Angela Merkel kanslari
Angela Merkel kanslari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Stjórnmálaskýrendur telja að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sé í úlfakreppu vegna kröfu Tyrkja um að þýsk yfirvöld saksæki sjónvarpsgrínista fyrir að móðga forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Stjórnmálaskýrendur telja að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sé í úlfakreppu vegna kröfu Tyrkja um að þýsk yfirvöld saksæki sjónvarpsgrínista fyrir að móðga forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan. Þeir segja að Merkel eigi aðeins tvcggja kosta völ, beggja mjög slæmra, og sumir þeirra telja að málið geti kostað hana kanslaraembættið.

Krafa Tyrkja byggist á gömlu ákvæði í þýsku hegningarlöggjöfinni sem bannar hvers konar móðgun við þjóðhöfðingja annarra ríkja. Brot við ákvæðinu varðar sekt eða allt að þriggja ára fangelsisdómi. Til að yfirvöld geti hafið saksókn á grundvelli ákvæðisins þarf þjóðhöfðinginn að óska eftir því og þýsk stjórnvöld þurfa síðan að heimila hana.

Þetta setur Merkel í mikinn vanda að mati stjórnmálaskýrenda sem segja að hún þurfi að velja á milli þess að ergja mikilvægan samstarfsmann í tilraunum til að leysa flóttamannavanda Evrópu og þess að styggja þýska kjósendur.

Reyndi að sefa Tyrki

Tildrög þess að Merkel komst í þessa stöðu er ögrandi ljóð sem þýski sjónvarpsgrínistinn Jan Böhmermann flutti í vikulegum þætti sínum 31. mars. Áður en hann hóf lesturinn sagði hann við viðmælanda sinn að hann hygðist fara með ljóð sem bryti í bága við þýsk lög. Böhmermann sat fyrir framan tyrkneska fánann og mynd af Erdogan og las ljóð þar sem forsetinn er sakaður um kynmök við geitur og kindur, sagður „kúga minnihlutahópa, sparka í Kúrda og berja kristið fólk á meðan hann horfir á barnaklám“.

Þýsk yfirvöld hófu rannsókn á málinu í vikunni sem leið eftir að nokkrir þýskir áhorfendur kærðu þáttinn. Talsmaður Merkel skýrði síðan frá því á mánudaginn var að tyrknesk stjórnvöld hefðu mótmælt ljóðinu formlega og krafist þess að Böhmermann yrði sóttur til saka fyrir óhróður. Talsmaðurinn sagði að kanslarinn, utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið væru að íhuga beiðnina og ákvörðun yrði tekin í málinu á næstu dögum.

ZDF -sjónvarpið, sem sýndi þáttinn, kvaðst styðja Böhmermann í málinu en fjarlægði þáttinn umdeilda af vefsíðu sinni. Merkel reyndi að sefa Tyrki með því að hringja í forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, á sunnudaginn var. Talsmaður Merkel staðfesti þetta og sagði að kanslarinn hefði sagt við forsætisráðherrann að ljóð grínistans væri „vísvitandi móðgun“.

Alexander Kissler, blaðamaður stjórnmálatímaritsins Cicero , segir að Merkel hafi orðið á „mikil mistök“ með því að hringja í tyrkneska forsætisráðherrann og láta síðan skýra frá því opinberlega. Öllum sé nú ljóst að Merkel hafi reynt að „spekja Tyrki“ en sú tilraun hafi mistekist.

Þýska vikublaðið Der Spiegel hefur einnig gagnrýnt Merkel fyrir að reyna að sefa Tyrki og sagt að þau mistök geti að lokum kostað hana kanslaraembættið. „Hún hefði getað tekið skýrt fram að hún styddi Böhmermann, eins og búast mætti við af kanslara sem á að vernda stjórnarskrá Þýskalands,“ sagði Der Spiegel og skírskotaði til tjáningarfrelsisins. „Kanslarinn þarf nú að ákveða hvort heimila eigi þýskum saksóknurum að hefja saksókn fyrir móðgun við erlendan þjóðhöfðingja – en þar sem hún hefur þegar látið talsmann sinn segja að ljóðið sé „móðgun“ hefur hún mjög lítið svigrúm til að snúa sig út úr vandræðunum.“

Kissler tekur í sama streng og segir að enginn kostur sé góður fyrir Merkel í stöðunni. Hann telur að kanslarinn verði að hafna kröfu Tyrkja. „Allt annað gæti kostað Merkel kanslaraembættið,“ hefur fréttavefur Deutsche Welle eftir Kissler.

Gætu rift samkomulaginu

Blaðamaðurinn telur einnig að það geti dregið dilk á eftir sér ef Merkel hafnar kröfunni því að það myndi ergja Tyrki sem gætu svarað með því að rifta samkomulagi sem Evrópusambandið náði við þá 18. mars um aðgerðir til að draga úr flóttamannastraumnum til ríkja sambandsins. Mál Böhmermanns kom upp á mjög slæmum tíma fyrir Merkel og varð til þess að hún var sökuð um að beygja sig í duftið fyrir Erdogan til að friða hann vegna samkomulagsins sem sumir stjórnmálaskýrendur telja að hafi bjargað kanslaranum frá falli vegna flóttamannavandans – að minnsta kosti um stundarsakir.

Samþykki Merkel kröfu Tyrkja verður hún sökuð um að fórna tjáningarfrelsinu fyrir mikilvægan samstarfsmann í flóttamannamálinu. Hafni hún kröfunni tekur hún þá áhættu að Tyrkir rifti samkomulaginu og það gæti orðið til þess að tilraunir þýsku stjórnarinnar og Evrópusambandsins til að stöðva flóttamannastrauminn til Evrópu færu út um þúfur eftir að sú ákvörðun hennar að bjóða öllum sýrlenskum flóttamönnum að koma til Þýskalands varð til þess að hundruð þúsunda flóttamanna fóru þangað síðastliðið haust. „Þetta hneykslismál grefur undan trúverðugleika Merkel og afhjúpar misheppnaða stefnu hennar í málefnum flóttamanna,“ sagði stjórnmálaskýrandi þýska sjónvarpsins n-tv .

Áður en mál grínistans kom upp hafði samkomulagið sætt gagnrýni í Þýskalandi vegna mannréttindabrota tyrkneskra stjórnvalda sem hafa virt málfrelsi og frelsi fjölmiðla að vettugi, m.a. með því að láta handtaka blaðamenn og höfða mál gegn hundruðum manna, m.a. börnum, fyrir að móðga Erdogan frá því að hann varð forseti árið 2014.

Er undir vernd lögreglu
» Ef grínistinn Jan Böhmermann verður saksóttur fyrir móðgun við forseta Tyrklands er ólíklegt að hann verði dæmdur í fangelsi, að mati þýska lögfræðingsins Ralfs Höckers. Hann telur líklegra að Böhmermann yrði dæmdur til að greiða sekt.
» Hermt er að Böhmermann sé nú í felum undir vernd lögreglu.