Absúrd „Orðið absúrdismi er eitthvað sem kemur upp í hugann við túlkun verksins,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri verksins.
Absúrd „Orðið absúrdismi er eitthvað sem kemur upp í hugann við túlkun verksins,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri verksins. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Már Ólafsson bmo@mbl.is „Sýningin fjallar um auglýsingastofu sem er algjörlega án viðskiptavina.

Björn Már Ólafsson

bmo@mbl.is

„Sýningin fjallar um auglýsingastofu sem er algjörlega án viðskiptavina. Þegar loks kemur svo kúnni á stofuna og pantar auglýsingu hefjast allir handa við að búa til auglýsingu en enginn veit hvað er verið að auglýsa,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri sýningarinnar Auglýsing ársins sem frumsýnd verður á Litla sviði Borgarleikhússins á morgun.

Höfundur sýningarinnar er Tyrfingur Tyrfingsson en verk hans Skúrinn á sléttunni og Bláskjár hafa áður verið sýnd í Borgarleikhúsinu en Auglýsing ársins er annað verk hans í fullri lengd.

Eins og ný uppáhaldshljómsveit

Að sögn Bergs er orðið absúrdismi eitthvað sem kemur upp í hugann við túlkun verksins. „En eftir síðustu vikur í pólitíkinni þá er þetta afskaplega realískt og eðlilegt verk. Því veruleikinn er oft meira absúrd en maður gerir sér grein fyrir,“ segir Bergur og útskýrir hvernig Tyrfingi tekst að semja leikrit sem fer fram á öðru skynsviði en missir samt ekki tengslin við raunveruleikann. „Þegar við förum í leikhús erum við oft að eiga við sálfræðilegar tilfinningar eða táknfræði sem fólk tengir við og þekkir. Tyrfingur leggur fram ákveðið tilvistarsvið sem er raunverulegt einhvers staðar í undirmeðvitundinni. Sýningin er af einhverjum heimi sem hefur ekki verið framreiddur áður. Þetta er svolítið eins og eignast nýja uppáhaldshljómsveit. Líkt og þegar ég heyrði lagið „Afmæli“ með Sykurmolunum í fyrsta skiptið. Tónlistin var af einhverjum heimi sem hafði ekki verið framreiddur áður fyrir mér. Tyrfingur er fersk rödd og við erum bara að reyna að ydda hana, tálga og þjóna eftir bestu getu,“ segir Bergur.

Tilfinningalegt tívolí

Bergur segir handrit Tyrfings ýta öllum þeim sem að sýningunni koma fram á ystu brún. „Handritið lá fyrir þegar aðkoma mín hófst. En eins og gerist þegar verið er að frumsýna verða auðvitað einhverjar breytingar í ferlinu. Ef ég man rétt komu tvær nýjar útgáfur af handritinu frá Tyrfingi eftir okkar samtöl. Síðan breyttist hellingur úti á gólfi. Það er ekki allt sem gengur upp sem stendur á blaðinu þegar á sviðið er komið, en rosalega margt þó.“

Aðspurður hvort leikritið sé að einhverju leyti ádeiluverk segir Bergur svo vera. „Auðvitað er allt pólitískt. En ég held að hver og einn verði að greina og finna ádeiluna fyrir sjálfan sig í verkinu. Þegar ég las verkið fyrst þá kom upp í hugann sú setning að verkið væri Disneyland í svartholi. Það kannski lýsir verkinu vel. Verkið er fullt af persónum sem forðast í lengstu lög að kannast við sjálfar sig og eru endalaust að búa til umbúðir og þaðan er heiti sýningarinnar komið, auglýsing ársins,“ segir Bergur og bætir við: „Án þess að vita um hvað auglýsingin á að vera byrja starfsmenn auglýsingastofunnar að búa til umbúðir. Þetta er eins og tilfinningalegt tívolí.“

Bergur minnist þess að Tyrfingur hafi sjálfur starfað á auglýsingastofu. Ádeilan í verkinu sé þó sennilega helst ádeila á hans eigin störf þar heldur en ádeila á það fólk sem þar starfar.

Klúru senurnar jafnágengar og hinar

Sýningin inniheldur nokkur klúr atriði og útskýrir Bergur tilganginn. „Tyrfingur hefur verið að skoða leikhús um allan heim og þá sérstaklega hinsegin-senuna sem sett hefur hlutina svolítið á hvolf. Þegar leikritið er lagt fram þýðir ekkert annað en að fara alla leið. Það sem stendur í handritinu þjónar allt tilgangi. Klúru senurnar í verkinu eru alveg jafnágengar og annað í verkinu en þó án þess að vera árásargjarnar,“ segir Bergur.

Leikaravalið segir Bergur að hafi legið ansi vel við en í sýningunni má sjá þau Björn Thors, Elmu Stefaníu Ágústsdóttur, Hjört Jóhann Jónsson, Kristínu Þóru Haraldsdóttur, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og Theódór Júlíusson.