Sjókvíaeldi Unnið við laxeldi í sjókvíum. Gerðar eru sömu kröfur til gæða búnaðar og í Noregi meðal annars til að koma í veg fyrir slysasleppingar.
Sjókvíaeldi Unnið við laxeldi í sjókvíum. Gerðar eru sömu kröfur til gæða búnaðar og í Noregi meðal annars til að koma í veg fyrir slysasleppingar. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Skipulagsstofnun hefur samþykkt áætlun Háafells ehf., dótturfélags Hraðfrystihússins - Gunnvarar á Ísafirði, um að framleiða 6.800 tonn af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

Skipulagsstofnun hefur samþykkt áætlun Háafells ehf., dótturfélags Hraðfrystihússins - Gunnvarar á Ísafirði, um að framleiða 6.800 tonn af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Laxinn kemur í stað regnbogasilungs sem fyrirtækið hafði farið með í gegn um umhverfismat og er nú með í leyfisveitingaferli. Fyrirtækið telur laxeldið arðbærara en silungseldið.

Fjölmargar athugasemdir bárust við drög Háafells að matsáætlun, einkum frá veiðifélögum og samtökum um verndun laxastofna en einnig frá landeigendum, Fuglavernd og einu fiskeldisfyrirtæki.

Svipað lífrænt álag

Í athugasemdum er meðal annars fullyrt að burðarþol Ísafjarðardjúps hafi ekki verið metið. Skipulagsstofnun bendir í því sambandi á að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hafi samþykkt burðarþolsmat sem lagt var til grundvallar mati á umhverfisáhrifum 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi. Í drögum að starfsleyfi sé gert ráð fyrir að starfsemin verði endurskoðuð ef endurskoðað burðarþolsmat sem Hafrannsóknastofnun vinnur að verði metið of lítið fyrir starfsemina. Þá sé ljóst að sama framleiðslumagn af laxi muni leiða af sér sambærilegt lífrænt álag og framleiðsla á jafnmiklu magni af silungi.

Í athugasemdum koma fram áhyggjur af því að laxalús smitist í náttúrulega laxastofna ef lúsafaraldur komi upp í sjókvíaeldinu og að eldislax sem kunni að sleppa fyrir slysni eyði villtum laxastofnum í ám sem renna í Ísafjarðardjúp. Þessu þarf Háafell að svara í frummatsskýrslu.

Metin samlegð með Arnarlaxi

Skipulagsstofnun féllst á matsáætlunina með nokkrum athugasemdum. Þannig er þess meðal annars krafist að gerð verði grein fyrir samlegð fyrirhugaðs laxeldis með nýjum áformum Arnarlax hf. um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Lýsa þarf ítarlega viðbragðsáætlun sem fylgt verður ef eldislax sleppur og hvernig verja eigi að hann gangi upp í ár. Farið er fram á að gerð verði grein fyrir því hvernig staðið verður að vöktun á lífrænu álagi sjávar og hvernig brugðist verður við ef álag verður umfram viðmið. helgi@mbl.is