Gunnsteinn Ólafsson
Gunnsteinn Ólafsson
Vegna fjölda áskorana verður ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson sýnd þrisvar sinnum í Norðurljósasal Hörpu 20.-22. maí nk.

Vegna fjölda áskorana verður ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson sýnd þrisvar sinnum í Norðurljósasal Hörpu 20.-22. maí nk. Óperan hlaut mikið lof þegar hún var frumsýnd í ágúst í fyrra og var hún sýnd fyrir fullu húsi. Í henni segir frá Baldursbrá sem á sér þann draum heitastan að sjá sólarlagið ofan af fjalli þaðan sem víðsýnt er. Sú för reynist mikið hættuspil. Spói vinur hennar fær Rebba til liðs við þau að bera blómið upp á fjallseggjar en illilegur Hrútur situr þar um líf Baldursbrár. Yrðlingar Rebba koma einnig mikið við sögu, enda hrútaveiðar mikilvægur þáttur í þroska hvers yrðlings.

Í aðalhlutverkum eru Fjóla Nikulásdóttir sem Baldursbrá, Eyjólfur Eyjólfsson fer með hlutverk Spóa, Jón Svavar Jósefsson er Rebbi og Davíð Ólafsson er Hrúturinn illilegi. Ellefu börn fara með hlutverk yrðlinga. Leikstjóri er Sveinn Einarsson en hljómsveitarstjóri er Gunnsteinn Ólafsson.