og spiluðum, spjölluðum og horfðum á sjónvarpið saman eftir mjaltir.

Afi var vinnusamur og hörkuduglegur alla sína tíð. Hann kenndi mér fljótt vinnusemi og hjá honum lærði ég að halda heimili. Að þessu bý ég enn þann dag í dag og er ég óendanlega þakklát honum fyrir það. Það var ekkert til hjá honum að fresta því til morguns sem hægt var að gera strax og því bara gengið í verkin þegar þurfti að gera þau.

Ég gat alltaf treyst á afa ef eitthvað var að hjá mér. Hann studdi mig í öllu og aðstoðaði mig ef ég þurfti einhverja aðstoð. Þá skipti engu hversu lítilvægt eða stórt það var, hvort sem það var að veita mér ráðleggingar, aðstoða mig þegar hart var í ári á námsárunum eða jafnvel við kaup á fyrsta bílnum mínum. Alltaf var afi boðinn og búinn að aðstoða ef hann mögulega gat.

Það er svo ótrúlega skrítið og óraunverulegt að hugsa til þess að ég geti ekki skroppið í heimsókn hvenær sem er til hans. Það leið sjaldan langur tími milli þess sem ég hitti hann og sérstaklega eftir að hann fluttist á Lund á Hellu reyndi ég að koma að lágmarki einu sinni í viku í heimsókn. Það var svo gott að geta komið til afa, sest niður og slakað á. Spjallað um daginn og veginn eða bara horfa á sjónvarpið saman.

Þótt maður viti að það komi að leiðarlokum hjá öllum er maður aldrei tilbúinn þegar sú stund rennur upp. En ég hugga mig við það að hún amma hefur eflaust komið og sótt þig og þið eruð núna sameinuð á ný eftir tæplega 23 ára aðskilnað. Foreldrar þínir, systkini, Kalli frændi, Maggi frá Hvammi og allir hinir sem hafa beðið eftir þér, hafa tekið þér fagnandi. Og amma, ef það er til 7up þarna þar sem þið eruð viltu passa upp á það fyrir mig að afi eigi alltaf nóg af því.

Elsku afi minn, þú verður alltaf til staðar í hjarta mínu og ég mun ávallt sakna þín en ég spjara mig, þú sást til þess.

Að lokum vil ég þakka starfsfólkinu á Hjúkrunarheimilinu Lundi fyrir að hugsa svona vel um hann afa minn síðustu árin og einnig fyrir alla hlýjuna og aðstoðina síðustu dagana hans.

Bless í bili, afi minn. Guðrún Jóna og mamma biðja að heilsa.

Sigurbjörg G.

Borgþórsdóttir (Sibba).