Í dag þykir sjálfsagt að deila persónulegum ljósmyndum á samfélagsmiðlum á borð við Instagram.
Í dag þykir sjálfsagt að deila persónulegum ljósmyndum á samfélagsmiðlum á borð við Instagram. — Getty Images
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðan samfélagsmiðlar komu til sögunnar hafa myllumerki náð miklum vinsældum. Myllumerki eða „hashtag“ eins og það heitir á ensku er flokkunarkerfi sem gerir fólki meðal annars kleift að sortéra myndir.

Síðan samfélagsmiðlar komu til sögunnar hafa myllumerki náð miklum vinsældum. Myllumerki eða „hashtag“ eins og það heitir á ensku er flokkunarkerfi sem gerir fólki meðal annars kleift að sortéra myndir. Undanfarið hefur það svo tíðkast að brúðhjón búi til sitt eigið myllumerki fyrir brúðkaupsdaginn, þá geta þau og gestir þeirra sett allar þær myndir sem þau birta á samfélagsmiðlum undir sama hattinn. Eftir daginn geta hjónin svo slegið inn myllumerkið sitt og skoðað myndirnar eins og um myndaalbúm væri að ræða. En hvað inniber myllumerki nákvæmlega? Guðný Hrönn | gudnyhronn@mbl.is

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og fyrirlesari, hefur fjallað töluvert um netöryggi undanfarin ár. „Það eru ýmsir kostir sem fylgja því að vera með svona myllumerki sem er tileinkað deginum, það býður upp á þann möguleika að allir sem deila þessum merkilega degi með manni geti þá um leið deilt myndum og gert þær aðgengilegar,“ útskýrir Þórdís. Hún mælir með að verðandi brúðhjón leiði hugann að því hvað það þýðir að biðja fólk um að merkja myndirnar sínar með brúðkaupsmyllumerki.

„Þessu fylgja auðvitað bæði kostir og gallar. Þegar stór hópur fólks er búið að „hashtagga“ brúðkaupsmyndirnar þínar þá hefur þú afsalað þér stjórn yfir framsetningu þeirra. Þær verða hugsanlega aðgengilegar um ókomna tíð undir myllumerkinu,“ segir Þórdís Elva. „Óprúttinn aðili gæti til dæmis tekið upp á því að nota brúðkaupsmyllumerkið þitt til að merkja myndir sem eru óviðeigandi og tengjast stóra deginum þínum ekki neitt. Svoleiðis getur líka átt sér stað fyrir slysni, að fólk slysast til að nota sama myllumerkið í allt öðrum tilgangi. Þess vegna er ráðlegt að vinna smá rannsóknarvinnu fyrst og fletta upp myllumerkinu sem maður hyggst nota.“

Ljósmyndir fá annan blæ ef aðstæður í lífi fólks breytast

„Það að myndir sem eru mjög persónulegar, frá persónulegum stundum í lífi fólks, séu öllum aðgengilegar á miðlum eins og Instagram getur einum þótt jákvætt og öðrum neikvætt. Sumir eru ekki tilbúnir að hafa persónulegar myndir á netinu fyrir allra augum alla tíð, svo geta auðvitað aðstæður í lífi fólks breyst. Það er staðreynd að sumum hjónaböndum lýkur með skilnaði, og þá fá svona myndir annan blæ og tengjast þá öðrum kafla í lífi fólks. Ég hef sjálf gaman af því að deila myndum og lifa í augnablikinu og mér finnst allt í lagi að líta á gamlar myndir, jafnvel þótt aðstæður í lífi mínu hafi breyst, sem tákn síns tíma. En ég skil samt að hlutir geti æxlast með misjöfnum hætti og þess vegna finnst mér mikilvægt að fólk hugsi þetta svolítið áður en það leggur af stað. “

Þórdís Elva bendir á að brúðhjón vandi valið á staðsetningu, veitingum og skreytingum á stóra deginum sínum. Utanumhald um ljósmyndir frá brúðkaupinu sé val sem brúðhjón ættu ekki síður að velta fyrir sér og sníða að eigin þörfum. „Brúðhjón geta farið fleiri leiðir, til dæmis beðið gestina sína um að hlaða myndunum inn á vefsvæði sem þau sjálf hafa stjórn yfir, í stað þess að notast við myllumerki á Instagram sem gefur þeim afar takmarkaða stjórn yfir framtíð myndanna. Þegar um er að ræða eitthvað eins merkilegt og brúðkaupsdaginn þá vilja að sjálfsögðu langflestir að sá viðburður sé ljósmyndaður og varðveittur. Fólk vill geta vitjað þessara minninga og glaðst yfir þeim aftur og aftur, ég tala nú ekki um á brúðkaupsafmælunum. Það finnst mér skiljanleg og falleg hvöt. Þetta er auðvitað yndislegur viðburður í lífi fólks og þá mikilvægt að hver og einn útfæri þetta eftir sínu höfði og hjarta.“