Áhyggjur aukast í Þýskalandi vegna bresta í flóttamannaáætlun og efasemda um stefnu Seðlabanka evrunnar

Evrópusambandið samþykkti á síðasta neyðarfundi sínum flókna en um leið nokkuð óljósa áætlun um hvernig stöðva bæri flóttamannastrauminn frá Norður-Afríkur og frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs til landa sambandsins.

Í fljótu bragði virtist eins og bræðurnir frá Bakka hefðu veitt sérfræðiaðstoð við áætlunargerðina, í framhaldi af rómuðu skipuriti sínu um hvernig bera mætti sólarljósið inn í bæinn þeirra. Því áætlunin gekk út á það að flytja tiltekinn fjölda flóttamanna nauðuga frá Grikklandi til Tyrklands gegn því að taka jafn marga Sýrlendinga til baka úr flóttamannabúðum þar og í Sýrlandi og flytja þá til ESB-landa.

Í stefnunni fólst að sögn áhrifamikil aðgerð til að sannfæra fólk á hrakhólum með valdi um það, að flóttaför á pasturslitlum kænum yfir hafið væri ekki leiðin til að komast til Evrópu.

Það skrítna er að þeir sem hafa þegar stofnað lífi sínu og sinna í hættu eru aðgöngumiðinn fyrir hina sem ekkert hafa lagt á sig.

En hvað sem því líður var forsenda þess að hin sérkennilega áætlun gengi upp, sú að flóttamannastraumurinn fyndi ekki aðra leið til ESB en um Tyrkland og Grikkland. En nú bendir því miður flest til þess að sú von sé úti.

Sikiley á Ítalíu virðist vera að taka við hlutverki Lesbos og Grikklands. Síðustu þrjá dagana hafa 6.000 flóttamenn komið til Sikileyjar. Verði framhald á gætu hundruð þúsunda komið þessa lengri leið yfir hafið allt þar til veður versnar næsta haust. Flóttamannafjöldi til Sikileyjar hefur aukist um 90 prósent frá fyrra ári. Öllum er ljóst að ítölsk yfirvöld ráða ekki við þennan flóttamannastraum. Efnahagsástandið á Ítalíu hefur farið hríðversnandi síðustu misserin og óttast margir að Ítalía feti sömu leið hörmunga og Grikkir, Portúgalir og Spánverjar hafa gengið í gegnum.

Efnahagsöngþveiti á Ítalíu gæti orðið síðasti naglinn í kistu evrunnar. Seðlabanki sameiginlegu myntarinnar býr ekki yfir fleiri vopnum í sínu búri en hann hefur þegar brúkað. Vextir bankans eru öfugir og allar hirslur hans eru yfirfullar af skuldabréfum aðildarlanda í vandræðum. Styttingur er orðinn í samskiptum Merkel kanslara Þýskalands og Mario Draghi bankastjóra. Sífellt fleiri þýskir áhrifamenn telja að neyðarráðstafanir Seðlabankans hafi ekki dugað. Aldrei hafi staðið til að þær myndu standa yfir eins lengi og orðið er. Fái evrubankinn að halda enn áfram á sömu braut muni það fljótlega hafa óafturkræf neikvæð áhrif fyrir myntsvæðið almennt og Þýskaland sérstaklega.

Þýskaland hefur fram að þessu verið það land sem mest hefur hagnast á myntsamstarfinu. En nú er afstaðan þar á bæ sú að aðgerðir Seðlabankans geti valdið Þýskalandi og sérstaklega bankakerfi þess miklu tjóni.