Sigurmar K. Albertsson
Sigurmar K. Albertsson
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sigurmar K. Albertsson hrl. segist í yfirlýsingu hafa tímabundið setið í stjórn Sýreyjar ehf. en síðan ekkert haft af félaginu að segja.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigurmar K. Albertsson hrl. segist í yfirlýsingu hafa tímabundið setið í stjórn Sýreyjar ehf. en síðan ekkert haft af félaginu að segja.

Hann hafi sem lögmaður stofnað mörg félög fyrir umbjóðendur sína en þó ekkert „á erlendri grundu og ennþá síður í þeim tilgangi að koma verðmætum í skattaskjól“.

Tilefnið er umfjöllun í ViðskiptaMogganum um að samkvæmt ársreikningum félagsins Sýreyjar árin 2005-2014 hafi það ávallt verið í eigu Holt Investment Group Limited.

Sagði í fréttinni að Sigurmar hefði stofnað Sýreyju og verið „forsvarsmaður þess þegar það var skráð á Tortóla“. Sigurmar segist hafa setið í stjórn félagsins um hálfs árs skeið.

Miðar við ágústmánuð 2005

„Ég sat í stjórn þess um sex mánaða skeið eða til 10. febrúar árið 2006. Síðan hef ég hvorki heyrt né séð þetta félag,“ skrifar Sigurmar sem vill jafnframt „taka það fram að félagið Sýrey ehf. var stofnað í ágúst árið 2005“.

Það kemur hins vegar fram í tilkynningu um stofnun einkahlutafélagsins Sýreyjar, sem móttekin var hjá Ríkisskattstjóra 1. mars 2005, að sendandi sé Sigurmar og fylgdi með undirritun hans. Í fréttinni var stuðst við þetta skjal og annað skráningarskjal Holt Investment Group 5. apríl 2005 vegna umsóknar um íslenska kennitölu. Í ársreikningi Sýreyjar árið 2005 er félagið sagt í 100% eigu Holt Investment Group, sem skráð var á Tortóla-eyju.

Átti kröfu á Kaupþingsmenn

Samkvæmt Creditinfo á Sigurmar 20% hlut í Lagastoð lögfræðiþjónustu ehf. Fram kemur í ársreikningi félagsins Hvítstaða ehf. árið 2014 að skuldir félagsins við Lagastoð ehf. séu gjaldfallnar. Þær voru rúmar 1.100 milljónir, eða 1.157.009.324 kr. Hvítstaðir voru í eigu fimm fv. lykilstjórnenda í Kaupþingi. Ágreiningur var sagður um eftirstöðvar lánanna vegna óvissu um lögmæti lána „sem tengjast erlendum myntum“.